„Ég ræddi þetta við konuna mína yfir kaffibolla í morgun, eftir að við lásum nýjustu árásina í minn garð. Árás á mína æru og persónu. Árás á miðju þingi ASÍ sem ég vonaðist til að vera vettvangur sátta. Ákváðum við í sameiningu að þetta væri ekki þess virði. Því miður,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR á Facebook í kvöld.
„Ég skal viðurkenna það að ég átti mjög erfitt eftir að ég tók þessa ákvörðun og var við það að brotna niður,“ skrifar Ragnar Þór. „Ekki vegna þess að ég fengi ekki meiri völd, heldur að sjá á eftir tækifærinu sem við höfðum til að verða ósigrandi. Ég trúði þessu svo innilega að þetta væri hægt og hvað við ætluðum að ná miklu fram fyrir fólkið okkar. En ég finn líka fyrir miklum létti að vera laus úr þessu sambandi.“
Ragnar Þór skrifar að Facebook-færsla Halldóru S. Sveinsdóttur þar sem segir að um leið og Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur tali um að við komum sterk út úr þinginu eigi að hefjast hreinsanir í ASÍ, önnur hópuppsögn starfsmanna verkalýðshreyfingarinnar. „Almennt samanstendur hreyfingin af heiðarlegu og góðu fólki sem fordæmir það ofbeldi sem átt hefur sér stað,“ skrifar Halldóra. „Fólk sem er tilbúið til forystu, fólk sem ber virðingu fyrir lýðræði“
„Í færslunni er ég enn og aftur sakaður um ofbeldi og markmið mitt sé fyrst og fremst að segja upp öllu starfsfólki,“ skrifar Ragnar Þór. „Þegar börnin mín lesa fyrirsagnir um að pabbi þeirra stundi ofbeldi og reki fólk fyrirvaralaust eða heyra því hvíslað á förnum vegi, brestur eitthvað.“
Ragnar Þór lýsir hvers vegna hann bauð sig fram sem forseta ASÍ. „Markmiðið með framboði mína var að gera tilraun til að sameina krafta okkar á þessum vettvangi. Sameinast undir merkjum ASÍ og sameinast sem breiðari fylking en áður og nýta þingið sem tækifæri til að slíðra sverðin og snúa bökum saman. Ég hafði einlæga trú um að við gætum skilið þá eitruðu orðræðu og átök sem hafa einkennt Alþýðusambandið síðustu ár eftir á þinginu,“ skrifar Ragnar Þór.
„Fyrir síðustu samninga mynduðu nokkur stéttarfélög bandalag og náðum, að mínu mati, mjög góðri niðurstöðu við erfiðar aðstæður. Margþættar kjarabætur í bland við aðgerðarpakka stjórnvalda. Ef okkur tókst þetta í smærri hóp hugsaði ég sem svo, hversu miklu getum við náð ef við stöndum saman sem enn breiðari fylking og á vettvangi ASÍ?“ spyr Ragnar Þór sjálfan sig. Og svarar: „Við verðum óstöðvandi og við munum ná gríðarlegum árangri fyrir okkar fólk.“
Ragnar rekur síðan starf í undirbúningi þings Alþýðusambandsins og segir að hann hafi ekki í 14 ár sem hann hefur starfað innan hreyfingarinnar fundið jafn góðan anda innan ólíkra hópa. En …
„Síðustu daga og vikur fyrir þingið höfðu litast af ótrúlega ósmekklegri orðræðu og árásum á mína persónu,“ skrifar Ragnar Þór. „Ég var ítrekað kallaður valdasjúkur ofbeldismaður og sakaður um að ætla að segja upp öllu starfsfólki ASÍ kæmist ég til valda.“
„Af hverju þetta taumlausa hatur?“ spyr Ragnar Þór. „Hvað höfum við eiginlega gert þessu fólki?“
„Fyrir síðustu kjarasamninga bárust mér og fjölskyldu minni alvarlegar hótanir,“ skrifar Ragnar. „Hótanir sem hægt var að rekja til þeirrar orðræðu sem var á þeim tíma, þið munið, við vorum stórhættulegt og kolruglað fólk með sturlaðar kröfur sem legði hagkerfið í rúst og allt það.
Það kemur fyrir að fárveikt fólk grípur svona hluti. Í gegnum tíðina höfum við fengið okkar skerf af slíku, mis alvarlegu þó. Það er þó eins og stemningin sé að breytast í okkar samfélagi og mál sem þessi koma oftar og oftar upp gagnvart kjörnum fulltrúum. Á sama tíma höfum við verið að taka þessu áreiti og hótunum af meiri alvöru.
Með meiri neikvæðri athygli fylgir aukið áreiti og um síðustu mánaðamót fór að bera aftur á alvarlegum hótunum. Ég tala ekki mikið um þetta og ég læt alltof sjaldan vita af því. Guðbjörg konan mín tekur þetta mjög nærri sér, eðlilega því við erum með ung börn á heimilinu.
Til að setja í samhengi hvað ég er að tala um á ég mér drauma og markmið. Þeir voru að sameina hreyfinguna fyrir fólkið okkar og fólkið í landinu. Ná árangri og breyta til hins betra. En fyrir þeim er ekki ótakmörkuð innistæða.
Sérhagsmunaöflin sem við erum að berjast á móti eru hrikaleg og mun ósvífnari og skipulagðari heldur en flestir gera sér grein fyrir. Þess vegna byggjast möguleikar okkar og árangur á samstöðu.
En allt hefur sín mörk og stundum sigrar hatrið eins og segir í textanum. Hatrið sigraði mig í dag,“ skrifar Ragnar Þór.
Hann metur framhaldið í lokin: „Okkur í VR mun örugglega takast vel til í næstu kjarasamningum þó samningsstaðan gagnvart stjórnvöldum sé ekki lengur til staðar. Ég mun gera mitt allra besta eins og alltaf fyrir félagsfólk VR. Því lofa ég,“ skrifar hann.
Og endar á að ávarpa andstæðinga sína innan ASÍ: „Ég ber engan kala til þess fólks sem var með yfirlýst markmið um að fella okkur á þinginu. Við þau vil ég segja. Nú erum við farin, ekki lengur fyrir. Nú fáið þið tækifæri til að leiða kjarasamninga ykkar félaga og vettvang ASÍ til að styðja við þá vegferð. Ég óska ykkur alls hins besta. Ég vona að þið nýtið tækifærið vel og náið sem bestum árangri fyrir ykkar fólk, árangri sem nýtist okkur í okkar baráttu.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga