Marinó G. Njálsson segist hafa litla trú á því að niðurstaða EFTA dómstólsins muni breyta miklu á Íslandi. Niðurstaða dómstólsins var að íslenskum bönkum er ekki heimilt að breyta vöxtum að vild og núverandi skilmálar bankanna uppfylla ekki skilyrði um skýrleika. Marinó segist í pistli sem hann birtir á Facebook búast við yfirlýsing frá Seðlabankanum innan skamms, þess efnis að fari dómstólar að áliti EFTA-dómstólsins, þá gæti það stefnt fjármálastöðugleika í voða.
Hér fyrir neðan má lesa pistilinn í heild sinni
EFTA dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að skilmála lánssamninga bankanna hafi ekki verið þess eðlis, að neytendur gætu skilið hvaða merking er í raun og veru í skilmálunum.
Það eru ansi mörg ár síðan að ég komst að þessari sömu niðurstöðu. Fór ég þá yfir skilmála bankanna og lífeyrissjóða, eins og þeir voru aðgengilegir á netinu. Var þetta, þar sem ég var að velta fyrir mér að breyta húsnæðislánum yfir í lán með fasta vexti til 5 ára. Í september 2020 sendi ég síðan fyrirspurn á einn banka.
Fyrsta svarið sem ég fékk var frekar stutt:
„Vegna fyrirspurnar þinnar um breytingar á breytilegum vöxtum.
Því miður gefur bankinn ekki upplýsingar um innri fjármögnun og því getum við ekki orðið við erindi þínu um hvernig fjármögnunarkostnaður hefur þróast undanfarna mánuði.“
Eins og gefur að skilja, þá taldi ég þetta ekki fullnægjandi svar og benti viðkomandi á, að greinar 34 og 35 laga nr. 118/2016 um fasteigna lán til neytenda legðu ákveðnar kröfur á lánveitandann.
Póstur minn hélt áfram sem hér segir:
„Ég vil síðan benda á 34.gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda en þar segir:
„Ef í samningi um fasteignalán er kveðið á um að byggt sé á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við ákvörðun breytilegra vaxta er lánveitanda aðeins heimilt að notast við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem eru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu. Byggist ákvörðun um breytingu á vöxtum ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum skal í samningi um fasteignalán greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum.
Lánveitandi skal varðveita upplýsingar um sögulega þróun viðkomandi vísitalna og viðmiðunarvaxta, annarra en þeirra sem ákvarðaðir eru og birtir af opinberum aðila.“
Og í 35. gr. segir m.a.:
„..Samningsaðilar geta þó komið sér saman um það, í samningi um fasteignalán, að veita skuli neytanda upplýsingar skv. 1. mgr. með ákveðnu millibili þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum og upplýst er um hið nýja viðmið opinberlega á viðeigandi hátt, það gert neytanda aðgengilegt hjá lánveitanda og neytanda tilkynnt um það ásamt fjárhæð nýrra reglulegra endurgreiðslna.
Ef breytingar á útlánsvöxtum eru ákvarðaðar með uppboði á fjármagnsmörkuðum og þar af leiðandi ómögulegt fyrir lánveitanda að upplýsa neytanda um breytingu áður en hún tekur gildi skal lánveitandi, tímanlega fyrir uppboðið, upplýsa neytanda, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, um fyrirhugaða málsmeðferð og gefa upplýsingar um með hvaða hætti hún gæti haft áhrif á útlánsvexti.“
Samkvæmt þessu er bankanum skylt að veita nokkuð ítarlegar upplýsingar um forsendur breytilegra vaxta. Bendi sérstaklega á lokaorð 35. gr. „gefa upplýsingar um með hvaða hætti hún gæti haft áhrif á útlánsvexti“.
Ég óska eftir því að þið takið svar ykkar til endurskoðunar og svari til viðbótar því sem vantaði í svarið miðað við spurninguna sem ég setti fram. Jafnframt óska ég eftir að fá að vita á hverju breytingar á „föstum“ 5 ára vöxtum munu byggja. Þar sem vextirnir taka breytingum eftir 5 ár, væri gott að vita hvaða forsendur/skilyrði eru fyrir slíkum breytingum. Aftur vísa ég til 34. og 35. gr. laga 118/2016 um upplýsingaskyldu bankans.“
Svar bankans var langt, en frekar einfalt: Ekkert gagnsæi er í því hvernig bankinn breytir vöxtum sínum! Bankinn bleytir fingurinn og stingur honum upp í loftið og sér til á hvaða hlið hann þornar fyrst.
Lengri útgáfan var: „..breytingar á útlánsvöxtum bankans taka mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og breytingum á vísitölu neysluverðs. Þróun framangreindra kostnaðarþátta er síðan metin af fagnefnd innan bankans og verði breyting á þeim getur það leitt til þess að vöxtum er breytt, annað hvort til hækkunar eða lækkunar.
Hið sama gildir um vexti sem eru fastir en með heimild til vaxtaendurskoðunar á 5 ára fresti en þá eru framangreindir þættir metnir með sama hætti og hvort breytingar á þeim gefi tilefni til þess að breyta vöxtum þegar vextir eru endurskoðaðir.“
Tilgangur minn með samskiptum við bankann var eins og alltaf hjá mér, þegar ég sé það sem ég tel ranga lagatúlkun. Vinur er sá sem til vamms segir. Þarna bauð ég bankanum upp á tækifæri til að gera breytingar, en hann ákvað að grípa það tækifæri ekki. Það kostar bankann nákvæmlega ekkert að vera með skilmálana skýrari og í samræmi við ákvæði laga. Í þeirra sporum hefði ég skoðað sambærilega skilmála banka á Norðurlöndunum og athugað hver munurinn væri á þeim og skilmálum bankans. Það var ekki gert, vegna þess að bankinn skildi ekki að ábending mín var vinsamleg. Núna gæti þessi banki lent í því, að þurfa að endurgreiða lántökum háar upphæðir.
Ekki það, að ég hef enga trú á því, að íslenskir dómstólar þori að dæma með neytendum. Er eiginlega mest hissa á því, að ekki sé þegar komin yfirlýsing frá Seðlabankanum, að fari dómstólar að áliti EFTA-dómstólsins, þá gæti það stefnt fjármálastöðugleika í voða. Eða að fjármála- og efnahagsráðherra stígi fram og vari við því, að nú græði lántakar sem ekki eigi að fá að græða. Líklega koma þessar yfirlýsingar á næstu dögum.