Guðlaugur Þór þegir enn um mögulegt framboð

Þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni formanni Sjálfstæðisflokksins tilkynnti hann það tíu dögum fyrir landsfund. Nú, níu dögum fyrir landsfund, birtir Morgunblaðið frétt eftir Andrés Magnússon um að Guðlaugur Þór Þórðarson stefni á framboð gegn Bjarna Benediktssyni formanni. Guðlaugur Þór hefur ekkert sagt um fréttina. Spurningin er hvort túlka eigi þá þögn sem samþykki.

Þegar Davíð lýsti yfir framboði seint í febrúar 1991 sagði hann að framboðið ætti ekki að koma neinum á óvart. Sama gæti Guðlaugur Þór sagt, en hann hefur verið orðaður við formannskjör lengi.

Bjarni var kjörinn formaður 2009 með 58% atkvæða. Kristján Þór Júlíusson fékk þá 40% atkvæða. Ári síðar vildi Bjarni að kosið yrði um formann, þótt tilefni aukalandsfundar þá væri að kjósa varaformann eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér. Allt stefndi í að Bjarni yrði sjálfkjörinn en þá bauð Pétur Blöndal heitinn sig fram með dags fyrirvara og fékk 30% atkvæða á móti 62% atkvæða Bjarna.

Ári síðar var hefðbundinn landsfundur og þá var harður formannsslagur. Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn Bjarna og fékk 45% atkvæða en Bjarni 55%. Hanna Birna tilkynnti framboðið fjórtán dögum fyrir landsfund.

Bjarni hefur því aldrei fengið glimrandi kosningu hjá flokknum. Ástæða þess að hann hefur ekki fengið alvöru mótframboð frá 2011 er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn frá 2013.

Þrátt fyrir það hefur alla tíð verið þó nokkur andstaða við Bjarna innan flokksins sem hefur birst með ýmsum hætti, ekki síst í prófkjörum þar sem Bjarni hefur leynt og ljóst stutt þau sem vilja fella Guðlaug Þór Þórðarson niður framboðslistann. Í frétt sinni í Mogganum vísar Andrés til átaka um kjör landsfundarfulltrúa, metur það svo að fylgjendur Guðlaugs hafi þar styrkt sína stöðu.

Framboð Guðlaugs Þórs nú kæmi inn í sérstakt andrúm í flokknum. Þar er mjög vaxandi óþol gagnvart ríkisstjórninni. Sjálfstæðisflokksfólk metur það svo að flokkurinn nái ekki fram sínum stefnumálum og þar er sérstaklega bent á ríkisfjármálin, sem heyra undir Bjarna. Hann hafi lagt fram afleitt fjárlagafrumvarp með alltof miklum halla, frumvarpið beri ekki vott um ábyrg ríkisfjármál sem flokksfólk telur að ætti að vera einkenni fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Þá finnst mörgum í flokknum að Bjarni og forysta flokksins hafi sætt sig of auðveldlega við veika stöðu flokksins í kosningum, að tímarnir hafi breyst og flokkurinn muni ekki ná að lyfta sér aftur yfir 30%, hvað þá að geta slegið yfir 40% og 50% í skoðanakönnunum eins og gerðist á síðustu öld. Til er fólk í flokknum sem telur að flokkurinn hafi víst möguleika á að ná fyrri glæsileik.

Bjarni sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að sér kæmi á óvart ef landsfundur sæi ástæðu til að skipta um forystu flokksins á þessum tímapunkti. Að það væri eðlilegra þegar flokkurinn væri á leið inn í kosningar, eins og var raunin þegar Davíð bauð sig fram 1991.

„Ég spái að landsfundurinn staðfesti óbreytta forystuskipan og við náum okkur aftur á skrið,“ sagði Þorsteinn Pálsson þegar ljóst var að Davíð færi á móti honum.

Davíð var kjörinn formaður með 53% atkvæða 1991, minnstum mun sem formaður hefur verið kjörinn í Sjálfstæðisflokknum. Bjarni er sá sem kemur næstur.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí