Þingi ASÍ var áðan frestað i sex mánuði. Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti frestun, 203 fulltrúar á móti 20, sem vildu halda þinginu áfram og kjósa forystu yfir Alþýðusambandinu þótt það standi í ljósum logum.
Þessi tuttugu sem vildu kjósa forystu yfir ASÍ þrátt fyrir klofning voru þau sem fagna klofningi, fagna því að tekist hafi að hrekja formenn Eflingar og VR af þingi sambandsins. Það eru þau sem buðu sig fram til embætta, stór hluti stjórnar ASÍ-UNG og fulltrúar úr verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar. Við afgreiðslu um frestun kom í ljós hversu fámennur og þunnur þessi hópur er.
Eftir nóttina var mikill vilji meðal þeirra fulltrúa sem enn sitja þing Alþýðusambandsins um að fresta þinginu og þar með kjöri í helstu embætti um sex mánuði í von um að einhverjar sættir finnist milli stríðandi fylkinga. Ef kosið hefði verið um embætti í dag mætti reikna með að það leiddi til endanlegs klofnings sambandsins. Tillagan var borin fram af fulltrúum Afls á Austurlandi og Framsýn á Húsavík að stærstu leyti.
Aðrir þingfulltrúar vildu halda áfram samkvæmt dagskrá og er það einkum hópurinn sem harðast barðist gegn framboðum Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR, Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar og Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness. En í umræðunum um tillögu um frestun varð fljótt ljóst hvert stefndi og þróttur þeirra sem vildu halda áfram með þingið þvarr.
Ef kosið hefði verið er líklegt að stjórn Alþýðusambandsins yrði skipuð helstu andstæðingum þess fólks sem knúði á um breytingar á ASÍ. Og þar með girt fyrir allar sættir, að andstæðingar Ragnars, Sólveigar og Vilhjálms muni nota Alþýðusambandið í áframhaldandi stríði.
Þau sem ekki hafa beint verið aðilar að þessum átökum vildu grípa til þess að fresta þinginu í sex mánuði og freista þess á þeim tíma að ná Alþýðusambandinu saman. Sem í dag er ekki talið líklegt að náist, en samt mögulegt. En tímann mætti einnig nota til að finna frambjóðendur til embætta sem meiri sátt er um en þau sem stefndi í að yrðu sjálfkjörin.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga