Sósíalistar í borgarstjórn munu leggja fram tillögu um að Reykjavíkurborg skori á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu. Þeir vísa til nýrrar könnunar Maskínu fyrir Samtök leigjenda sem sýndi að mikill meirihluti landsmanna er fylgjandi leigubremsu og leiguþaki.
Tillaga Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og sósíalistanna er um að borgarstjórn samþykki að skora á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu. Í tillögunni segir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vilji að tekið verði upp þak á húsaleiguverð og einnig að leigubremsa verði tekin upp hér á landi. „Leigjendur eru oft fastir á milli lágra tekna og okurleigu og því er lagt til að Borgarstjórn Reykjavíkur skori á ríkið að koma á leiguþaki og leigubremsu,“ segir í tillögunni,
Tilllögunni fylgir greinargerð með nánari rökstuðningi: „71% aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun Maskínu voru mjög eða frekar hlynnt því að leiguþak yrði sett á húsaleigu hér á landi. Leiguþak felur í sér að hámarksleiguverð er gefið út á húsnæði miðað við stærð, gæði og staðsetningu. 72% aðspurðra voru mjög eða frekar hlynnt því að leigubremsa yrði tekin upp. Með leigubremsu er um að ræða viðmið um hversu mikið húsaleiga megi hækka yfir ákveðið tímabil. Fulltrúar sósíalista ítreka mikilvægi þess að mæta þörfum leigjenda sem eru í erfiðri stöðu. Leiga hefur hækkað upp úr öllu valdi og leigjendur oft fastir á milli lágra tekna og okurleigu.“
Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu til leigubremsu að danski fyrirmynd í þinginu í fyrri viku til að verja leigjendur fyrir tilhæfulausum hækkunum á leigumarkaði. Rök Samfylkingarinnar voru þau að stjórnvöld hafi brugðist leigjendum með úrræðaleysi í uppbyggingu húsnæðis á félagslegum grunni, en í Danmörku er nú þegar um 20 prósent húsnæðis á félagslegum grunni meðan hlutfallið hér á landi er 5 prósent. Viðbótarkostur leigubremsunnar er að hún heldur aftur af hækkun vísitölu neysluverðs ólíkt þeim gjaldahækkunum á almenning sem ríkisstjórnin boðar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga