HMS segir þúsund íbúðir á AirBnB brjóta lög

Óhuggulegar tölur um skammtímaleigumarkaðinn eru taldar upp í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar á meðal eru tæplega þúsund íbúðir sem gerast brotlegar við lög.

Í skýrslunni er farið vítt og dreift yfir húsnæðismarkaðinn og margar nöturlegar staðreyndir reifaðar og ræddar. Þar kemur til dæmis fram að 85% alls húsnæðis kostar meira en 60 milljónir og augljósa niðurstaðan í skýrslunni sú að fyrstu kaupendur eigi gríðarlega erfitt með það að eignast húsnæði vegna verðlagsins.

Nýbyggt húsnæði er þannig rándýrt og eins og Samstöðin hefur fjallað um áður er yfir 80% af því nýbyggða sópað upp og keypt af fjárfestum og eignamiklu fólki. Helsið er algert.

980 íbúðir gerast brotlegar við lög – innbyggt eftirlitsleysi

Það sem kemur þó fram í skýrslunni varðandi skammtímaleigumarkaðinn er afskaplega svart. Um 2500 íbúðir eru taldar hafa verið skráðar á AirBnB í maí, en á sumarmánuðum júlí og ágúst getur sú tala hoppað upp í 3700 eins og var raunin í fyrra.

Af þessum fjölda segir í skýrslunni, er ljóst að um 980 þessara íbúða séu skráðar lengur en í 90 daga á ári, en það er takmarkið í lögum ef viðkomandi leigusali er ekki með skráð fyrirtæki í gistihúsarekstri, sem fæstir AirBnB leigusalar eru. HMS virðist sjá þetta skýrt og því er spurn hvernig í ósköpunum slíkt viðgengst af hálfu framkvæmdavaldins og löggæslu, því um skýrt lögbrot er þar að ræða.

Leigjendasamtökin segja Samstöðinni það að í þeirra eftirgrennslan hafi komið í ljós að hjá Sýslumanni sé aðeins ein manneskja í vinnu við það að skrá eignir sem eru á AirBnB og að fylgjast með að reglum og lögum sé fylgt með öllum þeim markaði. Ein manneskja.

Þá kemur það engum á óvart að fjöldamargar, ef ekki flestar eignir á AirBnB síðunni eru ekki skráðar hjá Sýslumanni og græða því sitt utan eftirlits og skattheimtu hins opinbera.

Það má því með sanni segja að lögin eru einskis nýt ef svona innbyggt eftirlitsleysi er til staðar.

Nú er það svo að AirBnB er ekki eini vettvangurinn fyrir skammtímaleigu, þó sá vinsælasti og því eru þessar tölur líka vanmetnar. Þannig gætu í það minnsta verið fjögur eða jafnvel fimm þúsund íbúðir í skammtímaleigu á þennan veg, bara á höfuðborgarsvæðinu, yfir háannatímann.

Þá eru auðvitað ekki taldar með sá gífurlegi fjöldi svokallaðra „apartments“-fyrirtækja og gistihúsa í íbúðahúsnæði, en fjöldi þeirra skiptir hundruðum ef ekki þúsundum til viðbótar. Þær eru allra jafna ekki auglýstar á AirBnB, heldur má finna þær á síðum eins og Booking.com sem dæmi.

Bygging nýrra íbúða nær ekki markmiði og dregst saman og leiguverð hækka gífurlega

Ekki er útlit fyrir að takist að uppfylla íbúðaþörf ársins, ekki frekar en undanfarin ár, en HMS metur sem svo að fullbúnar íbúðir í lok árs 2024 verði 3020 talsins, í stað þeirra 4700 íbúða sem þörf er á bara fyrir þetta ár til að mæta uppsafnaðri þörf. Á sama tíma aukast umsvif á byggingamarkaði mikið samkvæmt HMS, sem rekja má eingöngu til framkvæmda á atvinnuhúsnæði, hótelum og fleiri fyrirtækjum og íbúðauppbygging dregst raunar saman.

Í villtri og frjálslegri vangaveltu, hugsar blaðamaður með sér að umræddar þúsundir íbúða sem eru á skammtímaleigumarkaði eða í formi gistihúsa í íbúðarhúsnæði, séu kannski risavaxin lausn á vandanum sem ríkir á leigumarkaði.

Í það minnsta er augljóst að væru þær allar á leigumarkaði í stað þess að standa í ferðamannabraski, þá myndi létta gríðarlega bagga ofurhækkana á leigjendur um þessar mundir. Síðast í gær fjallaði Samstöðin um það að vísitala leiguverðs hækkaði um 3,2% bara frá því í síðasta mánuði, fimmfalt meiri hækkun en varð á neysluverði (verðbólgu) á sama tíma.

Það er vissulega slæmt að braskarar á skammtímaleigumarkaði komist upp með að brjóta lög, en markaðurinn í heild er líka vandamál. Frá sjónarhóli leigjenda skiptir það í raun engu máli hvort um sé að ræða eignir sem eru í útleigu til ferðamanna í þrjá mánuði samkvæmt lögum eða lengur, því leigjendur þurfa jú heimili 12 mánuði ársins. Það er ekki boðlegt að gríðarstór fjöldi leiguíbúða hverfi einfaldlega af markaði í þriggja mánaða tímabil á sumrin, ekki nema leigjendur eigi hreinlega að verða heimilislausir í þann tíma.

Sá augljósi vandi sem er skammtímaleigumarkaðurinn er langt því frá að vera ræddur á borði stjórnvalda sem eru staðráðin í því að gera nákvæmlega ekkert í stöðu mála.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí