Vilja selja fólki hlutdeild í bjargarleysi leigjenda

Húsnæðismál 6. okt 2022

Fyrirtækið hluteign er að hefja starfsemi en markmið þess er að selja fólki hlut í leiguíbúðum svo þau sem eiga nægt fé til að kaupa heila fasteign geti fengið hlutdeild í gróðanum af því að leggja til eigið fé í íbúð, láta leigjandann borga allan kostnað og meira til.

Það urðu mikil umskipti á fasteignamarkaði við efnahagshrunið 2008. Þá missti fjöldi fjölskyldna heimili sín sem fjársterkir aðilar, m.a. kvótakóngar, keyptu á lágu verði og settu á leigumarkað. Þetta reyndist gjöful fjárfesting. Fasteignaverð hækkaði mikið umfram verðlag og leigan var hærri en fjármagns- og rekstrarkostnaður íbúðarinnar svo eigandinn fékk góðar rekstrartekjur ofan á mikla hækkun höfuðstóls.

Þegar leið frá Hruni fóru fleiri smærri aðilar að teygja sig inn á þennan markað. Sterkefnað fólk keypti eina íbúð eða tvær og þegar markaðsverðið hafði hækkað gat það tekið lán út á aukið eigið fé í íbúðunum og keypt fleiri. Fyrir nokkrum árum fóru ráðgjafar bankanna að mæla með því við fólk sem átti sparifé að kaupa íbúð og leigja, ef það átti ekki fyrir íbúð í Reykjavík þá gátu fáeinar milljónir króna dugað fyrir lítilli íbúð út á landi sem hægt var að græða á.

Þessi braskvæðing hefur stórskaðað húsnæðismarkaðinn. Í fyrsta lagi hefur braskið þrýst upp leiguverði og í öðru lagi hefur það þrýst upp kaupverði, bæði vegna aukinnar eftirspurnar og því að braskararnir geta borgað hærra verð en fjölskyldur sem ætla að búa í íbúðunum. Braskararnir geta yfirboðið fjölskyldur á markaðnum þar sem þeir velta verðinu yfir á leigjendur.

Með stofnun Hlutdeildar er verið að teygja þessa braskvæðingu niður til þeirra sem ekki hafa efni á kauða litla íbúð úti á landi. Fyrirtækið býður fólki að kaupa hlutdeild í leiguíbúð, allt niður í 10 þús. kr. Íbúðin er síðan leigð á okurverði og þau sem keypt hafa hlutdeildarskírteini í leigjandanum fá sinn hlut af leigunni sem er umfram rekstrarkostnað og síðan stóran bónus þegar íbúðin er seld og hluteigendur sækja hagnaðinn af hækkun fasteignaverðs árin á undan.

Ef þetta félag kemst á koppinn getum við séð fyrir okkur einstæða tveggja barna móður sem vinnur myrkranna á milli til að geta boðið börnum sínum heimili vera uppspretta ávöxtunar á sparifé fjölda manna, sem allir hafa keypt hlut í þessum leigjenda, veðjað á áframhaldandi húsnæðiskreppu og hátt íbúðaverð svo einstæða móðurinn geti ekki keypt sér húsnæði og sé föst á leigumarkaði, sem sé svo þéttsetinn að íbúðareigendur og íbúðahlutaeigendur geti þrýst upp leigunni og aukið enn við ávöxtun sína.

Í kynningu fyrirtækisins eru þessari fyrirætlanir kallaðar fjártækni.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí