Skuldatryggingarálagið á Credit Suisse hefur hækkað að undanförnu, svo mjög að bankastjórinn hefur sent starfsfólki bankans yfirlýsingu og sagt efnahagsreikning bankans traustan. Þetta er ekki góðs viti. Sagt er að þegar banki þarf að fullvissa fólk um að hann sé traustur, þá er hann það alls ekki.
Íslendingar þekkja manna best svona yfirlýsingar. Þeir máttu heyra þær mánuðum saman 2008, í raun fram yfir fall bankanna fyrir réttum fjórtán árum.
Credit Suisse tapaði 265 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það bætist við 243 milljarða króna tap í fyrra. Gengi hlutabréfa í bankanum hafa fallið hratt síðustu daga, er nú 3,66 frankar. Á botni fjármálakrísunnar eftir 2008 fór gengi bankans ekki neðar en í 16 franka.
Sjálftinn nær til Íslands. Gengi hlutabréfa lækkaði mikið í kauphöllinni í morgun og mest hjá bönkunum. Kvika og Íslandsbanki lækkuðu fyrir hádegið um 3,3% og Arion um 3,8%. Svipaða sögu eru að segja af gengi banka um allan heim. Og verri. Danske Bank lækkaði um 6% í morgun, Sydbank um 7% og Jyske Bank um 8%, svo dæmi sé tekið frá Danmörku.
Vanda Credit Suisse má rekja til falls bandaríska hrægammasjóðsins Archegos, en forsvarsmenn hans hafa verið ákærðir í Bandaríkjunum fyrir svindl. Credit Suisse hefur líka tapað miklu á Greensill, bresk brasksjóðs sem greiddi David Cameron, fyrrum forsætisráðherra, vænar summur fyrir að opna fyrir sér dyr og gáttir.
Reyndar er saga Credit Suisse mörkuð af hneykslum, eins og saga flestra alþjóðlegra banka. Bankinn greiddi nýlega háar sektir vegna svika við skuldabréfaútgáfu í tengslum við túnfisksveiðar í Mozambique, sem var ekkert síður útbíuð í mútugreiðslum og spillingu en makrílveiðar Samherja í Namibíu.
Svissnesk yfirvöld eru með þjónustu Credit Suisse við auðkýfinga víða um heim til rannsóknar, en bankinn hefur kerfisbundið falið auð hinna ríku og kært sig kollóttan um hvort hann hafi orðið til við fíknaefnasmygl, mansal, peningaþvott, spillingu eða aðra skipulagða glæpastarfsemi.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga