ESB vill bregðast við fjölgun úlfa og árása þeirra á búfénað

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur varað við þeim ógnum sem steðji af fjölgun villtra úlfa í Evrópu. „Þétting úlfahjarða á sumum svæðum Evrópu ógnar búfénaði og mögulega mannfólki um leið,“ lét hún hafa eftir sér og hvatti bæði ríkisstjórnir og sveitarstjórnir til að afla gagna um fjölda úlfa innan sinna umdæma og grípa til aðgerða eftir því sem þurfa þykir.

Í umfjöllun The Guardian um málið kemur fram að smáhestur von der Leyen hafi orðið úlfi að bráð fyrir um ári síðan, og málið standi því hjarta hennar nærri. Þó er ekki um einkaáhyggjur framkvæmdastjórans að ræða.

Bændur víða um álfuna hafa á undanliðnum árum kallað eftir auknum heimildum til að veiða úlfa. Hafið er samráðsferli til að leita jafnvægis milli hugmynda um endurheimt villtrar náttúru, landbúnaðarþarfa og lýðheilsusjónarmiða. Framkvæmdastjórn ESB hefur því kallað eftir gögnum frá öllum sem málið varðar og leitast við að koma tölu yfir fjölda úlfa í álfunni í dag.

„Endurkoma úlfsins til svæða innan Evrópu þar sem dýrið hefur verið fjarri í langan tíma veldur í vaxandi mæli árekstrum við samfélög bænda og veiðimanna, einkum þar sem ekki hefur verið gripið til víðtækra aðgerða til að hindra árásir á búfénað,“ segir í erindi framkvæmdastjórnarinnar.

Úlfahjörð veiðir villisvín.

Að endurheimta villta náttúru – eða verja fólk

Hugtakið rewilding virðist ekki eiga sér íslenska samsvörun enn sem komið er, en það hefur verið nokkuð framarlega í ákveðnum hópum náttúruverndarsinna Evrópu og víðar undanliðinn áratug. Hugtakið er safnheiti á hugmyndum um endurheimt villtrar náttúru, í megindráttum að endurheimta, á verndarsvæðum og jafnvel víðar, náttúrulegt umhverfi eins og ætla mætti að það væri án mannlegra afskipta. Rewilding-samtök hafa á síðustu árum verið í fararbroddi sem talsmenn fyrir friðun villtra úlfastofna í Evrópu.

Úlfar frá sjónarhóli samtakanna Rewilding Europe.

Öldum saman litu Evrópubúar meira eða minna á úlfa sem ógnvald og óvin, og stefndu leynt og ljóst að fækkun ef ekki útrýmingu úlfa á byggðu bóli. Síðasti villti úlfurinn í Danmörku var drepinn árið 1772, sá síðasti í Noregi tveimur öldum síðar, 1973. Ný verndarsjónarmið hafa aftur á móti leitt til fjölgunar í stofnunum. Árið 1978 birtust úlfar aftur í Svíþjóð eftir 12 ára fjarveru, og hafa síðan borist til suðurhluta Noregs. Árið 2005 var talið að villtir úlfar í löndunum tveimur væru alls að minnsta kosti um hundrað. Í Póllandi er talið að nú séu um 800–900 villtir úlfar, og svo framvegis. Talið er að villtir úlfar 28 Evrópulanda séu nú samanlagt um 17 þúsund. Á sama tíma hefur árásum úlfa á búfénað fjölgað og fóru nærri því að tvöfaldast í Frakklandi frá 2010 til 2015.

Samtökin Rewilding Europe segja að úlfastofnar Evrópu hafi verið í jafnvægi fram að miðri 20. öld, en veiðar og „ofsóknir“ upp úr því hafi nánast útrýmt þeim. Talsfólk endurheimtar villtrar náttúru hafa mælt með því að í stað þess að útvíkka lagaheimildir til að fella úlfa þétti bændur rafmagnsgirðingar sínar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí