Gjaldskrá leikskólagjalda í Kópavogi mun hækka um hátt í fimmtíu prósent um næstu mánaðarmót ef nýttir eru fleiri en 6 tímar á dag og eru leikskólapláss bæjarins þau dýrustu á landinu. Ef undir sex tímum verður leikskólinn gjaldfrjáls.
Samkvæmt nýju gjaldskránni verður boðið upp á að sækja um tekjutengdan afslátt þann 1. september 2023 og er hann 40% af dvalargjöldum.
Þá verður afsláttur fyrir einstæða foreldra, námsmenn þar sem báðir foreldrar eru í fullu námi og öryrkja með metna örorku (75% eða meira) felldur niður um áramót.
Þessi breyting mun að öllum líkindum koma verst niður á þeim verst settu en um 2% foreldra nýta undir 6 tíma vistun. Lágtekjufólk sem oft þarfa að vinna langa vinnudaga til að ná endum saman mun illa geta nýtt sex tíma vistunarúrræði. Tekjutenging nýtist illa einstæðu foreldri með mörg börn því þar er einungis horft á auknar tekjur en ekki hærri útgjöld.
Kópavogsbúar á FB síðunni Íbúar 200 Kópavogur eru ekki allir sáttir en þar segir Reynir Freyr Pétursson: „Í alvöru þetta er svo mikið rugl. Nennir einhver að segja þeim að maður neyðist til að vinna lengur enn 5 klst á til hafa efni á því að búa í Kópavogi”.
Jóhann Már Sigurbjörnsson Kópavogsbúi segir einnig: „Meirihlutinn að störfum í Kópavogi. Kannski var ekki best að kjósa Framsókn eða XD”.
Þorgerður L. Diðriksdóttir veltir fyrir sér hvort þessi aðgerð sé lögleg: „Ég er næsta viss um að þessi ákvörðun standist ekki lög. Að 2% íbúa fái ókeypis þjónustu á kostnað hinna.”
Svala Jónsdóttir Kópavogsbúi segir: „Ömurleg þróun, en svona gerist þegar fólki dettur í hug að kjósa fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins sem bæjarstjóra. Fyrirlitningin gagnvart vinnandi fólki er algjör.”
Margrét Tryggvadóttir fyrrum þingkona Borgarahreyfingarinnar og Kópavogsbúi tjáir sig einnig um málið á FB en hún segir: „Sturluð forréttindablinda hjá meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í Kópavogi. Frábært kerfi fyrir fólk sem þarf ekki endilega að vinna fulla vinnu en ömurlegt fyrir venjulegt fólk. Enn ömurlegra fyrir einstæða með lítið bakland sem geta ekki annað en verið í fullri vinnu.”
Bæjarstjóri Kópavogsbæjar Ásdís Kristjánsdóttir segir í samtali við RUV að breytingarnar eigi að vera hvatning til foreldra um að stytta vistunina og hækka laun starfsfólks í leiðinni. Hún segir að rekstur leikskóla sé kominn að þolmörkum og að hundruð leikskólaplássa séu ekki nýtt í bæjarfélaginu þar sem ekki hefur tekist að manna stöðurnar. Fjöldi veikindadaga starfsfólks sé einnig vandamál.
Hæsta gjaldið samkvæmt nýju gjaldskránni mun verða fyrir barn í níu tíma vistun og á fullu fæði 77.474 krónur á mánuði.