Frá 1. desember á síðasta ári fram til 1. október á þessu ári fjölgaði landsmönnum um rúm níu þúsund manns. Það stefnir að landsmönnum fjölgi um tæplega ellefu þúsund manns á árinu, að landsmenn verði tæplega 388 þúsund í árslok. Ástæðan er fyrst og fremst mikil fjöldi innflytjenda og flóttamanna.
Fjölgunin það sem af er ári jafngildir um 2,9% fjölgun á ári. Það hefur einu sinni gerst að hlutfallsleg fjölgun var meiri. Það var árið 2018, á hápunkti ferðamannasprengjunnar áður en gjaldþrot WOW og síðan cóvid dró úr henni aflið. Þá fjölgaði landsmönnum um 3,0%. Næst kemur bóluárið mikla 2007 með 2,6% og síðan hápunktur barnasprengjunnar 1958 þegar landsmönnum fjölgaði um rúm 2,5%.
Pólskum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um 1.697 frá 1. desember í fyrra og fólki frá Úkraínu um 1.664. Næst koma íslenskir ríkisborgarar, sem hefur fjölgað um 1.305. Síðan kemur Rúmenía með 710, Venesúela með 662, Litháen með 272 og Lettland með 232.
Ef við skiptum fjölguninni hlutfallslega þá voru íslenskir ríkisborgarar 14,5% af fjölguninni en erlendir ríkisborgarar 85,5%. Þar af var fólk frá öðrum löndum Evrópu 68,7%. Næst kemur Suður-Ameríka með 8,1%, fyrst og fremst vegna fólk frá Venesúela.
Erlendir ríkisborgarar voru 14,6% landsmanna í desember í fyrra en eru nú orðnir 16,3% landsmanna. Það er hátt í öllum samanburði. Í Evrópu er hlutfallið aðeins hærra í Sviss þar sem það er nærri 25% og í Lúxemborg þar sem erlendir ríkisborgarar eru hátt í helmingur landsmanna. Þetta hlutfall er rúmlega 9% í Danmörku og Svíþjóð en nærri 11% í Noregi.
Ástæða þess að hlutfallið er hátt á Íslandi er að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað hratt á skömmum tíma og Íslendingar eru tregari að veita fólki ríkisborgararétt en nágrannalöndin.
Samsetning hópsins er líka nokkuð önnur á Íslandi en á Norðurlöndunum. Hér eru innflytjendur fyrst og fremst frá Evrópu og einkum Austur-Evrópu.
Ríkisborgarar Evrópu að Íslandi meðtöldu eru 97,5% landsmanna. Aðeins 2,5% eru ríkisborgarar ríkja í öðrum heimsálfum. 0,9% koma frá Asíu, 0,5% frá Suður-Ameríku, 0,5% frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, 0,2% frá Afríku sunnan Sahara og 0,3% frá Norður-Ameríku og Eyjaálfu samanlagt.
Þetta er nokkuð öðruvísi samsetning er meðal innflytjenda á Norðurlöndunum, auk þess sem innflytjendur víðar að hafa fengið þar ríkisborgararétt.
Það má því segja að Ísland sé enn einsleitt samfélag, það er fyrst og fremst Evrópskt samfélag.
Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga