Emmanuel Macron, frakklandsforseti, reynir nú að lögfesta breytingar á lífeyriskerfi Frakka þvert á vilja meginþorra landsmanna. Stærstu alþýðusambönd Frakklands hafa boðað til verkfalls í dag, til að mótmæla breytingunum. Búist er við að um milljón manns mótmæli frumvarpi forsetans í 260 mótmælagöngum um gjörvallt landið.
Breytingarnar eru margslungnar en í þeim drögum sem liggja nú fyrir þinginu er eftirlaunaaldur hækkaður úr 62 árum í 64 ár og lífeyrisréttindi ýmissa hópa, svo sem kvenna skorin niður til muna vegna lægri atvinnutekna á lífsleiðinni. Stjórnvöld segja málið flókið, að núverandi lífeyriskerfi sé ósjálfbært og hækkun eftirlaunaaldurs komi til af illri nauðsyn. Fólk hafi fullan rétt til að mótmæla en afstöðu stjórnvalda verði ekki haggað.
Laurent Berger, talsmaður CFDT, einna fjölmennustu verkalýðssamtaka Frakklands segir markmið mótmælanna að sýna forseta lýðveldisins fram á vilja fólksins með fjölmennum friðsamlegum mótmælum, nokkurskonar milljónagöngu Frakka gegn yfirgangi og óréttlæti. Um 93 % vinnandi manna séu á móti á breytingunum og á þau beri að hlusta.
Samhliða mótmælagöngum munu lestarstarfsmenn, kennarar og vörubílstjórar leggja niður störf. Nú þegar hefur starfsfólk orkugeirans hafið verkfall. Verður verkföllunum fram haldið þar til sjónarmiðum almennings verði mætt.
Rætt verður við Einar Má Jónsson prófessor í Sorbonne í París um mótmælin og stjórnmálaástandið í Frakklandi við Rauða borðið í kvöld.
Myndin er af mótmælum gegn eftirlaunafrumvarpinu í fyrra mánuði.