„Lífskjarasamningarnir voru bestir fyrir konur og innflytjendur, það hefur hin háæruverðuga Kjaratölfræðinefnd áður reiknað út, samningarnir í vetur voru bestir fyrir íslenska karla með há laun. Hafa skal það sem sannara reynist, ekki satt? Ég ætla hér ekki að rekja sérstaklega þann árangur sem að náðst hefur í vaxtalækkunum á þeim mánuðum sem að liðnir eru frá undirritun and-Lífskjarasamninganna, óþarfi að vera eitthvað nastý. Óþarfi að vera eitthvað mikið nastý, í það minnsta,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook eftir að hafa lesið í vorskýrslu Kjararannsóknarnefndar.
Tilefnið var að Sólveig Anna las á blaðsíðu 31 í skýrslunni að því er haldið fram að kjarasamningarnir sem gerðir voru á almenna markaðnum undir lok árs 2022 hafi verið framlenging á Lífskjarasamningnum. „Eins og meðlimir Kjaratölfræðinefndar hljóta sjálfir að vita er þetta alrangt,“ segir Sólveig Anna. „Lífskjarasamningurinn var samningur um krónutöluhækkanir. Sérstök áhersla var lögð á að auka kaupmátt láglaunafólks, þau hækkuðu hlutfallslega meira en aðrir. Jafnframt var eitt af meginmarkmiðum samningsins að stuðla að vaxtalækkunum. Ef að við skoðum bls. 28 í skýrslu Kjaratölfræðinefndar kemur fram að niðurstaða samninganna í vetur var að þau með hærri laun hækkuðu meira. Hjá verslunar og iðnaðarmönnum var það t.d þannig að láglaunafólkið fékk 33.000 krónur en hálaunahóparnir 66.000 krónur (í raun var hækkunin minni vegna þess að fólk var sjálft látið borga fyrir hækkanirnar með hagvaxtaraukanum, en það er önnur saga… sem samt er gott að minnast tvisvar á í einni færslu…). Þannig að samningarnir sem að gerðir voru undir lok árs 2022 voru frekar and-Lífskjarasamningar en framlenging á Lífskjarasamningunum.“
Sólveig Anna segist hafa fræðst um fleiri í skýrslunni. „Til dæmis hagvaxtarauka-svindlið; þegar umsömdum hagvaxtarauka var stolið af launafólki upp í hækkanir síðustu samninga. Það var magnað snákaolíu-sölumanna trix,“ skrifar Sólveig Anna.
Og meira: „Gaman er fyrir Eflingar-konu að sjá Kjaratölfræðinefnd nota skýrsluna sína til að minna á að “Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann leggur fram miðlunartillögu…”; eins og öll muna ráðgaðist þáverandi ríkissáttasemjari einmitt alls ekki við mig né nokkurn annan meðlim í samninganefnd Eflingar áður en hann afhenti mér tilbúna miðlunartillögu. Hann hefði nú betur ráðfært sig við meðlimi Kjaratölfræðinefndar um þá heimskulegu hugdettu sína en í skýrslunni kemur fram að “Ríkissáttasemjari hýsir nefndina og leggur til fundar- og starfsaðstöðu”. Hæg hefðu því heimatökin verið,“ skrifar Sólveig Anna.
Myndin er af Sólveigu Önnu og Vilhjálmi Birgissyni sem skrifaði fyrstur undir síðastliðinn vetur.