„Ég er búin að vera mjög hugsi síðustu daga vegna umræðunnar sem er í samfélaginu í dag um hinseginfólk og þá aðallega trans fólk eins og mig,“ skrifar Veiga Grétarsdóttir Sulebust kajakræðari á Facebook. „Það er aðallega einn maður sem fer eins og eldur í sinu um netið og kemur fram með innantómar fullyrðingar um trans fólk sem stenst alls enga skoðun og að fræðsla um transmálefni skaði börnin okkar.“
„Hann líkt og ég ólst upp í litlu þorpi út á landi og fékk enga fræðslu um hinsegin málefni frekar en ég. Hann segist vera þakklátur fyrir það vegna þess að ef hann hefði fengið þá fræðslu þá hefði hann sjálfsagt farið í gegnum kynleiðréttingarferlið,“ skrifar Veiga. „Hann vill meina að hátt í 90% af börnum sem hefja þetta ferli muni koma út sem samkynhneigðir einstaklingar ef þeim yrði neitað um þá aðstoð sem þau þurfa.“
„Ég hins vegar fæddist 1976 á Ísafirði og ólst þar upp sem strákur,“ heldur hún áfram og rekur svo sögu sína:
„Hins vegar þegar kynþroskinn fór að bæra á sér þá fór ég að upplifa löngun til að klæða mig upp sem stelpu, nú var ekkert kvennlegt í mínu uppeldi, ég var mikil pabbastelpa sem var alltaf í skúrnum að brasa með pabba, smíða, gera við bíla, sprauta bíla svo eitthvað sé nefnt.
En ég skildi aldrei afhverju ég hafði þessa löngun til að vera í stelpu fötum og sú þekking sem ég hafði á þeim tíma um hinseginmál var ekki mikil, ég átti tímabil þar sem ég hélt að ég væri hommi vegna þess að maður hafði séð þá fara í drag, það gat ekki verið neitt annað sem var að hrjá mig en að ég væri hommi en samt hafði ég engan áhuga á strákum, bara stelpum.
Uppfrá því hófst mikill feluleikur í mínu lífi þar sem ég fór að eignast stelpuföt sem varð að mínu stærsta leyndarmáli, ég skrúfaði hátalarana mína í sundur til að fela kvennmannsföt inn í þeim, húsgögnin mín líka og seinna meir eftir að ég fékk bílprófið þá átti ég felustað á bak við klæðninguna í skottinu á bílnum mínum.
Þegar ég svo fékk tækifæri til að klæða mig í kvennmannsföt þá upplifði ég mikla skömm, þetta var eitthvað ekki normalt en á sama tíma upplifði ég líka mikla ró, ró sem ég bý yfir alla daga í dag því ég þarf ekki lengur að fela mig og get verið sú sem ég er, hvort sem það er í kayakgallanum eða kjól og háum hælum með varalit.
Ég fór í vélskólann og seinna í rennismíði til að vera eins mikill karl og ég gæti, gerði allt til að bæla niður allt þetta kvenlega í mér, náði mér í byssuleyfi og fór að drepa fugla og hreindýr, át lifrina hráa og svo var farið á bak við stein til að æla, allt gert til að reyna að bæla niður hver ég var sem var kannski ekkert skrýtið því talsmáttin gagnvart fólki eins mér var ekkert geðslegur á þessum tíma.
Ég hef unnið í vélsmiðjum, sprautuverkstæði og við rennismíði í 20 ár og á þeim hef ég þurft að hlusta á vinnufélagana tala um fólk eins sem viðbjóð sem ætti að berja og drepa.
Ég var komin vel yfir tvítugt þegar ég sá frétt í DV af erlendri transkonu en fram af þeim tíma hélt ég alltaf að ég væri sú eina í heiminum sem væri svona, þetta er stund sem ég gleymi aldrei því þá vaknaði eitthvað innra með mér en var fljót að loka á það, ég vildi ekki verða lamin til óbóta.
Ég hugsa stundum til þess hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði fengið þessa fræðslu sem krakkar fá í dag, hvernig líf mitt hefði orðið öðruvísi ef ég hefði ekki þurft að fela hver ég var og þjást af miklu þunglyndi síðustu árin áður ég ég tók af skarið og ákvað að standa með sjálfri mér.
En það er ekki bara ég sem hefði sloppið við þjáningar heldur fólkið mitt líka, foreldrar, systkini og ég tala nú ekki um konuna sem ég átti en hún gekk í gegnum helvíti þegar hún horfði á manneskjuna sem hún elskað hverfa fyrir augum sér.
Ég er búin að vera á báðum áttum hvort ég ætti að setjast niður og skrifa þetta en eftir að ég heyrði af einu hlaðvarpi í gær sem ég byrjaði að hlusta á en slökkti fljót því ég gat ekki hlustað á þetta hatur og tala nú ekki þessa kvennfyrirlitningu sem vall uppúr þeim þá fannst mér ég tilneydd.“
Myndin fylgir færslunni og er af Veigu fyrir kynleiðréttingu.