Erlent starfsfólk er nú um 22 prósent vinnumarkaðsins og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka á vinnumarkaðnum. Bankinn segir mikla spennu á vinnumarkaðnum og talsverða eftirspurn eftir starfsfólki.
Samkvæmt greiningu bankans vilja um 30 prósent stærstu fyrirtækja landsins fjölga starfsfólki á næsta hálfa ári. Einungis um 12 prósent þeirra stefna á að fækka starfsfólki. „Þessari auknu eftirspurn eftir vinnuafli á undanförnum misserum hefur verið mætt af erlendu starfsfólki. Erlent starfsfólk telur nú 22% vinnumarkaðar og hefur hlutfall þeirra aldrei verið hærra. Þessi fjölgun erlends starfsfólks skýrir að stærstum hluta þá sögulega fólksfjölgun sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum,“ segir í greiningu bankans.
Í fyrra fjölgaði íbúum Íslands um þrjú prósent, sem er mesta ársfjölgun frá upphafi mælinga. Fjölgun íbúa var nær alfarið byggð á aðfluttum erlendum ríkisborgurum. Íbúum fjölgaði um ríflega þrjú þúsund, þar af voru 2.790 erlendir ríkisborgarar.