Til Heimavalla eftir að hafa selt fyrirtækinu íbúðir Íbúðalánasjóðs

Erlendur Kristjánsson, núverandi yfirlögfræðingur Heimstaden, sem keypti Heimavelli, starfaði sem lögmaður hjá Íbúðalánasjóði og sat m.a. í verkefnastjórn sjóðsins þegar sjóðurinn seldi 450 íbúðir til fjárfesta í einum pakka vorið 2015. Heimavellir tryggðu sér 111 af þessum eignum. Söluverðið var um 22% undir þáverandi markaðsvirði.

Íbúðirnar voru hluti af svokölluðum eignasafni 6 sem selt var á 930 milljónir til Heimavalla 15. apríl 2015. Fasteignamat íbúðanna í þeim pakka var 876 m.kr. samtals.

Eftir að hafa lokið við að semja við Heimavelli um kaup á íbúðum Íbúðalánasjóðs var Erlendur í kjölfarið ráðinn sem yfirlögfræðingur félagsins. Fór hann yfir til leigurisans ásamt samstarfsskonu sinni Maríu Ingvarsdóttur verkefnastjóra sem hafði sinnt eignaumsýslu fyrir Íbúðalánasjóð frá árinu 2008.

Erlendur var hluti af verkefnastjórn sem sá um söluna í umboði Íbúðalánasjóðs og stóð stjórnin ásamt lögfræðiteymi sjóðsins, þ.á m. Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur fyrrverandi yfirlögfræðings Íbúðalánasjóðs og núverandi aðstoðarforstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, að sölu íbúðanna. Anna Guðmunda hefur leitt átakshópa þjóðhagsráðs um umbætur á leigumarkaði bæði árið 2019 og svo aftur 2022.

Af þessum 111 íbúðum sem voru hluti af eignasafni 6 voru meðal annars 16 íbúðir við Leirubakka 36 í Reykjavík. Voru íbúðirnar á bilinu 50-90  fermetrar að stærð. Heildarfasteignamat þeirra var 315 milljónir eða 36% af heildarfasteignamati eignasafnsins. 36% af heildarsöluverði eignasafnsins gera 334 m.kr. og fermetraverðið því 254 þús. kr. eða 22% undir þáverandi markaðsvirði. Heildar fermetrafjöldi íbúðanna við Leirubakka var 1.316 fermetrar.

Í september 2017 var markaðsvirði hvers selds fermetra í 50-90 fermetra íbúð í Breiðholti kominn í 493 þús. kr. og hafði hækkað um 95% frá kaupdegi 15 apríl 2015. Heildarverðmæti íbúðanna var þá komið í 649 m.kr. og hafði hækkað rúmlega 300 m.kr. frá kaupdegi eða 360 þús. kr. á hverjum degi þessa 870 daga.

Ef að allar 111 íbúðirnar voru seldar 22% undir markaðsverði þá þýðir það að Heimavellir hafi fengið rúmar tvö hundruð milljónir gefnar frá Íbúðalánasjóði með þessari einu sölu. Ef við gerum svo ráð fyrir að allt eignasafnið hafði hækkað um 95% í september 2017 eins og íbúðirnar við Leirubakka þá var virði eignasafnsins orðið rúmlega 1,8 milljarðar króna. Það þýðir hækkun upp á tæpar 900 m.kr. eða ein milljón króna á hverjum degi fram til september 2017.

Í dag er virði íbúðanna við Leirubakka 930 m.kr., hefur hækkað um 180%. Heimavellir hafa því grætt 600 milljónir á einungis þessu eina fjölbýlishúsi en 1,7 milljarð á eignasafninu öllu.

Það komst í fréttirnar um mitt ár 2018 þegar Erlendur seldi hlutafé sitt í Heimavöllum með miklum hagnaði. Erlendur starfar enn sem yfirlögfræðingur leigurisans sem nú er í eigu norska fasteignafélagsins Heimstaden.

Myndin er af Erlendi Kristjánssyni af heimasíðu Heimstaden ásamt lógóum þess fyrirtækis og Íbúðalánasjóðs.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí