Hlutfall þeirra sem eiga eina íbúð á íslenskum húsnæðismarkaði lækkar um 0,2% á milli ára og er nú 62,5%. Fækkun einstaklinga sem eiga eina íbúð hefur lækkað stanslaust frá aldamótum og hefur lækkað úr því að vera tæplega 74%. Þetta eru afgerandi merki um að séreignastefnan sé á undanhaldi og leiguliðastefnan að taka við.
Að sama skapi heldur þeim áfram að fjölga þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem eiga fleiri en eina íbúð. Frá því árið 2005 hefur 67% af öllum íbúðum sem bæst hafa við íslenska húsnæðismarkað endað í eigu fyrirtækja eða þeirra sem eiga íbúðir fyrir.
Árið 2004 voru 112.197 íbúðir á skrá á íslandi en þær orðnar 151.066 í ár. Af þeim 38.869 íbúðum sem bættust við íslenskan húsnæðismarkað eignuðust einstaklingar með eina íbúð einungis 12.951 íbúð, hinar 25.918 íbúðirnar fóru til fyrirtækja og þeirra sem áttu íbúðir fyrir.
Þetta kemur fram á heimasíðu þjóðskrár sem heldur utan um skráningar á eignarhaldi á íslenskum húsnæðismarkaði.
„Mikil ávöxtun á íslenskum leigumarkaði og sterk eiginfjárstaða eignafólks hefur gert íbúðarhúsnæði að eftirsóttasta fjárfestingakosti í landinu fyrir þá sem eiga lausafé og eru gjaldgengir til fasteignalána hjá bönkunum. Þetta hefur ýtt upp fasteignaverði og fækkað þeim sem hafa möguleika á að keppa við fyrirtæki og fjármagnseigendur um þær fáu íbúðir sem eru byggðar eða koma á endursölumarkað,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna.
Þessi þróun á sér stað þrátt fyrir óvenju góð skilyrði undanfarin tvö ár á kaupendamarkaði og íhlutun stjórnvalda til handa ungu og efnalitlu fólki í gegnum hlutdeildarlán og verkefni Reykjavíkurborgar sem nefnt hefur verið hagkvæmt húsnæði.
Umrædd þróun eignarhaldi á húsnæðismarkaði tók miklum breytingum á árunum eftir efnahagshrunið 2008, og þó að hægst hafi á henni undnafarið þá fækkar en þeim einstaklingum sem eiga eina íbúð. Á árunum 2015 – 2020 hélst hlutfall þeirra í jafnvægi, þ.e á bilinu 62.7-62.9% en hefur tekið að lækka aftur.
„Þetta er mikil eðlisbreyting á eignarhaldi á húsnæðismarkaði sem ekki hefur hlotið mikla umræðu og er ein birtingamyndin af því hversu mikil ávöxtun og hagnaðarvon er í þeirri stöðu að geta ríkt yfir leigjendum á íslenskum leigumarkaði. Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld grípi ekki í taumana og takmarki möguleika leigusala til að safna að sér íbúðum í krafti fjárhagsstöðu sinnar eða aðgengi að lánsfé. Víða í Evrópu er uppkaup og uppsöfnun íbúða á hendum lögaðila og einstaklinga sett takmörk eða ströng skilyrði, bæði er varðar lánveitingar og hámarksfjölda. Í Hollandi máttu til dæmis ekki eiga aðra en þá íbúð sem þú býrð sjálfur í,“ segir Guðmundur Hrafn.
Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga