Rauðsokkahreyfingin fer í endurnýjun lífdaga á nýjum vef sem opnaður var með pompi og prakt á Kvennafrídaginn, mánudaginn 24. október sl. Fræðafólk sem rannsakar þróun kvenréttinda og jafnréttisbaráttu á Íslandi geta nú leitað gagna á vefnum óháð staðsetningu, hérlendis sem erlendis, en vefurinn verður einnig þýddur á ensku.
Hreyfing rauðsokkanna var stofnuð árið 1970 og fór fyrst formlega fram sem slík 1. maí sama ár. Fjölmenn ganga kvenna var niður Laugaveg með kröfuspjöldum sem vöktu athygli á helstu baráttumálum hreyfingarinnar sem fjölluðu um barneignir, getnaðarvarnir, fóstureyðingar, leikskóla og ábyrgð á uppeldi barna, verðmat á heimilisstörfum og launajafnrétti á vinnumarkaði. Í göngunni báru konurnar risavaxna styttu sem bar borða sem á stóð: „Manneskja – ekki markaðsvara!“
Markmið Rauðsokkahreyfingarinnar var að nota öll ráð til að vekja athygli á misrétti kynjanna í hvaða mynd sem misréttið birtist en rauðsokkur vildu meina að kúgun kvenna ætti sér djúpar rætur bæði í þjóðfélagsgerðinni sem og fjölskylduhefðum og væri því hvort tveggja í senn væri kerfislægt og menningarlegt mein.
Við stofnun hreyfingarinnar var lögð áhersla á að brjóta upp hið hefðbundna félagaform sem rauðsokkur töldu vinna gegn lýðræðislegum skoðanaskiptum og umræðum. Hreyfingin hafði enga forman, engar fundargerðir voru haldnar (utan ein sem fannst við undirbúningsvinnu vefsins) og baráttuhópar innan hreyfingarinnar spruttu upp af sjálfsdáðum að frumkvæði félaga.
Rauðsokkahreyfingin átti m.a. hugmyndina að Kvennafrídeginum en ekki var óhætt að kalla til verkfalls kvenna þennan dag, 24. októrber 1975, vegna hættu á að konur myndu missa vinnuna. Þrátt fyrir þessa ógn myndaðist breið samstaða milli ólíkra hópa kvenna sem gengu skipulega út af vinnustöðum og heimilum þennan dag til að mótmæla launamisrétti kvenna. Allar kvenréttindahreyfingar sem tóku til starfa eftir 1970 hafa fetað þá slóð sem Rauðsokkurnar mörkuðu. Á vefnum segir m.a.: Rauðsokkahreyfingin var umbóta- og umbrotaafl í íslensku samfélagi á áttunda áratug 20. aldar og var brimbrjótur fyrir þær kvennahreyfingar sem á eftir komu.” Kvennafrídagurinn komst í heimsfréttir og hefur verið endurtekinn nokkrum sinnum síðan þrátt fyrir að enn sé launabilið óbrúað nær fimmtíu árum síðar.
Efni vefsins er afar fjölbreytt, útvarpsþættir og myndefni, textar, ljósmyndir og ýmis skjöl önnur sem hafa verið endurgerð stafrænt til að skoða í vafra. Vefurinn veitir þannig almenningi jafnt sem fræðasamfélaginu aðgang að fjölda upplýsinga og heimilda um innra starf Rauðsokkahreyfingarinnar sem áður hefur þurft að gera sér ferð á Kvennasögusafnið til að sækja og skoða á staðnum.
Vefurinn er samstarfsverkefni kvenna sem stofnuðu hreyfinguna, Kvennasögusafns og Landsbóksafns Íslands og var styrkt af Jafnréttissjóði, Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Reykjavíkurborg (mannréttindaráði og myndríkri miðlun) og Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar hjá ASÍ.
Vefinn má nálgast hér: Rauðsokkuhreyfingin