Almenningur varð lagareldisfrumvarpinu að aldurtila um sinn – það og óstarfhæf ríkisstjórn

Þingheimur er furðulegt fyrirbæri í góðviðri, en sérstaklega undarlegt þegar illa viðrar. Frumvarp matvælaráðherra um lagareldi hefur verið frestað þangað til á næsta þingi í haust.

Nú þegar hefur þinginu verið framlengt um viku og ekki er ljóst hvort það verði áfram gert í næstu viku. Ástæða þess að framlengt var er langur listi stórra verkefna sem ríkisstjórnarflokkarnir vildu koma í gegn áður en sumarfrí tekur við.

Það var í þessari viku sem að gríðarstór og umfangsmikil samgönguáætlun var frestað og endurtaka þarf vinnuna við hana í haust, sem tekur einhverja mánuði ef marka má tímann sem tók við frumvarpið í vetur.

Það sama á væntanlega við hið gríðarlega umdeilda frumvarp matvælaráðuneytisins um lagareldi, þá vinnu þarf að endurtaka að nýju, fara yfir umsagnir og endurtaka viðtöl og áheyrnir.

Frumvarpið um lagareldi er orðið nokkuð alræmt fyrir þær sakir að til stóð í því að gera leyfisveitingu til sjókvíaeldis (eða lagareldis) á laxi í fjörðunum í kringum landið ótímabundið. Með öðrum orðum að leyfið myndi aldrei renna út og væri gefið til einkafyrirtækja að eilífu.

Það eitt og sér olli mikilli ólgu í íslensku samfélagi og gríðarmikil andstaða er við frumvarpið meðal almennings, enda minnir það óþyrmilega á hvernig fiskveiðikvótar hafa verið ofurseldir kvótagreifum og fjölskyldum þeirra.

Málið er auðvitað eðlisólíkt með þetta lagareldi, en engu að síður snerti það viðkvæma taug meðal almennings og réttilega svo.

Frumvarpið kom til vegna hrikalega bágrar stöðu reglugerða með fiskeldisiðnaði á Íslandi, þá sér í lagi þeim kvíum sem reknar eru úti á hafi, svokallað lagareldi, öfugt við landkvíar, þar sem laxinn er verksmiðjuframleiddur í kerum á landi, svokallað landeldi.

Slysasleppingar á laxi úr sjókvíaeldinu hafa þegar valdið ómældum skaða á hinum villta laxastofni á Íslandi, sem á undir högg að sækja vegna eldislaxanna sem sækja á þeirra lendur. Klúðrið varð að einu stærsta fjölmiðlamáli ársins í fyrra og myndefnið frægt af útsendurum yfirvalda í kafarabúningum að reyna að veiða eldislaxa úr ánum með handafli.

Hitt er hin ógeðfellda meðferð á eldislöxunum í kvíunum, þar sem afhjúpanir Heimildarinnar vörpuðu ljósi á það hvernig tugþúsundir laxa í lagareldiskvíum eru bókstaflega étnir lifandi af laxalús og bakteríum, rotnandi á meðan þeir eru enn á lífi. Sjúkdómar og sníkjudýr herja gríðarlega á eldislax vegna nálægðarinnar sem laxarnir eru í við hvorn annan, enda er fiskeldi í raun ekkert annað en verksmiðjuframleiðsla á dýrakjöti.

Þá er líka ljóst að umhverfisáhrifin eru gríðarleg, sér í lagi þegar barist er gegn lúsinni og bakteríunum, en sturtað er gríðarmagni af sýklalyfjum og öðrum efnum í kvíarnar til að freista þess að vernda laxinn, en verandi út í miðjum firði þá enda öll þessu efni líka út í lífríkinu í firðinum.

Frumvarpið kom því til vegna hneyksla og inniheldur einhverjar hertar reglur og gjaldheimtu en af óskiljanlegum ástæðum, öðrum en þeim að gera átti vel við auðvaldið, þá var ákvæði laumað inn í frumvarpið um að gera ætti leyfi þessara fyrirtækja ótímabundið. Nota bene þá gerðist það í tíð Katrínar Jakobsdóttur sem matvælaráðherra, þar sem hún sinnti því tímabundið á meðan að þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, var í veikindaleyfi. Það er svo Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem gegnir embættinu í dag sem mistókst að koma málinu í gegnum þingnefnd.

Útskýringin var víst sú að lögfræðingar ráðuneytisins hefðu lagt til þessa ótímabundnu leyfisveitingu af einhvers konar vúdú-kenndum lagatæknilegum ástæðum.

Raunin er sú að hægri flokkarnir og lögfræðingarnir sem eru handbendi þeirra, vildu ekki þurfa að leggja allar þessar kvaðir og reglugerðir á einkaframtakið nema gefa þeim eitthvað safaríkt í staðinn, svo sem varanlega eign yfir fjörðunum okkar. Það að mörg þessi lagareldisfyrirtæki eru í eign norskra auðjöfra og tekjurnar og ávinningurinn af þessari framleiðslu myndu koma Íslandi til takmarkaðra nota, virðast ekki hafa verið áhyggjuefni fyrir umrædda lögfræðinga og stjórnmálamenn.

Spurningin er þá hvað er það sem frestar framgangi þessa frumvarps? Formaður atvinnuveganefndar, Þórarinn Ingi Pétursson úr Framsókn, segir frumvarpið hafa strandað í nefndinni vegna þess að meirihluti nefndarinnar sé ósammála um ýmisleg atriði þess. Bar Þórarinn því við að frumvarpið væri stórt og umfangsmikið, hann gæti auðvitað „tínt til alveg helling“, eins og hann sagði í samtali við mbl.is, en gerði það svo ekki. Hann nefndi almennt að skattheimta og gjaldheimta sé fyrst og fremst vandamálið.

Sem fyrr sagði er frumvarpið gríðarlega óvinsælt og ef það færi fram í gegnum þingið væri það banabiti fyrir Vinstri græn, sem mælast með lægstu lægðum í könnunum. Enda er frumvarpið þeirra smíð. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, sér í lagi þeim síðari, er meinilla vil hvers kyns kvaðir á fyrirtæki en ef breyta á þessu ákvæði um gildistíma leyfisveitinga úr ótímabundnu yfir í tímabundið, eins og heyrst hefur hvísl af, þá er ljóst að hægri flokkarnir sjá ekki nægt daður við auðvaldið í frumvarpinu og vilja því ekki styðja það.

Í lokin má minnast á það að stjórnarandstaðan á þingi hafði engin áhrif á stöðu mála. Gríðarleg óánægjubylgja meðal almennings og algerlega óstarfhæft samstarf ríkisstjórnarflokkanna varð frumvarpinu að bana, að sinni og fylgjast þarf svo vel með stöðu mála í haust hvort þeir reyni að klastra saman einhverju síðra og enn verra til að koma því í gegnum þingið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí