„Því lengur sem dregst að ég fái húsnæði því meiri líkur eru á að félagsmálabattaríið losni við mig undir sex fetin,“ sagði Örn Sigfússon, sem hefur verið heimilislaus í 25 ár, við Rauða borðið í kvöld. Og hann upplifir að félagsmálayfirvöld sjái þetta sem lausn á hans málum, að þau leysist með því að hann falli frá.
„Ég finn ekki fyrir velvild, ég finn ekki fyrir góðvild,“ segir Örn eða Össi gamli eins og hann er kallaður á götunni. „Ég lít á þetta sem hreina mannvonsku að bjóða manni upp á að þurfa að þræða göturnar.“
Örn er 64 ára og orðinn veikur. Segir að nýrun hafi gefið sig og hann geti ekki labbað tíu metra án þess að verða móður. Læknir sagði honum að hann þyrfti að komast í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili, hvíld frá því að lifa á götunni. „En það eru bara orð,“ segir Örn, vanur að heyra fólk nefna ýmsar lausnir sem síðan verður aldrei neitt út.
Örn fær nú að sofa á sófa hjá félaga sínum í gámunum út á Granda. Hann hefur sótt um húsnæði hjá Reykjavíkurborg árum og áratugum saman en alltaf fengið nei. Hann hefur ekki átt heimili í 25 ár.
Örn segist fá um 150 þús. kr. á mánuði í örorkubætur frá Tryggingastofnun. Hann telur að hann ætti líka að fá bætur frá Svíþjóð, en þær hafa aldrei borist. Hann er því með allra fátækustu mönnum borgarinnar og borin von að hann geti útvegað sér húsnæði óstuddur.
Örn segir Gistiskýlið við Lindagötu vondan stað. Þar sé átta mönnum hrúgað í eitt herbergi, sex í næsta o.s.frv. Þar sofi hann aldrei meira en fjóra tíma á nóttu. Í Gistiskýlinu hefur verið stolið af honum síma, mat, fötum og öðrum eigum. Sem Örn á ekki mikið af. Hann á aðeins það sem hann getur stungið í töskuna sem hann ber.
Stundum fær Örn að gista hjá fólki og þarf ekki að fara í Gistiskýlið. Þegar hann fékk inni hjá vini sínum út á Granda svaf hann í þrjá sólarhringa samfleytt. Hann var orðinn algjörlega úrvinda og svefnvana.
Örn bjó í Svíþjóð með sambýliskonu og dóttur hennar en hann segist hafa misst öll tengsl við þær. Líka fjölskyldu sína hér heima. Hann segist hafa slitið þau tengsl sjálfur. Þegar maður er á götunni er svo erfitt að heimsækja fólk og vera í samskiptum við það. Það veit ekki hvernig það á að koma fram við mig, hvað það getur gert fyrir mig. Ég fann að ég var byrði og ég vildi ekki ýta mínum vanda yfir á annað fólk, segir Örn.
Hann lýsir fáranleika sem honum er boðið upp á. Þegar stolið er af honum í gistiskýlinu þýðir ekki að óska eftir aðstoð starfsfólksins. Það segist ekkert geta gert, hann verði að leita til lögreglunnar. Daginn eftir kemur hann með lögregluna og hún horfir á eftirlitsmyndavélarnar í Gistiskýlinu og sér auðvitað hver þjófurinn er. En þá er hann búinn að selja þýfið. Afhverju gat starfsfólkið ekki horft á vélarnar kvöldið áður og sótt þýfið? Þá hefði Örn ekki misst það litla sem hann átti.
Körlunum á Gistiskýlinu er vísað út klukkan tíu og fá ekki að koma inn aftur fyrr klukkan fimm um daginn. Og það skiptir engu hvernig veðrið er. Hvert fer Örn þá? Stundum niður á bókasafn að lesa bók. Oft í hádegismat í Samhjálp.
Er maturinn góður þar?
Jájá, svarar Örn, hann er þokkalegur. En ég myndi vilja elda minn mat sjálfur, ráða því hvað er í matinn. Ég var kokkur á frökturum þegar ég var yngri og get alveg eldað ofan í mig.
Hvað myndi hann vilja helst?
Að fá að búa einhvers staðar, svarar Örn. Fá að ráða sér sjálfur, hvað væri í matinn, hvenær maður leggur sig. Bjóða einhverjum heim.
Hægt er að sjá og heyra samtalið við Örn í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga