Halla Gunnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, segist hafa reiknað með átökum milli Drífu Snædal fráfarandi forseta ASÍ, sem er gegnheil vinstrimanneskja, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og Vilhjálms Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, sem eru mið-hægri menn. Sér hafi hins vegar komið á óvart að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafi skipað sér í flokk með hægrimönnunum,
Halla lýsti átökunum innan verkalýðshreyfingarinnar á Sprengisandi í morgun sem valdabaráttu og vilja formanna stærstu félaganna, VR og Eflingar, til að ná yfirráðum yfir ASÍ. Þetta snýst ekki um stefnu eða hugsjónir heldur aðeins um völd, segir Halla.
Halla hafnaði því að forseti ASÍ þurfi að fara eftir vilja formanna stærstu félagana. Forseti ASÍ sæki sitt umboð til þings Alþýðusambandsins þar sem lagðar eru línur fyrir næstu ár og forysta kosin. Ragnar Þór og Sólveig Anna hafi hins vegar viljað stýra Alþýðusambandinu í krafti stærðar sinna félaga. Það taldi Halla ólýðræðislegt og óeðlilegt. VR og Efling eru stór félög á höfuðborgarsvæðinu og það mátti skilja á Höllu að forysta ASÍ ætti að gæta sérstaklega sjónarmiða smærri félaga og landsbyggðarinnar.
Halla ræddi ágreiningsefni sem fjallað hefur verið um opinberlega. Hún sagði m.a. að Ragnar Þór og Vilhjálmur hefðu rokið út og sagt af sér embættum þegar þeir urðu undir í lýðræðislegri afgreiðslu á tillögum þeirra. Og hún sagði það hafa verið alvarlegt þegar forystufólk verkalýðsfélaga fordæmi ekki fjöldauppsagnir á skrifstofu Eflingar, sem Halla kallaði Stalínískar hreinsanir.
Halla hefur sagt upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri ASÍ eins og Drífa Snædal hefur sagt af sér sem forseti. Báðar hafa þær hvatt með lýsingum svipað og þeim sem Halla gaf í morgun.
Myndin sem fylgir fréttinni er af forystu ASÍ þegar ágreiningurinn var þegar orðinn ljós. Þá voru kosnir þrír varaforsetar Alþýðusambandsins sem sátu reglulega fundi með Drífu forseta, sem Halla sat einnig: Á myndinni er Halla, þá Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins og þarna fyrsti varaforseti en nú forseti ASÍ, þá Drífa þá forseti, svo Sólveig Anna sem þá vara 2. varaforseti og loks Ragnar Þór, sem þá var 3. varaforseti en er nú 1. varaforseti og sem hefur boðið sig fram til forseta.
Ef ekki kemur til nýrra framboða má reikna með að fólkið á myndinni fyrir utan Drífu og Höllu myndi forystusveit ASÍ næstu tvö árin, Vilhjálmur Birgisson kemur inn í hópinn og nýr framkvæmdastjóri ASÍ.
Hlýða má á viðtalið við Höllu hér: Fráfarandi framkvæmdastjóri ASÍ lýsir eitruðu andrúmslofti innan sambandsins