Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur keypt fyrir hönd ríkisins líklega dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi undir utanríkisráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hver fermetri kostar rúmlega eina milljón króna.
Byggingin er hluti nýbyggingar Landsbankans milli Hafnartorgs og Hörpu, en sú bygging hefur farið langt fram úr áætlun. Upphaflega var gert ráð fyrir að bygging 16.500 fermetra myndi kosta 9 milljarða eða 545 þús. kr. fermetrinn. Miðað við kaupverð ríkisins er byggingin nú orðin næstum tvöfalt dýrari en til stóð.
Ríkið borgar 6 milljarða króna fyrir 5.900 fermetra. Þórdís Kolbrún fær efri hæðir hússins fyrir sitt ráðuneyti en Listasafn Íslands mun fá hluta neðstu hæðarinnar undir sýningarrými. Listasafnið heyrir undir Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.
Bjarni sem sótti það hart í ríkisstjórn að ríkið keypti húsnæðið af Landsbankanum, en ríkið á bankann og heldur Bankasýsla ríkisins á hlutabréfinu og ber að gæta hagsmuna eigandans, þ.e. almennings. Það er vafasamt hvort það teljist hagsmunir eigendans að bankinn byggi skrifstofuhúsnæði sem kostar eina milljón hver fermetri, húsnæði sem ekki er hægt að selja á almennum markaði vegna þess að það er alltof dýrt. En þessi mistök munu ekki sjást á reikningum bankans ef kaupandi finnst. Og Bjarni, ráðherra bankasýslunnar, fann kaupanda. Hann sjálfan.
Framsókn og Vg höfnuðu þessari hugmynd fyrst í ríkisstjórn. Upphafleg hugmynd var að auk utanríkisráðuneytisins færi vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í húsið. En eftir samninga við samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins var fallið frá því og ráðuneyti Framsóknarflokksins fékk væna sneið af húsinu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga