„Þegar Hörður Arnarsson tók við sem forstjóri Landsvirkjunar 2010 þá átti að keyra á orkuöflun í landinu. Það var á einhverjum fundi 2011 þar sem hann talaði um að það ætti að keyra á orkuöflun, það yrði síðasta stórvirkjunarskeiðið í sögu landsins þar sem farið yrði kerfisbundð í alla þessa stóru virkjunarkosti og bara klára þá. Þannig að þetta yrði síðasta hagvaxtarskeiðið þar sem keyrt yrði á virkjunarframkvæmdum, sem drifkraft samfélagsins, við getum orðað það svoleiðis.“
Þetta segir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og formaður Náttúrugriða, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Snæbjörn birti í gær aðsenda grein á Vísi sem hefur vakið mikla athygli. Fyrirsögn pistilsins hefur ekki síst vakið athygi, Að sjúga í sig orkulindir Íslendinga, en í stuttu máli segir Snæbjörn að krafa sumra um að nú sé nauðsynlegt að virkja meira í þágu orkuskipta sé í besta falli eftiráskýring.
„Grundvöllur greinarinnar er að síðustu ár hefur verið talað um nauðsyn virkjanaframkvæmda sem forsenda orkuskipta, því þetta er græn orka og framlag til loftlagsmála en ef maður lítur lengra aftur en síðustu fimm ár, þá hefur alltaf verið þessi þrýstingur á virkjanir, algjörlega óháð loftlagsmálum. Að mínu mati eru þessar hugmyndir í dag ekkert nema grænþvottur,“ segir Snæbjörn.
Snæbjörn útskýrir þetta í þaula ásamt Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, í ítarlegu viðtali við Rauða borðið í kvöld.