Í yfir þrjá mánuði hefur yfirborð sjávar verið heitara en það hefur nokkurn tímann mælst áður yfir þennan árstíma. Þetta gæti verið vegna samverkandi þátta veðurfarsbreytinga, „El Niño” skilyrða í hafi (sjá grein) og skorti á sandi frá Sahara-eyðimörkinni.
Hiti í Norður-Atlantshafi hækkar venjulega yfir sumartímann og nær hámarki seint í ágúst eða snemma í september. Þann fimmta mars síðastliðinn varð meðalhitinn 19.9 gráður celsíus en það braut síðasta hitamet sem var slegið árið 2020 um 0.1 gráðu.
Þann 11. júní náði hitinn 22.7 gráðum, hálfri gráðu yfir meti þess tíma frá 2010.
Ný met slegin reglulega
Þetta óvenjulega hitastig sjávar í Norður-Atlantshafinu er einungis eitt dæmi um hitamet í sjó víðs vegar um hnöttinn. Nýtt hitamet fyrir meðaltal hita í öllum höfum heims var slegið 1. apríl síðastliðinn, var þá í 21.1 gráðum. Síðan þá hefur hiti lækkað lítillega niður í 20.9 gráður en það er enn þá 0,2 gráðum yfir síðasta hitameti fyrir þennan tíma frá því í fyrra.
Margt getur verið að valda þessu
Það er ekki alveg ljóst hvað nákvæmlega er að reka áfram þessa hlýnun í Norður-Atlantshafi en vísindamenn hafa lagt fram ýmsar kenningar sem þeir eru í óðaönn að rannsaka.Einn mögulegur þáttur í þessu sem Michael Mann, prófessor í jarðeðlisfræði, leggur fram er að það er minna af sandi frá Sahara-eyðimörkinni yfir hafinu.
Sandur frá Sahara kælir hafið
Sandur sem fýkur frá Sahara-eyðimörkinni hefur iðulega kælandi áhrif á Norður-Atlantshafið á þessum árstíma vegna þess að sandurinn kastar frá vatninu heitum geislum sólarinnar. Þeir vindar sem flytja þennan sand til okkar heimshluta eru veikari en venjulega og búist er við minna af þessum sandi en venjulega út júní. Vísindamenn segja að kraftleysi þessa vinda megi rekja til „El Niño” veður- og vatnsfyrirbrigða í hafi.
Skortur á sandi hefur ekki allt að gera með veðurfarsbreytingar, samkvæmt Michael Mann, „Þetta sýnir fram á samspil veðurfarsbreytinganna og venjulega breytileika náttúrunnar”.
Hærri sjávarhiti getur aukið kraft storma en breytingar í vindum vegna El Niño gætu dregið úr þeim áhrifum. El Niño geta, ef þau halda mikið áfram, skaðað vistkerfi sjávar með því að minnka blöndun á milli mismunandi laga hafsins, sem dregur úr súrefni.
Hafa áhyggjur af „Blue Ocean Event”
„Blue Ocean Event”, BOE, er atburður sem hefur verið spáð þar sem megnið af ísnum á norðurslóðum bráðnar yfir sumartímann. Þar sem það verður minna en milljón ferkílómetrar af ís eftir.
Ef það gerist verður mun meira af hafinu bert fyrir sólinni en er venjulega yfir þennan tíma. Ís hefur þá eiginleika að geta drukkið í sig töluvert af hita áður en hann byrjar að bráðna og því myndi bert haf draga í sig meiri hita frá sólinni en ísinn gerir. Ís kastar líka frá sér ljósi að töluverðu leyti, sem dregur enn meira úr hitun. Sumir vísindamenn kalla ísinn loftkælikerfi jarðarinnar.
Ættum að vera á leið inn í aðra ísöld
Síðustu ísöld lauk, eða hörfaði, fyrir um það bil 10.000 árum. Þær orsakast líklega vegna smávægilegra breytinga á halla og sporbaug jarðarinnar og samkvæmt kenningum vísindamanna ættum
við að vera á leiðinni inn í aðra ísöld. Þrátt fyrir það er ísinn að bráðna hratt vegna skjótrar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.
Meðalhiti jarðarinnar hefur verið að hækka mjög hratt síðustu 100 ár og vegna þess er meira af ís að bráðna en verður til. Sumar afleiðingar þess að meira og meira af ís sé að bráðna eru, samkvæmt vísindamönnum, eftirfarandi;
*Hækkandi yfirborð sjávar
*Gríðarlegt aukið magn af ferskvatni í sjó sem hefur miklar afleiðingar fyrir vistkerfi sjávar, mörg dýr geta ekki aðlagast
*Aukið ferskvatn getur breytt eiginleikum strauma í hafinu
*Bráðnun jökla og íss dregur úr því ferskvatni sem plöntur og dýr (og menn) geta nálgast
Íslausar norðurslóðir á næstu tíu árum?
Samkvæmt rannsóknargrein frá vísindamönnunum Julienne Storeve og Dirk Notz í Environmental Research Letters frá 2018 er bráðnun íss að fara hraðar á hverjum áratug.
„Bráðnun íss á vetrarmánuðum hefur farið hraðar áratug eftir áratug. Frá -2.4% á áratug frá 1979 til 1999 upp í -3.4% á áratug frá árinu 2000 og áfram. Við sáum beint línulegt samband á milli magns íss og magns koltvísýrings í andrúmsloftinu af mannavöldum. Árlegt tap íss á norðurslóðum með hverju auknu tonni af koltvísýring í andrúmsloftinu af mannavöldum er um það bil fermeter yfir vetrartímann upp í 3 fermetra að sumri til. Ef við göngum út frá þessari spá mun ís að mestu leyti hverfa frá norðurslóðum frá ágúst til september með auka 800 ± 300 gígatonnum útblæstri af koltvísýring og yrði íslaust yfir sumartímann með auka 1400 ± 300 gígatonnum af útblæstri.”
Þau fundu beint línulegt samband á milli aukins útblásturs koltvísýrings og bráðnunar íss. Með áframhaldandi aukningu á útblæstri koltvísýrings er það því líklega bara tímaspursmál hvenær norðurslóðir verða að mestu íslausar sem mun enn frekar draga úr stöðugleika jarðkerfisins.