Repúblikanaflokkurinn hefur enn ekki náð meirihluta í fulltrúadeildinni, vantar enn einn mann þegar búið er að telja í 426 af 435 kjördæmum. Talið er líklegt að Repúblikanar muni ná fjórum af þessum níu kjördæmum sem eftir eru og demókratar fimm. Niðurstaðan yrði þá sveifla frá 2020 upp á átta þingmenn, sem er með því allra minnsta sem gerist á miðju kjörtímabili forseta.
Sú stóra rauða bylgja sem reiknað var með brast því ekki á í þessum kosningum. Þótt Repúblikanar vinni meirihluta í fulltrúadeildinni er sveiflan miklum mun minni en búist var við.
Og það sem er enn markverðara er að Repúblikanar hafa ekki unnið neitt sæti í öldungadeildinni heldur tapað einu. Þeir geta reyndar unnið sæti endurkosningu í Georgíu 6. desember, en það dugar ekki fyrir meirihluta. Sigur í Georgíu mun tryggja Demókrötum öruggan meirihluta í öldungadeildinni, ekki bara meirihluta atkvæða við atkvæðagreiðslur vegna oddaatkvæðis varaforsetans heldur líka dagskrárvaldið, hvaða mál eru tekin fyrir og hvernig þau eru afgreidd.
Magnúsi Helgasyni sagnfræðing fannst það hvernig rauða bylgjan reis aldrei annað tveggja af því sem er markverðast við kosningarnar. Í raun sé útkoman stórsigur fyrir Joe Biden sem er að fá betri útkomu sem forseti í kosningum á miðju kjörtímabili en aðrir forsetar ef undan eru skyldir Georg W. Bush 2002, Bill Clinton 1998, John F. Kennedy 1962 og svo Franklin Delano Roosevelt í seinna stríði. Í sögulegu ljósi mætti segja að niðurstaða kosninganna benti til að það verði mjög erfitt fyrir Repúblikana að koma í veg fyrir endurkjör Biden 2024.
Það síðara sem er markvert við kosningarnar að mati Magnúsar er hveru vel þær fóru fram. Engar fréttir hafa borist af róstrum, mótmælum eða óeirðum. Fyrir kosningar var búist við að þegar liði á talningu og atkvæði sem voru greidd utan kjörfundar færu að vega þyngra, og sem vanalega eru frekar frá kjósendum Demókrata, gætu brotist út óeirðir og átök við talningarstaði. Jafnvel var búist til átökum á kjördaginn sjálfan enda benda kannanir til að 1/3 kjósenda telji kosningasvindli hafi verið beitt í kosningunum 2020.
Ekkert slíkt gerðist hins vegar. Í raun eru þetta friðsömustu kosningar í manna minnum. Magnús telur að þar geti tvennt spilað inn í. Annars vegar hafi repúblikanar, og ekki síst harðkjarninn sem fylgir Donald Trump, reiknað með stórsigri og ekki talið sig þurfa að mótmæla. Hins vegar virðist hófsamari Repúblikanar hafi snúist frá Trump og kenningum hans um viðamikið kosningasvindl þegar úrslitin voru að skýrast, talið skaðlegt fyrir flokkinn að ýta undir slíkt.
Það mun svo koma í ljós í eftirmálum kosninganna hvort þessi sveifla frá Trump sé nógu sterkt til að útiloka að hann verði valinn sem frambjóðandi flokksins 2024. En það er ljóst að kosningarnar nú urðu ekki sá byr sem hann reiknaði með þegar hann setti niður fund viku eftir þær kosningarnar til að tilkynna um framboð sitt.
Viðtalið við Magnús má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.
Myndin er af Repúblikananum Kevin McCarthy sem taka mun við sem leiðtogi meirihlutans í fulltrúadeildinni Nancy Pelosi Demókrata.