Húsaleigufrumvarpið festir í sessi „markaðsleigu“ sem réttlætingu hækkana – ríkisstjórn og stjórnarandstaða styðja það

Stundum er sagt að innrömmun sé allt. Að sannleikurinn eða staðreyndir skipti í raun engu máli heldur hvernig einhverju er pakkað inn og rammað til að matreiða það ofan í fólk. Þetta á vel við um frétt á Vísi í dag undir titlinum: „Frum­varp um bætta stöðu leigj­enda strandar hjá ríkis­stjórn“.

Auðvitað er ekki að fullu við blaðamenn Vísi að sakast enda er frumvarpið afkvæmi Sigurðar Inga, formanns Framsóknar, þegar hann var innviðaráðherra og skýrði hann frumvarpið „húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda“ og hefur eytt síðustu mánuðum í að ýta því fram sem tilraun til að bæta hvoru tveggja.

Nú vissulega má telja fram nokkur atriði í frumvarpinu sem eru af hinu góða svo sem að herða á tilkynningaskyldu á leigusala og efla forgangsrétt leigjenda.

„Þetta er mjög jákvætt en líka ákvæði um takmarkanir á leigusala að hækka leigu,“ sagði Arndís Anna, þingmaður Pírata við Vísi.

Umræddar takmarkanir eru hins vegar afar umdeild ákvæði í frumvarpinu og hafa Leigjendasamtökin gagnrýnt frumvarpið harðlega vegna þess hluta. Hvorki stjórnarflokkarnir né stjórnarandstaðan virðast kippa sér upp við það.

Í frumvarpinu er núverandi húsaleigulögum breytt á margvíslegan máta en hvað varðar leiguverð er bætt við undarlegu ákvæði sem hreinlega festir hugmyndina um markaðsleigu í lögum í fyrsta skipti.

Í einni breytingatilllögunni segir:

„b. (37. gr. b.)
Þegar meira en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku leigusamnings og umsamin leigufjárhæð íbúðarhúsnæðis eða annars húsnæðis sem leigt er til íbúðar er lægri eða hærri en markaðsleiga sambærilegs húsnæðis, að teknu tilliti til þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 37. gr., getur aðili leigusamnings farið fram á leiðréttingu leigufjárhæðar að allt að markaðsleigu að teknu tilliti til þeirra atriða.“

Nú er skiljanlegt að heilar margra frjósi yfir enda með endemum leiðinlegt að lesa lagatexta á borð við þennan, sem virðast alltaf hannaðir til þess eins að vera torskildir.

Á mannamáli er þarna sagt að sé leigjandi með samning til lengur en eins árs, segjum til dæmis þriggja ára leigusamning, þá getur leigusali krafist hækkunar á leigu eftir að 12 mánuðir eru liðnir af samningnum með því að vísa í „markaðsleigu“. Hvað er „markaðsleiga“? Jú bara einmitt það sem stendur í frumvarpinu og fyrst kemur til hugar, „markaðsleiga sambærilegs húsnæðis“. Með öðrum orðum ef að leigusalinn finnur dæmi um álíka stærð af íbúð þar sem annar leigusali rukkar meira, þá getur leigusalinn krafist þess að hækka leiguverð sitt, þrátt fyrir undirritaðann samning um annað.

Gerist leigjendur svo frakkir að vilja langtímasamninga, til að öðlast einhvers konar húsnæðisöryggi, þá gætu þeir því átt von á því að stórfelldar hækkanir rigni yfir þá um leið og 12 mánuðir eru liðnir frá upphafi samnings og að umsömd verð þýða í raun ekki neitt. Virði og gildi samningsréttar er því fjarlægður með þessu og viðmiðið um verðlag sett í hendur markaðarins.

Nú vita allir þeir sem vilja vita það að ástandið á íslenskum leigumarkaði er helsi þar sem markaðsöflin hafa gert leiguhúsnæði að fjárfestingatækifæri og gróðamaskínu. Rúmlega 80% af öllu nýbyggðu húsnæði á þessu ári hefur nú þegar verið sópað upp af fjárfestum og eignafólki. Það er því morgunljóst að allar vísanir í markaðinn eru sturlaðar.

Ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan virðast þó sammælast almennt um gagn og gildi þessa frumvarps, en eina ástæða þess að það hefur ekki flogið í gegnum þingið er hreinlega vegna óstarfhæfrar ríkisstjórnar sem getur ekki komið sér saman um hvaða mál eigi að taka fyrir og hvenær og eru að verða uppiskroppa með tíma til þess fyrir sumarfrí þingsins. Síðasti starfsdagur þingsins á að vera í dag, en mögulega verður sá tími framlengdur, ef marka má hótanir Sjálfstæðisflokksins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí