Þór Saari var starfsmaður Ríkisábyrgðasjóðs þegar Íbúðalánasjóður fór út í stórfellda skuldabréfaútgáfu 2004 og næstu ár. Þór mætti fyrir þingnefndir og varaði við stöðunni, að það stefndi í óefni. Hann segir að þingmenn hafi engan áhuga haft á þessum skilaboðum. Og í raun enginn, það var litið á þessar aðfinnslur sem kvabb.
Þór fór yfir stöðu Íbúðalánasjóðs við Rauða borðið. Hann sagði ábyrgðina liggja fyrst og fremst hjá Framsóknarflokki sem hafi sett menn yfir Íbúðalánasjóð og til starfa innan hans sem ekki réðu við verkefnið. En ábyrgðin væri líka hjá Sjálfstæðisflokknum og einkum fjármálaráðuneyti Geirs H. Haarde, sem gæta hefði átt hagsmuna ríkissjóðs. Og svo auðvitað Alþingis, sem sannaði sig í þessu máli eins og öðrum að vera handónýta stofnun.
Fjallað er um aðvarandi Ríkisábyrgðasjóðs í rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð. Þar stendur: „Hlutverk Ríkisábyrgðasjóðs er meðal annars að fylgjast með rekstri þeirra aðila sem ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir. Ríkisábyrgðasjóður fylgdist sérstaklega vel með stöðu Íbúðalánasjóðs á árunum 2004‒2006 og benti ötullega á það sem honum fannst athugavert. Til að fylgjast með stöðu ÍLS óskaði Ríkisábyrgðasjóður reglulega eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði sem var tregur til að láta þær af hendi og svaraði gjarnan seint enda þótt Ríkisábyrgðasjóður hefði lagalega heimild til að afla þeirra gagna sem hann taldi mikilvæg til að sinna eftirliti sínu.
Þrátt fyrir eindreginn vilja Ríkisábyrgðasjóðs til að upplýsa viðeigandi aðila um áhyggjur sínar virðast umsagnir og áhyggjur hans almennt hafa fengið lítið vægi. Að auki má nefna að Ríkisábyrgðasjóður hafði afar veik stjórntæki til að framfylgja hlutverki sínu og takmarkaðan pólitískan stuðning til að beita þeim stjórntækjum sem þó voru tiltæk. Því komst Íbúðalánasjóður upp með að taka lítið tillit til athugasemda og umsagna Ríkisábyrgðasjóðs á miklum umbrotatímum árin 2004–2006.“
Og síðar segir: „Þegar á reyndi skorti á þá pólitísku forustu sem til þurfti svo að Ríkisábyrgðasjóður gæti gegnt því hlutverki að varna því að ábyrgðir féllu á ríkissjóð.“
Þór segir að Alþingi hafi lítið gert með skýrsluna. Í raun hafu verið fullt tilefni til að draga menn fyrir Landsdóm. Og þá meðal annars Geir H. Haarde í annað sinn. Það voru menn sem tóku þær ákvarðanir sem valda nú almenningi miklum skaða.
Það má sjá og heyra viðtalið við Þór Saari í spilarnum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga