Síðastliðinn þriðjudag var ráðist á ráðstefnugest Samtakanna ‘ 78 í miðborg Reykjavíkur. Gesturinn er talsvert slasaður, en tveir menn kýldu hann í andlitið og líkama, með þeim afleiðingum að tennur brotnuðu. Lögreglan segist rannsaka málið sem mögulegan hatursglæp. Í tilkynningu frá samtökunum var atvikinu lýst svo:
„Veist var að ráðstefnugestum á göngu í miðbæ Reykjavíkur á mánudag og í gærkvöld varð ráðstefnugestur fyrir líkamsárás. Kalla þurfti til lögreglu og sjúkrabíl og var einstaklingurinn fluttur á sjúkrahús. Líðan hans er eftir atvikum og áfallið er mikið fyrir alla gesti.“
Sjálfur telur gesturinn að hrottarnir hafi ráðist á sig vegna þess að hann var með hálsband líkt og sjá má hér fyrir ofan. Ásar á Íslandi, sem eru hagsmunasamtök eikynhneigðra og eirómantískra, greina frá því á Facebook:
„Við erum öll slegin yfir fréttum vikunnar. Ráðstefnugestur var á leið frá kvöldverði í tengslum við ráðstefnu LGBTI þegar á hann var ráðist, líklega vegna þess að hann var með svona regnbogaband um hálsinn eins og allir gestir ráðstefnunnar. Hann hlaut umtalsverða áverka og lá á sjúkrahúsi í tæpan sólarhring. Þriðjudagskvöld í Reykjavík sem á að heita örugg og hinseginvæn borg! Við í stjórn Ása á Íslandi sendum honum hlýjar batakveðjur og vonum að skræfurnar sem réðust á hann náist sem fyrst.“