Í viðræðum fjármálaráðuneytisins og lífeyrissjóðanna um skuldauppgjör Íbúðalánasjóðs hefur verið rætt um að lífeyrissjóðirnir skipti á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og hlutabréfum í eigu ríkissjóðs. Þar kemur Íslandsbanki helst til greina. Eign almennings í bankanum yrði þá hent í skuldahítina sem Íbúðalánasjóður skyldi eftir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti hugmyndir sínar í haust um hvernig varpa mætti tapinu á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs yfir á eigendur bréfanna, sem að mestu eru lífeyrissjóðir í dag. Þetta mun ekki verða eins einfalt og Bjarni kynnti, enda er lagaleg staða lífeyrissjóðanna sterk.
Tapið er tilkomið vegna þess að Íbúðalánasjóður gaf út óuppsegjandleg skuldabréf á háum vöxtum til að fjármagna íbúðalán, sem voru uppsegjanleg. Þegar vextir lækkuðu greiddu lántakendur Íbúðalánasjóðs upp lán sín og sjóðurinn sat uppi með fúlgur fjár sem hann gat ekki ávaxtað á sama tíma og útistandandi skuldir hans hækkuðu. Um tíma fjármagnaði Íbúðalánasjóður viðskiptabankana, sem höfðu efnt til samkeppni við hans, og flýtti þar með uppgreiðslu lána sinna og margfaldaði með því vandann.
Mörg dæmi önnur eru um misnotkun á sjóðnum á bóluárunum fyrir Hrun. Sjóðurinn var t.d. látinn lána til uppbyggingar leiguhúsnæðis út á landi og miðuðu lánin við áætlað verðmæti húsanna. Dæmi voru um að leigufélög tækju lán og borguðu með þeim verktökum fyrir að byggja húsinu, þar sem leigufélagið og verktakinn voru í eigu sömu aðila. Þegar kom að skuldadögunum fór leigufélagið á hausinn en verktakafélagið borgaði eigendum sínum stórkostlegan arð.
Eftir Hrun var svo enn aukið á vanda Íbúðalánasjóðs með því að selja þær eignir, sem sjóðurinn keypti á uppboði vegna vanskila lántakenda, á tíma þegar íbúðaverð var lágt og oftar en ekki á verði undir markaðsvirði. Með þessu voru mikil verðmæti í raun seld á undirverði út úr sjóðnum.
Þetta leiddi til að fyrirsjáanlegt tap Íbúðalánasjóðs var orðið um og yfir 400 milljarðar króna, tap sem á endanum myndi lenda á almenningi. Þetta er meira en fjórum sinnum meira ráðgert er að nýr Landspítali kosti. Hugmynd Bjarna var að láta hluta af þessu tapi falla á ríkissjóð en mest á lífeyrissjóðina. Það er að almenningur myndi borga fyrir þessa bommertu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks með skertum eftirlaunum fremur en með hærri sköttum eða takmarkaðri opinberri þjónustu.
Ráðagerðir Bjarna eru ekki að ganga eftir. Í viðræðum sem Steinþór Pálsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, leiðir fyrir hönd Bjarna hefur komið fram að staða lífeyrissjóðanna í málinu er mjög sterk og ólíklegt að ríkið geti sveigt þá eða barið til hlýðni. Því hefur verið leitað annarra lausna, meðal annars að skipta á íbúðabréfunum eitruðu og hlutabréfum í eigu ríkisins.
Þar kemur helst til greina 42,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka, sem samkvæmt gengi dagsins er rétt rúmlega 100 milljarða króna virði. Eftir klúðrið með sölu á hlutum í bankanum í fyrra hafa samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins sett sig upp á móti frekari sölu. Bjarni sér þá möguleika á að selja restina með því að skipta á hlutabréfunum og íbúðabréfum.
Lífeyrissjóðirnir eru fyrir stærstu hluthafar í Íslandsbanka og yrði enn stærri ef þessi hugmynd verður framkvæmd. Það gefur færi fyrir auðuga Íslendinga að ná stjórn á bankanum með tiltölulega litlum hlut. Lífeyrissjóðir hafa verið hlutlausir fjárfestar í fyrirtækjum, iðulega látið stjórn þeirra eftir til stærstu einkafjárfestanna. Þannig stýra margir fjárfestar skráðum fyrirtækjum eins og væru þeir einkaeign þeirra þótt þeir eigi undir 10% hlutafjár.
Með því að færa lífeyrissjóðum hlutabréfin sem eftir eru væri forræði bankans því í raun fært til auðstéttarinnar. Mögulega í samstarfi við erlenda sjóði sem enn eiga hluti í Íslandsbanka, svo sem Capital Group, Vanguard og RWC Asset Management.