„Á meðan ekki er komið til móts við grundvallarkröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir þjóna samningaviðræður við fjármálaráðuneytið því ekki tilgangi. Um það er full samstaða meðal sjóðanna,“ segir í tilkynningu frá tuttugu lífeyrissjóðum, þeim eiga mest af skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði á sínum tíma.
Þar með hafa lífeyrissjóðirnir gengið frá samningaborði um uppgjör skuldabréfa Íbúðalánasjóðs. Efnt var til viðræðnanna undir hótunum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að setja lög sem myndu flytja fyrirsjáanlegt gríðarlegt tap ríkissjóðs vegna þessara skuldabréfa yfir á lífeyrissjóðina. Hugmyndin er að færa góðan hluta af tapinu frá ríkissjóði og þar með skattgreiðendum yfir á lífeyrissjóði og þar með eftirlaunafólk.
„Boðaðar ráðstafanir í tengslum við slit ÍL-sjóðs, sem miða að því að lækka verulega fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins, með lagasetningu náist ekki samningar, leiða að óbreyttu til tug milljarða króna tjóns lífeyrissjóðanna og þar með almennings í landinu í formi tapaðra lífeyrisréttinda. Við blasir að látið yrði reyna á allar slíkar aðgerðir fyrir dómstólum,“ segir í tilkynningu lífeyrissjóðanna.
Tap vegna þessarar skuldabréfaútgáfu getur á endanum numið allt að 400 milljörðum króna. Það eru fimm nýir Landspítalar. Tapið er tilkomið vegna stórkostlegrar mistaka ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar snemma á öldinni. Þá gaf Íbúðalánasjóður úr óuppsegjanleg skuldabréf með föstum vöxtum langt inn í framtíðina og notaði féð sem fékkst með útgáfu þeirra til að lána út uppsegjanleg lán. Þegar vextir lækkuðu greiddu lántakendur upp lánin og Íbúðalánasjóður gat ekki ávaxtað fé til að standa undir vöxtunum af skuldabréfunum sem hann hafði gefið út.
Vandinn hefur síðan vaxið með hverjum mistökunum á fætur öðrum. Eftir Hrun voru þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður leysti til sín seldar á lágu verði aftur og mögulegur ávinningur því gefinn frá sjóðnum. Undanfarið hefur féð sjóðsins legið óhreyft í stað þess að reynt væri að ávaxta það, til dæmis með uppbyggingu húsnæðis sem vantar sárlega. Sjóðurinn hefur fyrst og fremst lánað ríkinu á lágum vöxtum til að fjármagna mikinn halla á ríkissjóði.
Bjarni Benediktsson kynnti í haust plön um að loka þessa gati. Hann ætlaði að láta ríkissjóð bera hluta en sá fyrir sér að eigendur skuldabréfanna, sem eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir, myndu bera stærsta hlutann af tapinu. Efnt var til samningaviðræðna undir hótun um að setja lög sem myndu færa tapið yfir á sjóðina. Nú er slitnað upp úr þeim viðræðum og komið að Bjarna að efna hótunina. Og lífeyrissjóðirnir segjast þá ætla að stefna ríkinu fyrir að hlaupast undan ríkisábyrgð.