„Þau eru fordómafullar og fáfróðar smásálir sem að skilja ekki leikreglur lýðræðisins; í raun er skilningsleysi þeirra svo yfirgengilega mikið að þau skilja ekki sjálf hvað þau skilja lítið. Þess vegna verða þau sér sífellt til skammar,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á Facebook um þau sem skrifuðu grein á Vísi gegn framboði hennar og Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR á komandi þingi Alþýðusambandsins.
„Þau eru fulltrúar gamla ASÍ,“ heldur Sólveig Anna áfram, „þess ASÍ sem að hugsaði aðeins um að næra sjálft sig og gaf upp á bátinn af fúsum og frjálsum vilja alla baráttu, allan eldmóð, allt hugrekki, allt þrek, allan dugnað. Gaf efnahagslega réttlætisbaráttu vinnandi fólks upp á bátinn í skiptum fyrir gagnslausa fundi, vöfflur og snittur, væl og þus, og „sæti við borðið“ svo að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld gætu fengið tækifæri til að segja þeim fyrir verkum, og þau gætu fengið tækifæri til að éta eins mikinn skít og þau mögulega gátu, disk eftir disk eftir disk.“
Sólveig Anna segir frá því þegar hann kom á miðstjórnarfund ASÍ með upplýsingar um að farið hefði verið inn í tölvupósthólfið hennar: „Á miðstjórnarfundinum í gær þar sem ég greindi frá málavöxtum og aðkomu Agnieszku Ewu og Ólafar Helgu voru m.a. viðstaddir Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Ég gat ekki betur séð en að þeir væru með fullri meðvitund og gætu þar með meðtekið þær upplýsingar sem að fram komu í máli mínu. Í dag birta þessir verkalýðsforingjar grein á Vísi ásamt Ólöfu Helgu Adolfsdóttur og fleiri leiðtogum vinnandi fólks þar sem að ég er kölluð gerandi, sökuð um gerræði, um að efna til ágreinings þar sem að hann er ekki fyrir hendi og að fara af fundum ef ég fæ ekki mínu framgengt. Stór hluti textans fer svo í að ausa Ragnar Þór auri. Það er aumkunarverð tilraun þeirra sem að engu hafa áorkað til að ráðast að mannorði Ragnars, sem hefur verið verið farsæll og vinsæll formaður VR, kjörinn af félögum sínum til að leiða stærsta stéttarfélags landsins, sem hefur leitt erfiðar kjaraviðræður og náð góðum árangri, og verið óþreytandi baráttumaður gegn spillingu og fyrir réttlátu samfélagi árum saman,“ skrifar Sólveig Anna.
Hún reglur líka hvernig hún uppgötvaði að farið hafði verið í pósthólf hennar: „Ég komst að þessum brotum fyrir tilviljun. Atburðarásin er sú að Ólöf Helga talaði af sér á stjórnarfundi Eflingar fyrir skemmstu þar sem að hún vitnaði í tölvupóstsamskipti mín og Drífu Snædal. Ég og félagar mínir spurðum Ólöfu Helgu hvernig á því stæði að hún vissi hvað okkur hefði farið á milli í tölvupósti en hún sagðist „ekkert þurfa að segja okkur það“. Fyrir nákvæmlega viku síðan fann ég svo útprentaða pósta á meðal vinnugagna sem að sótt höfðu verið á skrifstofu Agnieszku Ewu, tölvupóstsamskipti sem að stóðu yfir frá 20 – 25. október 2020. Það tók mig hálfan sólarhring að horfast í augu við að eina útskýringin væri sú að Agnieszka hefði einfaldlega látið hleypa sér inn í pósthólf það sem ég notaði í störfum mínum sem formaður. Og það reyndist rétt.
Leikendur í þessu ömurlega máli eru fleiri en þær tvær, manneskjurnar sem að geta enn ekki sætt sig við að hafa tapað í lýðræðislegum kosningum félagsfólks sem að lauk fyrir um 9 mánuðum síðan. M.a. lögmaður ASÍ og persónuverndarfulltrúi Eflingar sem að skrifaði fyrir þær texta sem galopnaði á þeirra siðlausu hegðun, texta sem var svo sendur á umsjónaraðila tæknimála til að fá hann til að tengja pósthólf mitt við pósthólf Agnieszku Ewu, án nokkurrar aðgangsstýringar eða eftirlits.“
Kjarninn greindi frá tölvupóstmálinu í gær og má lesa þá umfjöllun hér: Fóru inn í tölvupósta Sólveigar Önnu og Viðars.
Sólveig Anna heldur áfram að greina andstæðinga sína í skrifum sínum á Facebook: „Smámenni verkalýðshreyfingarinnar þora aldrei að taka slaginn um málefnin. Þau treysta sér aldrei í raunverulegt debatt um aðferðir, markmið, sýn, sigurmöguleika. Þess vegna ljúga þau því stöðugt að enginn málefnalegur ágreiningur sé til staðar (ég bendi á ný á greinaflokk minn á Kjarnanum sem að fer vel yfir allan málefnalega ágreininginn), þrátt fyrir að hann sé það svo sannarlega. Eða finnst ykkur, svo að dæmi sé tekið, að verkalýðsbarátta verka og láglaunafólks sé nákvæmlega sú sama núna og hún var áður en að ég og félagar mínir komumst til valda í Eflingu?
Smámenni verkalýðshreyfingarinnar þora ekki einu sinni sjálf að bjóða sig fram. Þau bíða bara eftir því að fram stígi einhver sem að þau geta hugsað sér að kjósa. Þetta væri hlægilegt ef að þetta væri ekki svona aumkunarvert.
Ég vona að þau finni kjarkinn. Ég vona að Finnbogi eða Þórarinn eða framapotarinn og persónuverndar-glæponinn Ólöf Helga gefi kost á sér til að leiða ASÍ, og þingfulltrúar fái að velja á milli þess gamla og hins nýja. Fái að velja á milli baráttuþreks og einbeittrar löngunar til að ná árangri fyrir vinnandi fólk, og aumingjaskapar og siðleysis. Ég trúi nefnilega á leikreglur lýðræðisins. Og það er alltaf gaman þegar að við fáum að kjósa að valkostirnir séu eins skýrir og hægt er að hugsa sér.“
Á myndinni eru talið frá vinstri: Þórarinn G. Sverrisson, Finnbogi Sveinbjörnsson og Ólöf Helga Adolfsdóttur.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga