Nýjar rannsóknir sýna að kapítalismi eykur fátækt

Fátækt 27. sep 2022

Í nýrri rannsókn á sögulegri fátækt er sýnt fram á að uppgangur kapítalisma hafi ekki dregið úr fátækt á heimsvísu eins og er almennt er haldið fram, heldur hafi kapítalismi þvert á móti leitt til aukinnar fátæktar og versnandi lífskjara meðal almennings.

Ástæðan fyrir þessu, segja höfundar greinarinnar, Dylan Sullivan og Jason Hickel, er aðallega hin hörmulega nýlendustefna sem kapítalísk ríki innleiddu í þróunarlöndum víða um heim, sérstaklega í Afríku, Rómönsku-Ameríku og Asíu. Þessi fátækt var alfarið sköpuð á nýöld með kapítalískri nýlendustefnu, sem er enn við líði. Rannsókn Sullivan og Hickel sýnir enn fremur fram á að mest allur árángur sem hefur náðst í hækkun raunlauna og bættum lífskjörum kom til vegna sósíalískra stjórnmálahreyfinga og verkalýðsbaráttu, sem börðust fyrir kjarabótum, jöfnuði og félagslegum lausnum.

Grein Sullivan og Hickel birtist í tímaritinu World Development og kallast Kapítalismi og fátækt: alþjóðleg greining á raunlaunum, mannhæð og dánartíðni síðan á 16. öld.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi (beinþýtt):

  • Hin almenna hugmynd um að fátækt hafi verið náttúrulegt ástand mannkyns, þar til kapítalismi og iðnvæðing lyftu fólki upp úr fátækt, er byggð á misvísandi gögnum sem gefa vitlausa mynd.
  • Gögn um raunlaun og kaupmátt fyrr á öldum benda þvert á móti til þess að sögulega séð hafi sárafátækt verið frekar fátíð í mannkynssögunni á heildina litið. Hún verður aðallega til þegar samfélög ganga í gegnum miklar félagslegar og efnahagslegar hremmingar og sérstaklega þegar þau verða fyrir barðinu á kapítalískri nýlendustefnu.
  • Uppgangur kapítalisma frá 16. öld hafði í för með sér lækkun raunlauna niður fyrir lágmarksframfærslu, niðursveiflu í meðalhæð fólks og uppsveiflu í almennri dánartíðni. 
  • Á Indlandi og sumstaðar í Suður-Asíu, Afríku sunnan Sahara, og rómönsku Afríku, hafa raunlaun og meðalhæð ekki náð fyrri hæðum eða batnað enn þann dag í dag.
  • Þar sem framfarir hafa átt sér stað byrjuðu lífskjör ekki að skána almennilega fyrr en í byrjun 20. aldar. Sá árangur sem náðist tengdist aðallega uppgangi sósíalískra stjórnmála- og þjóðfrelsishreyfinga sem börðust gegn nýlendustefnu. 

Rannsóknin afsannar þá almennu hugmynd, sem rétt væri að kalla mýtu, að fátækt hafi upphaflega verið ákveðið náttúrulegt ástand mannkyns. Að það hafi fyrst gerst á 19. öld, með iðnbyltingunni, þegar markaðshagkerfi breiddist um allan heim (lesist: kapítalismi), að meirihluti íbúa jarðar hafi loksins risið upp úr fátækt. Þessari kenningu hefur m.a. verið haldið fram af Bill Gates, Steven Pinker (sjá t.d. Enlightenment Now, 2018), Hans Rosling (Factfulness, 2018) og fleirum. Þeir segja að dregið hafi verulega úr fátækt á síðustu árum, að við þurfum aðeins að bíða í nokkra áratugi til viðbótar þar til kapítaisminn tryggi að sárafátækt verði endanlega úr sögunni. 

Pinker segir t.d. að „með iðnvæddum kapítalisma á 19. öld hafi mikill fjöldaflótti hafist undan þeirri allsherjar fátækt sem var ríkjandi í heiminum þar á undan“. Og Rosling segir: „Mannkynssagan hófst með því að allir lifðu í sárafátækt og við matarskort. Þannig var það í 100.000 ár þangað til að iðnbyltingin átti sér stað á 19. öld.“

Hægrisinnaðar hugveitur eins og Cato Institute og Foundation for Economic Education hafa gripið þennan bolta á lofti og haldið fram svipuðum fullyrðingum. Þá lýsti Bill Gates því yfir á Davos-fundinum árið 2019 að fátækt hafi snarminnkað á síðustu árum, og deildi á samskiptamiðlum þekktu línuriti frá Our World in Data til að styðja þessa fullyrðingu.

Þetta línurit segir að árið 1820 hafi 90% af öllu mannkyninu búið við sárafátækt, en árið 2015 hafi sú tala verið komin niður í 10%. Pinker birti einnig sambærilegt línurit í sinni bók og notaðist við svipaðar tölur. Þeir aðilar sem sem halda þessum tölum fram vilja auðvitað meina að þetta sé allt saman kapítalisma að þakka. 

Sullivan og Hickel benda hinsvegar á að gögnin á bakvið línuritið eru meingölluð. Í fyrsta lagi hefur gögnum um fátækt aðeins verið safnað saman af Alþjóðabankanum síðan árið 1981. Í öðru lagi eru gögnin sem eru notuð fyrir tímabilið þar á undan (1820 – 1980) mjög ónákvæm, sérstaklega eftir því sem lengra er farið aftur í tímann. Þannig að tölurnar fyrir árið 1820, sem segja að sárafátækt hafi verið 90% á heimsvísu, er í raun alveg merkingarlausar. Þessum gögnum var aldrei ætlað að mæla sögulega fátækt, heldur eru þau byggð á áætlunum um sögulegan ójöfnuð og landsframleiðslu á mann. Samt eru ekki til nein slík gögn fyrir eitt einasta land í Afríku fyrir árið 1900. Þetta eru því engan veginn fullnægjandi gögn til að áætla fátækt á heimsvísu á sögulegum tímum.

Á fyrri hluta 19. aldar bjó mjög stór hluti mannkyns enn við sjálfsþurftarbúskap. En slíkt mælist ekki í landsreikningum eða áætlunum um þjóðarframleiðslu, sem sýna aðeins fjárhæðir fyrir vörur og þjónustu sem ganga kaupum og sölu í hagkerfinu. Það þýðir að peningalaus hagkerfi, sem voru mjög algeng á 19. öld og þar á undan, eru ósýnileg í öllum reikningum eða áætlunum um landsframleiðslu, þar sem sjálfsþurftarbúskapur fer oftast fram án notkun peninga og sést því ekki í neinu reikningshaldi. Í þessum sjálfbæru samfélögum lifði meirihluta íbúa flestra landa í heiminum öldum saman og fram á 19. öld. En þessi sjálfbæru landbúnaðarsamfélög voru síðan lögð í rúst þegar hin vestrænu kapítalísku stórveldi hertóku þessi lönd og gerðu að sínum nýlendum. 

Almenningar, þ.e. landsvæði sem er ekki í eigu ríkis eða einkaaðila, þangað sem fólk sótti lífsviðurværi sitt, voru teknir yfir af nýlenduherrunum og girtir af. Fólk sem lifði áður á sjálfsþurftarbúskap í sveitum var þvingað af landi sínu og flutt nauðungarflutningum til borga og bæja, þar sem það neyddist til að vinna í verksmiðjum, námum, á plantekrum eða við aðra vinnu til að afla launa fyrir framfærslu.

Þetta er ferli sem Hickel kallar verkalýðsvæðinu (proletarianisation), þvingaðar aðgerðir nýlendustjórna sem miða að því að umbreyta íbúum nýlendna í öreigastétt. Línurit Bill Gates og Pinker sýnir því lítið annað en söguna af því hvernig kapítalískir nýlenduherrar tóku yfir þróunarlönd með valdi og ofbeldi, og beittu kúgun til þess að umbreyta íbúum þriðja heimsins yfir í sárafátæka verkastétt. Þannig sköpuðu þeir vinnuafl fyrir verksmiðjur, námur og plantekrur í nýlendunum. Verkafólkið fékk oftast það sem samsvarar nokkrum krónum í daglaun, minna en þurfti til framfærslu. Og þess vegna jókst sárafátækt alveg gríðarlega.

Til að útskýra þetta ferli tekur Hickel dæmi: Ef ákveðinn skógur er girtur af, timbrið hoggið niður og selt, þá eykst landsframleiðsla. Ef kotbýli og litlar jarðir eru rýmdar fyrir plantekrur, þá eykst landsframleiðsla. En þrátt fyrir að landsframleiðslan hafi aukist, þá missti fullt af fólki á sama tíma getu sína til að rækta mat og sækja eldivið. Þess vegna eru gögn um landsframleiðslu, sem sýna í raun lítið annað en tölur um reikningshald fyrirtækja, mjög villandi og segja okkur lítið sem ekkert um fátækt. Á nýlendutímanum jókst fátækt gríðarlega, en á sama tíma jókst landsframleiðsla einnig. Þetta gerðist t.d. í Kongó undir nýlendustjórn Belga. Á árunum 1885 til 1908 fórust 10 milljón manns, um helmingur íbúa landsins, úr fátækt, hungri og hrottalegri meðferð nýlenduherranna, á meðan útflutningur og landsframleiðsla jókst. 

Nýrri tölur í línuriti þeirra Bill Gates og Pinker eru skárri. Gögnin frá 1981 eru teknin saman af Alþjóðabankanum, sem reynir eftir bestu getu að taka mið af peningalausa hagkerfinu. Eins og nauðsynlegt er að gera þegar skoða á fátækt í ríkjum þar sem fátækt fólk kaupir ekki endilega allan sinn mat eða greiðir fyrir sitt húsnæði með peningum, heldur lifir oft á tíðum í óskráðum hreysum eða kotbýlum og borðar mat sem það hefur ræktað sjálft. 

En þrátt fyrir tilraunir Alþjóðabankans til að ná utan um þetta bendir Hickel á að þessi gögn séu sett villandi fram í línuriti þeirra Bill Gates og Pinker. Tölurnar þar byggja á þeirri forsendu að fátæktarmörk séu $1,90 á dag, á gengi Bandaríkjadollars árið 2011. Þetta er alveg fáránlega lágt viðmið, segir Hickel. Það er vel þekkt að fólk sem fær aðeins meiri tekjur, eins og $2 á dag, býr oft á tíðum við næringarskort.

Ef við notum viðmiðið $1,90 á dag, þá búa 700 milljón manns í heiminum við sárafátækt í dag. En á sama tíma segir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að 815 milljón manns búi við næringarskort, og að 1,5 milljarður búi við fæðuóöryggi. Hvernig á að koma þessu heim og saman? Hvernig geta þeir fátæku verið færri (700 milljón) en þeir sem lifa við sult?

Þetta viðmið er því alveg fáránlega lágt. Meira að segja Alþjóðabankinn hefur mælt gegn því að nota þetta viðmið. Hickel segir að raunhæfara væri að miða fátæktarmörk við $7,40 og upp í $15 á dag. Þegar það er gert, kemur í ljós að ekki aðeins 10% mannkyns býr við sárafátækt heldur 58%, eða 4,2 milljaðrar manns, sé miðað við nýjustu áreiðanleg gögn sem eru frá 2013. Þetta hlutfall var 71% árið 1981.

Og þó hlutfallið hafi lækkað úr 71% í 58%, hefur heildarfjöldi fátækra aukist úr 3,2 milljörðum árið 1981 í 4,2 milljarða árið 2013. Það eru sem sagt fleiri núna sem lifa í sárafátækt heldur en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Þetta eru sláandi tölur.

En hvað skýrir þá lækkunina úr 71% 1981 í 58% árið 2013?

Gögnin sýna að langflest fólk sem hefur komist upp úr fátækt á þessum tíma býr annað hvort í Kína, eða í þeim löndum sem kölluð hafa verið Asíutígrarnir: Hong Kong, Singapúr, Suður-Kórea og Taívan. En annars staðar í þriðja heiminum, í Afríku, Rómönsku-Ameríku og Suður-Asíu, hefur fátækt aukist síðan 1981.

Ef við skoðum fátækt á heimsvísu, en tökum Kína aðeins út úr jöfnunni, þá var hlutfallið 62% árið 1981, en var komið upp í 68% árið 2000! Þetta þýðir að í öllum löndum í heiminum, að Kína undanskildu, jókst fátækt um 1,3 milljarða manns á þessum tíma.

Það vill svo til að þetta er einmitt tímabilið sem hefur verið kennt við svokallaða nýfrjálshyggju. Þetta var tímabilið þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn framfylgdu stefnumálum sem kennd eru við Washington Consensus, þegar þessar stofnanir innleiddu svokölluð structural adjustment programs í þriðja heiminum sem neyddu þróunarlönd til þess að beita aðhaldi í opinberum rekstri, skera niður félagslega þjónustu og einkavæða ríkiseignir. Það voru þessar nýfrjálshyggjuaðgerðir sem gerðu það að verkum að fátækt jókst gríðarlega á þessu tímabili. Enda hafa gagnrýnendur bent á að þetta tímabil sé nútímaform af nýlendustefnu (neo-colonialism).

Þýtt og endursagt af Tjörva Schiöth

Jason Hickel er einkar skýr og skemmtilegur fyrirlesari. Það má mæla með fyrirlestrum hans og viðtölum við hann á YouTube þar sem hann ræðir arðrán ríkja í norðri á ríkjunum í suðri. Hér er stutt sýnishorn þar sem flettir ofan af mýtunni um þróunaraðstoð auðugra ríkja:

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí