Ísraelar fresta árás á Rafahborg eftir árás Írana – Allt stál í stál í vopnahlésviðræðum

Mynd: Stephen William and Saber Ashor

Ísraelska stríðsmálaráðuneytið hefur lagt mat á hernaðaraðgerðir sem væru hugsanleg viðbrögð við flugskeyta- og drónaárásum Írana um liða helgi. Haft er eftir heimildarmönnum í aðskyldum erlendum fréttamiðlum að Ísraelar séu staðráðnir í að hafast að, en ekki sé ljóst hvort búið sé að taka ákvörðun um aðgerðir. Bandaríkjamenn, helstu bandamenn Ísraela, hafa hvatt til stillingar. Á hinn bóginn hafa Kínverjar lýst því að Íranir hafi með árásinni aðeins verið að verja hendur sínar. Á sama tíma og stríðsmálaráðuneytið ráðgast um hernaðaraðgerðir gegn Írönum gengur hvorki né rekur í friðarviðræðum milli Hamas og Ísraels.

Eftir því sem næst verður komist er samstaða um það innan ísraelska stríðsmálaráðuneytisins að viðbrögð við árás Írana verði að koma fljótt. Hefndaraðgerðir Ísraela eigi að vera harðar, er sagt. Í ofanálag við hernaðaraðgerðir mun ráðuneytið hafa lagt mat á diplómatískar aðgerðir sem einnig væri hægt að ráðast í meðfram hernaðaraðgerðunum. 

Samkvæmt heimildum innan ísraaelska stjórnvkerfisins hefur árás af landi í Rafah-borg á Gaza verið frestað í kjölfar árása Írana. Til stóð að fyrstu aðgerðir í þá veru hæfust í þessari viku og til hafði staðið að ísraelski flugherinn myndi dreifa flugritum yfir borgina í gær, þar sem varað væri við yfirvofandi árás. Frá þessu hefur nú verið fallið, að sinni, en heimildir herma að Ísraelsher haldi sig enn við að ráðast skuli á borgina. Óljóst sé hins vegar hvenær og einnig hvenær og hvernig eigi að rýma hana af almennum borgurum. Talsmenn ísraelska hersins hafa neitað að tjá sig um málið. 

Benjamin Netanyahu hefur lagt þunga áherslu á að ráðist verði inn í Rafah og sagt það þurfa að gerast í því skyni að ráða niðurlögum Hamas-samtakanna í borginni. Bandaríkin hafa lagt hart að Netanyahu að falla frá fyrirhugaðri árás og hið sama hafa alþjóðasamtök og hjálparsamtök gert. Um 1,4 milljónir Palestínumanna dvelja í borginni og hefur því verið lýst að innrás í hana muni hafa katastrófískar afleiðingar. 

Á meðan gengur hvorki né rekur í friðarviðræðum milli Ísraela og Hamas-samtakanna. Ísraelskar heimildir herma, og bandarískar heimildir hafa staðfest, að Hamas-samtökin hafi nú lýst því að þau séu aðeins tilbúin til að frelsa tæplega helming þeirra gísla sem krafist var í upphafi þessarar umferðar samningaviðræðnanna. Samtökin séu tilbúin til að leysa tæplega 20 gísla úr haldi en upphaflega krafan var sú að þeir yrðu 40 á sex vikna tímabili vopnahlés. Þá fara samtökin fram á að fleiri palestínskum föngum verði sleppt úr ísraelskum fangelsum í skiptum fyrir gíslana. Á þetta vilja samningamenn Ísraela ekki fallast og er því allt stál í stál í viðræðunum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí