RÚV sýndi svart á hvítu hversu sjúklega ósanngjarnt ástandið er í vaxtaumhverfinu á Íslandi. Þar kom fram að íslensk heimili greiða margfalt hærri vexti af húsnæðislánum en heimili í nágrannaríkjum okkar á Norðurlöndum.
Þetta skrifaði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og VLFA.
Höldum áfram með grein Vilhjálms:
„Á Íslandi eru meðaltals óverðtryggðir vextir 8,63 prósent, á meðan þeir eru 4,97 prósent í Noregi, 3,20 prósent í Danmörku, 3,05 prósent í Svíþjóð og 2,90 prósent í Finnlandi. Ef við horfum á 55 milljóna óverðtryggt húsnæðislán þá er myndin skýr: á Íslandi greiðir heimilið 4.874.833 krónur í ársvexti en í Finnlandi aðeins 1.595.000 krónur. Munurinn er 3,28 milljónir króna á ári, eða rúmar 273 þúsund krónur á mánuði. Það er fé sem gæti farið í lífsgæði og öryggi heimilanna, en fer í staðinn beint í vasa bankanna.

Þetta er ekkert annað en vaxtaokur. Á meðan nágrannaþjóðir okkar búa við vexti sem gera fólki kleift að lifa með reisn, er íslenskum heimilum refsað með óhóflegum fjármagnskostnaði. Engin efnahagsrök réttlæta þennan mun. Við búum í sama heimshluta, með sambærilegt velferðarkerfi og sambærilegan lífsstandard – en samt eru íslensk heimili látin greiða margfalt meira fyrir það eitt að eiga heimili.
Þetta er kerfisbundið óréttlæti sem stjórnvöld og Seðlabankinn hafa látið viðgangast árum saman. Þeir tala um stöðugleika, en fyrir heimilin þýðir þessi „stöðugleiki“ stöðugan niðurskurð, stöðuga óvissu og stöðugt þyngri greiðslubyrði. Heimilin bera uppi skuldirnar, vextina og afleiðingarnar af stefnu sem þjónar ekki réttlæti, heldur fjármálakerfinu sjálfu.
Launafólk á Íslandi þarf að vera með rúmlega 520 þúsund krónur í laun – bara til að standa undir vaxtakostnaði af 55 milljóna húsnæðisláni. Það þýðir að eftir standa um 406 þúsund í ráðstöfunartekjur.
Er svo eitthvað skrýtið að verkalýðshreyfingin þurfi að berjast fyrir hækkun launa, þegar svona yfirgengilegt bull er í gangi?
Hvar er Alþingi? Hvernig geta stjórnvöld og þingmenn horft upp á þetta ár eftir ár, áratug eftir áratug, án þess að grípa til aðgerða? Þetta er ekki náttúrulögmál – þetta er mannanna verk, pólitísk ákvörðun sem hefur látið heimilin bera byrðarnar ein. Það er ekki nóg að tala og tala, það þarf að verja heimilin. Þetta er á ábyrgð stjórnvalda, því þar liggur löggjafavaldið. Það er Alþingi sem hefur vald til að breyta leikreglunum, setja þak á græðgina og tryggja heimilunum sanngjörn kjör.
Tími er kominn til að segja stopp. Heimilin á Íslandi hafa fengið nóg. Við krefjumst vaxtaumhverfis sem byggir á sanngirni, ekki ofbeldi. Því það sem íslensk heimili eru látin þola, ár eftir ár, er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi – og ábyrgðin liggur hjá þeim sem stjórna landinu.“
Grein Vilhjálms birtist fyrst á Facebook.
Áskrift



