Alternative für Deutschland, flokkur yst til hægri í þýskum stjórnmálum, stóð fyrir mótmælum í Berlín gegn orkukreppu og verðbólgu um helgina undir slagorðum gegn viðskiptaþvingunum gegn Rússum. Orkuöryggi og vörn gegn verðbólgu – hugsum fyrst um okkar eigið land, mátti lesa á borðum.
Og þeir voru ekki allir svona kurteislega orðaðir. Á öðrum borðum stóð: Stöðvum brjálsemi stjórnvalda. Og: Ríkisstjórnin er óvinur ríkisins nr. 1.
Í mótmælagöngunni var þýski fáninn áberandi en þar mátti líka sjá ýmiss tákn öfga-hægrisins og rússneska fánann. Andstaða Alternative für Deutschland gegn sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda hefur nú flust yfir á viðskiptaþvinganirnar sem bíta æ meira Þjóðverja sjálfa. Orkuverð hefur rokið upp og verðbólgan étur burt kaupmáttinn. Auk ásakana um svik stjórnvalda við almenning var þess krafist að Þjóðverjar opnuðu aftur kjarnorkuver sín.
Eins og vanalega efndu and-fasistar til mótmæla gegn mótmælum Alternative für Deutschland og urðu af því nokkrar stimpingar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga