Það er sama hvernig á það er litið, útboðsgengi Íslandsbanka sumarið 2021 var með gríðarlegum afslætti. Þetta sést þegar gengið er borið saman við íslensku kauphöllina en ekki síður þegar verðþróun Íslandsbanka er skoðuð í samhengi við banka á Norðurlöndum. Hlutabréf stærstu banka á Norðurlöndum hefur hækkað um 7% frá útboðsdeginum en hlutabréf í Íslandsbanka um 58%.
Samanlagt hefur gengi sex stærstu banka Norðurlandanna hækkað um 7% frá 15. júní 2021. Þetta eru Nordea bank, Danske bank, Svenska Handelsbanken, SEB, DNB og Swedbank. Hinn sænski Nordea hafur hækkað mest, um 13,8%, en hinn norski DNB er sá eini sem hefur lækkað, um -4,5%. Sjöundi stærsti banki Norðurlandanna er samvinnufélag og er ekki skráð í kauphöll, OP í Finnlandi.
Á sama tíma hefur gengi hlutabréfa Íslandsbanka hækkað um 58,7% eða um 92,8 milljarða króna. Ef við miðum við hina sex stóru á Norðurlöndum hefur Íslandsbanki hækkað um 81,8 milljarð króna umfram norrænu bankana. Af því eru 28,6 milljarðar ávinningur til þeirra sem keyptu í fyrra útboðinu.
Þetta er í takt við annan samanburð, augljóst er að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Bankasýslan seldu bankann með stórkostlegum afslætti. Munurinn er enn meiri ef við miðum við íslensku bankana, Arion og Kviku. Þeir hafa samanlagt aðeins hækkað um 1,8% frá 15. júní 2021.
Þetta er hins vegar erfiður samanburður þar sem Kvika er mikill braskbanki og verð hans sveiflast eftir gengið félaga sem hann á hlut í, auk þess sem hann sameinaðist TM tryggingafélagi á tímabilinu. En í samanburði við verðþróun Arion-banka hefur Íslandsbanki hækkað um 77,9 milljarða króna umfram Arion.