Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðismanna og Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingar voru sammála um að helstu innviðir samfélagsins væru að bresta. Þau voru hins vegar alls ekki sammála um ástæður þess né hvernig ætti að bregðast við í kappræðum við Rauða borðið.
Vilhjálmur vildi herða útlendingalög til að fækka þeim sem hingað gætu komið og til að stytta málsmeðferð, að auðveldara væri að senda fólk burt. Og hann segir að lausnin á álagi á innviði sé að byggja upp móttökubúðir með heilsugæslu, menntun og tilheyrandi.
Helga Vala hafnaði því að fjölgun flóttafólks frá öðrum löndum en Venesúela og Úkraínu væri að sliga kerfin. Og einnig að fölsuð vegabréf eða skipulagður flutningur glæpasamtaka á fólki hingað væri stórt vandamál. Vandamálið væri að stjórnvöld hefðu ekki undirbúið fyrirsjáanlega fjölgun flóttafólk vegna Úkraínustríðsins.
Með þessar ólíku skoðanir á lofti reyndu þau að sannfæra hvort annað um að hitt hefði rangt fyrir sér og ykkur hlustendur um hvernig meta eigi stöðuna.
Þið getið spilað samræður þeirra í spilaranum hér að ofan og séð til um hvort þeim tekst að vinna ykkur á sitt band.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga