Húsfyllir var á fyrirlestri Harðar Svavarssonar, skólastjóra Aðalþings, á EECERA ráðstefnunni sem fram fór í Lissabon í Portúgal í liðinni viku. Ráðstefna þessi er allajafna fjölmenn og svo var einnig nú; þátttakendur um 1100, þar af um hundrað manna hópur frá Íslandi.
Hörður fjallaði í sínum fyrirlestri um niðurstöður rannsóknar sinnar um leikrými leikskólabarna. Börnin í veggjunum – um rými barna í leikskólum var titill rannsóknarinnar og var hún styrkt af Rannsóknasjóði KÍ.
Hörður greindi frá því að hvert leikskólabarn hefur að jafnaði 2,4 fermetra leikrými innan leikskóladeildar. Inni í fermetratölunni eru lausir munir, borð stólar og fullorðnir. Ef gert er ráð fyrir að fullorðnir taki pláss þá er leikrými innan deildar 1,9 fermetrar á hvern einstakling.
Erindi Harðar vakti mikla athygli og spunnust líflegar og djúpar umræður í kjölfarið. Meðal annars var spurt hvort pólitíkin á Íslandi viti af því hve lítið rými börnin hafa og hvort foreldrar viti af aðstæðum í leikskólum.
„Rannsóknin sem ég gerði leiddi í ljós að börn hafa minna rými en okkur óraði fyrir, en það skýrir líka af hverju starfsfólk leikskóla upplifir gríðarlegt álag, hávaða og áreiti í vinnunni sinni. En rannsóknin gefur líka vísbendingar um hvernig rýmið hefur þróast í að verða svona lítið,“ segir Hörður.
Lesa grein Harðar um rannsóknina sem birt var í Skólavörðunni og á vef KÍ.
Þá er vert að geta þess að Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sendu í vor áskorun til mennta- og barnamálaráðherra þar sem farið var fram á að rými barna til leiks yrði aukið.
Frétt af vef Kennarasambandsins
Hörður kom að Rauða borðinu í fyrra og ræddi þar meðal annars þessar rannsóknir. Hér má sjá og heyra samtalið: