Guðný Benediktsdóttir, fátæk kona í Njarðvík, hefur reynt að benda starfsfólki Bríetar, leigufélags í eigu ríkisins, á að félagið sé að okra á sér. Leigan standist ekki, hvorki út frá greiðslugetu Guðnýjar né út frá kaupverði íbúðarinnar. Guðnýju er svarað af tómlæti og óskum hennar er hafnað. Samt er augljóst öllum sem skoða málið að Guðný hefur rétt fyrir sér. Bríet er okurfyrirtæki. Og illa rekið í þokkabót.
Guðný leyfði Samstöðinni að skoða hennar mál og segja hennar sögu. Og sögu Bríetar í leiðinni.
Saga Guðnýjar
Guðný Benediktsdóttir er öryrki og hefur ekki efni á að borga 248 þús. kr. í húsaleigu, eins og Bríet rukkar.
Guðný fær 317 þús. kr. frá Tryggingastofnun og 10 þús. kr. frá lífeyrissjóði á mánuði. Af því fara 248 þús. kr. í húsaleigu, en Guðný fær húsnæðisbætur á móti, tæplega 60 þús. kr. Húsnæðiskostnaðurinn er því 188 þús. kr. eða 57% af ráðstöfunartekjum.
Guðný hefur 139 þús. kr. til ráðstöfunar eftir húsnæðiskostnað. Framfærsluviðmið hjá umboðsmanni skuldara eru 195 þús. kr. fyrir einstakling áður en kemur að húsnæði. Miðað við það vantar Guðnýju 56 þús. kr. til að lifa út mánuðinn. Af ráðstöfunartekjum sínum kæmist hún fram að 22. þessa mánaðar miðað við mat umboðsmanns skuldara.
Húsnæðiskostnaður er talinn íþyngjandi þegar hann fer yfir 40% af ráðstöfunarfé. Samkvæmt því eru hættumörkin hjá Guðnýju við 131 þús. kr. Ef við bætum húsnæðisbótunum við gæti Guðný borgað 191 þús. kr. í leigu. Í dag er hún því að borga 57 þús. kr. meira en hún ræður við.
Þótt verðlag sé hátt og allt dýrt á Íslandi, er það húsnæðiskostnaðurinn sem grefur undan fjárhag Guðnýjar. Ef leigan væri 40% af ráðstöfunartekjum hennar gæti hún lifað út mánuðinn. Engu lúxuslífi, en hún kæmist af.
Beikidalur 6 í Njarðvík þar sem Guðný leigir af Bríeti.
Saga Bríetar
Leigufélagið Bríet eignaðist íbúðina sem Guðný leigir árið 2008. Kaupverðið var rúmar 23,1 m.kr., sem gera um 40,8 m.kr. á núvirði.
Ef við gerum ráð fyrir að Bríet hafi lagt fram 30% eigið fé og tekið restina á verðtryggðu láni til 40 ára með 2,95% vöxtum, það eru kjörin sem Lífeyrissjóður verslunarmanna bíður upp á í dag, og borgað 2% lántökugjald; þá má reikna með að eftirstöðvar lánsins séu í dag rúmlega 23,1 m.kr. Sem vill svo til að er sama upphæð og kaupverðið, en ekki láta það trufla ykkur.
Miðað við verðþróun fasteigna í Njarðvík má reikna með að markaðsvirði íbúðarinnar sé í dag um 53,2 m.kr. Eigið fé Bríetar í íbúðinni er þá orðið 30,1 m.kr.
Eigið féð hefur þá vaxið úr rúmlega 13,1 m.k. í 30,1 m.kr. á fjórtán árum. Það er hækkun um rúmlega 6,9 m.kr. umfram verðlagsbreytingar. Eigið fé Bríetar í íbúðinni sem Guðný leigir hefur því hækkað um 41 þús. kr. umfram verðlag í hverjum mánuði.
Ef við reiknum greiðslur af láninu ættu þær að vera í dag tæplega 104 þús. kr. á mánuði, afborganir og vextir. Fasteignagjöld eru tæplega 10 þús. kr. á mánuði og viðhald tæplega 49 þús. kr. á mánuði ef við reiknum með viðhaldskostnaði upp á 1,1% á ári af markaðsvirði íbúðarinnar.
Það kostar því Bríet um 162 þús. kr. á mánuði að eiga þessa íbúð og greiða af henni lánið.
En það kostar að leigja íbúðina út. Ef við segjum að 12% húsaleigu fari í umsýslukostnað og 6% í greiðslufallstyggingu, til að eiga borð fyrir báru ef leigjendur hlaupa frá leigunni, þá væri eðlilegt markaðsverð fyrir þessa íbúð miðað við almenn lánskjör um 197.500 kr.
Bríet leigir íbúðina hins vegar út á 248 þús. kr. Sem er rúmlega 50 þús. kr. meira en í dæminu sem við settum upp.
Og ef við treystum dæminu þá innheimtir Bríet um 600 þús. kr. á ári umfram það sem eðlilegt getur talist. Og örugglega meira þar sem félagið þykist vera rekið án hagnaðarsjónamiða. Og við þessa upphæð bætist svo 492 þús. kr. sem íbúðin hefur hækkað í verði að meðaltali hvert ár.
Það er því ekki hægt að segja að Bríet berjist í bökkum eins og Guðný. Segja má að húsnæðiskerfið flytji fé til Bríetar á sama tíma og það grefur undan lífi Guðnýjar.
Og það er ekkert skrítið. Bríet er að græða á Guðnýju.
Parhúsið á Fáskrúðsfirði sem lækkaði í verði þegar Bríet reiknaði dæmið upp á nýtt.
352 þús. kr. fyrir parhús á Fáskrúðsfirði
En erum við kannski að reikna vitlaust? Veit Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, eigandi Bríetar, ekki best allra hvernig á að reikna út rekstrar- og fjármagnskostnað af húsnæði?
Því miður er það ekki svo. Um mitt sumar vakti það athygli landsmanna þegar Bríet auglýsti 174 fermetra parhús á Fáskrúðsfirði til leigu fyrir 352 þús. kr. Þetta er óheyrilegt verð. Hver á að geta borgað svona hátt verð fyrir parhús á Fáskrúðsfirði?
Framkvæmdastýra leigufélagsins, Drífa Valdimarsdóttir sagði í samtali við Vísi í sumar að verð eignarinnar væri það sem þyrfti til að kostnaður félagsins væri á núlli. Hún segist skilja að erfitt væri fyrir fólk að trúa því að félagið sé óhagnaðardrifið miðað við þetta leiguverð. Aðspurð hvort hún teldi að eignin verði tekin á leigu segir hún það yrði að koma í ljós.
Í byrjun þessa mánaðar sendi Bríet frá sér tilkynningu um dýru parhúsinu á Fáskrúðsfirði. Félagið hafði reiknað dæmið aftur og lækkað verðið um rúmar 74 þús. kr. Leiga væri ekki 352 þús. kr. heldur 279 þús. kr. Fermetraverðið væri þá komið niður í markaðsverð á Fáskrúðsfirði.
Sem er skrítið, þar sem Bríet er óhagnaðardrifið félag. Maður skyldi ætla að verðið hjá slíku félagi væri vel undir markaðsverði. Hinn svokallaði markaður er aldeilis hagnaðardrifinn. Og meira en það. Íslenski leigumarkaðurinn er keyrður áfram af miskunnarlausu okri á leigjendum.
Það má því fullyrða að sá sem leigir á markaðsverði sé okrari.
Parhúsin á Fáskrúðsfirði eru nýbyggð, 174 fermetrar og eru leigð út á 279 þús. kr. Guðný leigir 117 fermetra íbúð, sem Íbúðalánasjóður eignaðist þegar verktakinn fór á hausinn 2008, á 248 þús. kr. 1.603 kr. fermetrinn fyrir nýbyggt en 2.120 kr. fermetrinn fyrir 14 ára gamla íbúð, sem keypt var fyrir tvöföldun íbúðaverðs. Finnst ykkur það trúlegt?
Afleitum rekstri dembt á leigjendur
Leigufélög sem segjast ekki vera hagnaðardrifin nota flest sjálf sig sem mælistiku, ekki almenna viðmiðun eins og við beittum í dæminu hér að ofan. Ef félag skilar ekki rekstrarafgangi fyrir endurmat eigna segist það vera óhagnaðardrifið. Og skiptir þá engu hversu mikill kostnaðurinn er.
Hjá Bríet er rekstrarkostnaður fjárfestingarfasteigna, sem ætla má að sé viðhald, 1,62% af matsverði eignanna. Það er heldur hátt. Þetta hlutfall er 1,0% hjá Félagsbústöðum. Þarna munar um 39 m.kr.
Hjá Bríet er launa- og skrifstofukostnaður, annar kostnaður en viðhald, 29,0% af leigutekjum. Hjá Félagsbústöðum er þetta hlutfall 11,2%. Þarna munar 69 m.kr.
Hjá Bríet er fjármagnskostnaður 7,19% af heildarskuldum. Hjá Félagsbústöðum er þetta hlutfall 2,11%. Þarna munar 228 m.kr.
Ef við leggjum þetta saman eru þetta 336 m.kr. í kostnað Bríetar umfram það sem hann væri ef viðhald, rekstur og fjármagnskostnaður væru á svipuðum nótum og hjá Félagsbústöðum. Þetta er svo brjálæðislegur munur að það getur ekki annað verið en öll ljós logi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í nótt, að fólk sitji þar á neyðarfundum að skipuleggja neyðaraðgerðir til að laga þessa ósvinnu. Skipi jafnvel spretthóp.
Sveitarfélög hafa lagt leiguíbúði sínar inn í Bríet, sem stefnir að því að verða umsvifamikið leigufélag á landsbyggðinni. Hér er Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, að handsala tvær íbúðir til Drífu Valdimarsdóttur framkvæmdastjóra Leigufélagsins Bríetar.
Augljóslega allt of há leiga
Og það var einmitt það sem Guðný Benediktsdóttir reyndi að gera. Að láta einhverjar bjöllur hringja. Hún hefur leitað til Bríetar og bent á það með skýrum hætti að það standist ekki að hún sé rukkuð um 248 þús. kr. fyrir íbúðina sem hún leigir. Það sé eitthvað meira en lítið bogið við þetta reikningsdæmi.
Og ekki bara út frá henni sjálfri. Ef hún færi með tekjurnar sínar í gegnum greiðslumat fengi hún út að hún gæti staðið undir afborgunum af 140 þús. kr. á mánuði. Samt vill leigufélag ríkisins að hún borgi 108 þús. kr. meira í húsaleigu.
Til að fá greiðslumat sem vottar að viðkomandi geti borgað 248 þús. kr. á mánuði í afborganir þarf fólk að hafa 510 þús. kr. útborgaðar. Og þá 730 þús. kr. í tekjur fyrir skatt. Sem er tvisvar sinnum meira en Guðný er með.
En, þetta er bara önnur hliðin á því sem Guðnýju reyndi að benda Bríeti á. Hin hliðin var spurningin um hvernig stæði á því að 87 fermetra íbúð í Njarðvík með 30 fermetra bílskýli væri leigð á 248 þús. kr. Íbúðin væri augljóslega ekki þess virði.
Ef við sleppum bílskýlinu þá er Guðný að borga 2.850 kr. á fermetrann. Sem er klikkað verð. Ef við notumst við mat Bríetar sjálfrar frá Fáskrúðsfirði og segjum að leiga á bílskúr sé 59% af leigu íbúðar þá borgar Guðný tæplega 42 þús. kr. fyrir bílskýlið en rúmar 206 þús. kr. fyrir íbúðina. Sem er þá á 2.370 kr. á fermetrann. Og það er 13% yfir markaðsverðinu í Njarðvík.
Og markaðsverð er okurverð á óbeisluðum markaði en Bríet er í eigu ríkisins og segist vera óhagnaðardrifið leigufélag. Það er augljóst að leigan er of há. Eins og Guðný hefur margbent á.
The computer says no
Guðný hefur staðið í bréfaskriftum við starfsfólk Bríetar og bent þeim á hið augljósa, að húsaleigan sem hún á að borga er allt of há. Í fyrsta lagi á hún ekki fyrir henni og í öðru lagi er leigan vel fyrir ofan markaðsverð í Njarðvík og því langt umfram það sem óhagnaðardrifið leigufélag getur rukkað.
Henni hefur verið svarað af yfirlæti. „Eins og komið hefur fram í svari starfsmanns Leigufélagsins Bríetar ehf. til þín þá erum við að jafnaði ekki að breyta leigufjárhæðum hjá leigjendum okkar og því til grundvallar er meðal annars jafnræðissjónarmið, þar sem erfitt er að meta hverjir ættu að fá lækkun og hverjir ekki og erfitt að réttlæta það að lækka leigu þegar umsókn hefur verið samþykkt á grundvelli greiðslumats sem gefur til kynna að leigjandi getur staðið undir þeirri leigu sem auglýst er. Það er ekki síður ósanngjarnt gagnvart þeim sem hefðu þá mögulega sótt um eignina og/eða staðist greiðslumatið ef auglýst leiguverð hefði verið lægra …“
Önnur svör eru eftir þessu. Guðnýju, sem er að berjast fyrir því að lifa út mánuðinn er bent á jafnaðarsjónarmið og óskir hennar séu ósanngjarnar gagnvart öðrum leigjendum. Þessu er stillt upp á móti þeirri staðreynd að Bríet, ríkisrekið leigufélag með allt of mikinn kostnað, er nánast að murka lífið úr Guðnýju og öðrum leigjendum með allt of hárri leigu.
Sigurður Ingi Jóhannsson er innviðaráðherra og undir hann heyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og þar með leigufélagið Bríet, sem er að okra á Guðnýju.
Siðrof á húsnæðismarkaði
Þessi saga af Guðnýju og Bríeti afhjúpar siðrofið á leigumarkaði. Þar eru leigjendur réttlausir og varnarlausir. En ríkisvaldið ver okur leigusala. Og þegar ríkið leigir sjálft út íbúðir kýs það að láta eins og okrararnir, tekur mið af markaðsverði okrarana og smyr síðan ofan á. Gætir ekki að eigin kostnaði heldur hleður honum upp og varpar síðan yfir á leigjendur. Meðal annars margt af fátækasta fólkinu á Íslandi.
Bríet er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sú stofnun heyrir undir innviðaráðuneytið þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson er ráðherra og ber alla ábyrgð. Það er því Sigurður Ingi sem er Bríet, sú sem okrar á Guðnýju Benediktsdóttur, fátækum öryrkja í Njarðvík.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga