Leiðrétting: Meðal dyggustu lesenda Samstöðvarinnar eru predikarar og postular nýfrjálshyggjunnar á Viðskiptablaðinu. Ritstjórar þar á bæ eyddu náðarsamlegast prenti í það að leiðrétta þessa frétt undirritaðs, vegna staðreyndavillu. Bent var á rangan frádrátt frá tölunum 13,4 milljarðar og 9,9 milljarðar, sem haldið var rangt fram að væri útskýrt af 585 milljóna króna sekt. Það þyrfti vitaskuld að vera eitt núll í viðbót aftan á þeirri tölu (5850 milljónir) til að svo gæti verið. Augljóslega var þar um að ræða klaufamistök í fljótfærni og biðst undirritaður velvirðingar á því. Þá þakkar undirritaður ritstjórn Viðskiptablaðsins kærlega fyrir leiðréttinguna og fyrir lesturinn. Eftir sem áður stendur efni fréttarinnar þó, því raunverulega fréttin er ekki að hagnaður Arion banka dragist saman, heldur að þrátt fyrir gríðarlega erfitt árferði fyrir meginþorra almennings er bankinn enn að raka inn mörgum milljörðum í hagnað. Spurning er hvort ekki ætti að skattleggja að fullu það illla fengið fé, sem kemur að mestum hluta til vegna ofurhárra stýrivaxta Seðlabankans og verja því í uppbyggingu samfélags sem er að hruni komið vegna lífskjarakrísunnar.
Arion banki hagnaðist um 9,9 milljarða fyrir fyrstu sex mánuði ársins, Íslandsbanki um 10,7 milljarða og Landsbanki um 16,1 milljarða. Samtals hagnast stóru viðskiptabankarnir þrír um 36,7 milljarða og árið er bara hálfnað.
Þessar svimandi háu hagnaðartölur koma fram á tímum þar sem dýrtíðar- og lífskjarakrísan hefur aldrei verið verri. Húsnæðiskreppan bítur áfram með leiguverðum og íbúðaverðum sem hækka margfalt á við vísitölu neysluverðs, afborganir húsnæðislána stökkbreytast áfram og verðbólgan er aftur á uppleið.
Hagnaðartölur Arion banka eru þó rammaðar inn sem einhvers konar samdráttur í fréttaflutningi Vísis, sem ber fyrirsögnina: „Hagnaður Arion banka dregst saman milli ára“. Tæknilega séð er það auðvitað rétt, hagnaður fyrstu sex mánuði ársins í fyrra var 13,4 milljarðar til samanburðar við 9,9 milljarða í ár. Mismunurinn er þó vegna 585 milljóna króna sektar sem bankinn greiddi ríkissjóði vegna máls höfðað af Seðlabankanum, en Arion banki gerðist brotlegur við fjöldamörg lög sem meðal annars vörðuðu peningaþvott og fjármögnun hryðjuverka vegna bágs öryggis og áhættumats bankans.
Ef ekki hefði verið fyrir það hefði Arion banki því skilað hærri hagnaði en í fyrra. Af þeim sökum er framsetning Vísis fremur skrítin.
Aðalatriðið er nefnilega það að verðbólgutíð með tilheyrandi gríðarháum stýrivöxtum hefur hagnast bönkunum gífurlega. Almenningur býr við skert lífsgæði og kjör sem skerðast í hverjum mánuði, meðal annars vegna hárra vaxtagreiðslna til bankanna, sem hafa einnig neikvæð áhrif á leiguverð, með alvarlegum afleiðingum fyrir landsmenn.
Gríðarmikil skerðing ráðstöfunartekna vegna stigmagnandi húsnæðiskostnaðar og matarkörfunnar á sér stað á meðan að staða bankanna hefur aldrei verið betri. Auðvitað var það allt fyrirséð þegar að stýrivextir eru hækkaðir jafn mikið og raun ber vitni.
Aðkoma ríkisstjórnar hefði því vel getað lagfært þennan gríðarlega leka fjármagns úr vösum launafólks yfir í vasa hluthafa bankanna. Samhliða stýrivaxtahækkunum hefði til að mynda verið skynsamlegt að hækka bankaskatt ríflega. Stórauknar vaxtatekjur bankanna eru jú ekki þeirra peningur, heldur afleiðing stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Þær tekjur eiga því ekki að flæða til hluthafa og eigenda bankanna, heldur einmitt í ríkissjóð, sem safnað getur fénu þannig til að deila því aftur út til almennings eftir að verðbólgan hefur lækkað í formi innviðafjárfestinga, húsnæðisuppbyggingar og innspýtingu í velferðarkerfin. Þannig væri eðlilegt samfélagt rekið.