Íbúðalánasjóðsblokk sem færði einni fjölskyldu 673 m.kr.

Dæmin af sölu Íbúðalánasjóðs á fasteignum eftir bera öll að sama brunni. Með sölunni færði Íbúðalánasjóður óheyrilegt fé til fárra og sat eftir með vaxandi tap. Salan á þessum íbúðum bjó í reynd til nútímaleigumarkað á Íslandi, þar sem okrið hefur grafið undan lífskjörum fjöldans. Hér er dæmi af einni blokk á Akranesi.

Í apríl 2013 seldi Íbúðalánasjóður fyrirtækinu V.Jónsson ehf. fjölbýlishús að Holtsflöt 9 á Akranesi fyrir 190 m.kr. Í húsinu eru 20 íbúðirnar á bilinu 62-97 fermetrar. Á verðlagi dagsins eru þetta 258,2 m.kr. sem gerir um 12,9 m.kr. á íbúð.

Íbúðirnar voru ekki tilbúnar. Þær fóru ekki í leigu fyrr en um haustið. Af reikningum fyrirtækisins má sjá á það seldi fasteignir ári áður og átti fyrir kaupin handbært fé fyrir 64 m.kr. í árslok 2012. Í tengslum við kaupin tók fyrirtækið lán upp á 197,4 m.kr. Uppreiknað á núvirði er þetta tvennt, sem við getum metið sem kostnaðinn við að kaupa og fullklára íbúðirnar til leigu 354,5 m.kr. á núvirði.

Það gera 17,7 m.kr. á íbúð. Og rúmar 228 þús. kr. fermetrinn.

Íbúðirnar fóru í leigu frá hausti 2013 og leigan stóð undir rekstri hússins og fyrirtækisins kringum það, borgaði fjármagnskostnað og afborganir af láninu.

Í árslok 2019 var staðan sú að eignin var skráð í bækur félagsins á 189,3 m.kr. en veðskuldir var 220,1 m.kr. Eignin hafði verið afskrifuð frá kaupverði þótt verðmæti hennar hafi vissulega hækkað. Bókfært neikvætt eigið fé gaf því ekki rétta mynd af stöðu þessa fyrirtækis.

Það kom í ljós á næstu árum þegar sjö af íbúðunum tuttugu voru seldar, tvær árið 2020 og fimm árið 2021, fyrir samtals um 259,6 m.kr. Með söluverðinu voru allar skuldir félagsins greiddar upp og auk þess greiddur út 59 m.kr. út arður til eigenda.

Staðan var þá sú að eigendur höfðu fengið endurgreiddar 59 m.kr. af þeim 89 m.kr. á núvirði sem þau höfðu lagt til kaupanna sem handbært fé í upphafi. Og allar skuldir höfðu verið greiddar upp. Og eftir sátu þrettán skuldlausar íbúðir.

Fimm af þeim voru settar í sölu um daginn á samtals 230,5 m.kr. Ef við reiknum með að það sé rétt verð getum við metið áætlað verðmæti allra íbúðanna þrettán á 613,6 m.kr.

Staðan er því sú að V.Jónsson ehf. keypti 2013 tuttugu íbúða hús á Akranesi af Íbúðalánasjóði á 258 m.kr. á núvirði. Lagði til 89 m.kr. til að fullgera íbúðirnar, leigði þær út svo leigjendur borguðu allan rekstrar- og fjármagnskostnað og greiddu niður lánið. Eftir að hafa selt sjö íbúðir á félagið 614 m.kr. og hefur auk þess greitt út arð upp á 59 m.kr.

Heildarhagur af þessari 89 m.kr. fjárfestingu er þá 673 m.kr. Upphaflegt tillegg hefur 7,5 faldast níu og hálfu ári. Það er meira en 25% ávöxtun á hverju ári.

V.Jónsson ehf. hefur sem sagt haft það fínt eftir að fyrirtækið keypti fjölbýlishús af Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður hefur það hins vegar ömurlegt, er við það að senda 200 milljarða króna reikning til almennings hið minnsta. Og leigjendur sem héldu vélinni gangandi hafa búið við hækkandi húsaleigu sem grafið hefur undan kaupmætti þeirra.

Svona eru allar sögurnar á bak við sölu Íbúðalánasjóðs á eignum eftir Hrun. Salan gerði þau sem keypti rík. Sjóður sjálfur er hins vegar gjaldþrota. Íbúðirnar sem voru seldar fóru flestar í leigu og léku lykilhlutverk í að breyta húsnæðismarkaðinum, stækka leigumarkaðinn og hækka þar leigu.

Eigendur V.Jónsson ehf. er Vilhelm Jónsson, Bjarney A. Pálsdóttir og börn þeirra Sigrún A. Vilhelmsdóttir, Páll Þór Vilhelmsson og Jón Andrés Vilhelmsson.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí