Það verður að rannsaka rannsóknina á hvarfi Geirfinns

Dómsmál 27. sep 2022

„Það verður að rannsaka málið frá grunni, frá byrjun. Ekki bara Guðmundar- og Geirfinnsmál, heldur frá hvarfi Geirfinns og allar rannsóknir eftir það,“ sagði Soffía Sigurðardóttir við Rauða borðið í gærkvöldi, en hún kann þessi mál nánast utan að. „Það sat fjöldi fólks í fangelsi fjölmörg ár út af þessum rannsóknum. Og það er ekki nóg að segja allt í einu ææ og fyrirgefðu. Það er ekki ásættanlegur endir þessa máls.“

„Ef Hæstiréttur kemst að því að þeir sem voru dæmdir hafi ekki drepið Geirfinn, á þá ekki að opna málið og hefja rannsókn á því hvað varð um Geirfinn?“ spurði Soffía.

Í samtalinu rakti Soffía hversu veik og þvæld rannsóknirnar voru, bæði á hvarfi Geirfinns og Guðmundar. Þau sem voru dæmd hafi ekki aðeins þvælst inn í þessa rannsókn heldur líka fjórmenningarnir sem stundum eru kallaðir Klúbbsmenn, þótt tveir þeirra hafi ekkert komið nálægt Klúbbnum.

En af hverju brotnuðu þeir ekki niður eins og Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir, Kristján Viðar Viðarsson og aðrir sem voru síðar dæmdir, fóru að bera sök hver á annan? Soffía segir að þegar fjórmenningarnir voru komnir í gæsluvarðhald hafi saksóknar og lögreglan áttað sig á að þeir voru ekki með neitt í höndunum. Þeir hafi því sáralítið verið yfirheyrðir, rannsóknin var strönduð.

Soffía segir upphafið af óförum málsins megi rekja til þráhyggju Kristjáns Pétursson, sem vildi koma höggi á Framsóknarflokkinn og tengja stórfellt smygl á spíra við Klúbbinn, sem rekinn var í húsnæði sem flokkurinn átti. Kristján, og reyndar lögreglumenn einnig, hafi verið byrjaðir að rannsaka það mál áður en Geirfinnur hvarf og svo hafi þessar rannsóknir runnið saman með hryllilegum afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Soffía heldur því fram að sagan sem Erla bar á fjórmenningana hafi þegar verið orðin til áður en Erla var handtekin og yfirheyrð. Smátt og smátt tók sagan á sig mynd, frá einni yfirheyrslu að þeirri næstu, þar til hún var eins og rannsakendur bjuggust við.

Soffía er ósátt við endalok Geirfinnsmálsins. Ekki bara að Erla Bolladóttir fái ekki endurupptöku, sem Soffía segir að myndi leiða til þess að við yrðum að rannsaka rannsóknina. Ef Erla bjó til sögu sem átti rætur í fyrri rannsóknum, er þeir sem bjuggu til þá sögu ekki sekir? Soffía er líka ósátt við endalok Geirfinnsmálsins fyrir Hæstarétti þar sem það var látið niður falla frekar en það væri rannsaka og dæmt í því.

„Við verðum að rannsaka þetta mál,“ segir Soffía. „Það er ekki réttarríki þar sem svona mál valda svona mörgum svona miklu tjóni. Það er ekki bara hægt að leggja málið niður. Við verðum að komast að því hvað gerðist og hvers vegna.“

Samtalið við Soffíu má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí