Áætla má undirverð í útboðum Íslandsbanka á 31,7 milljarð króna

Þrátt fyrir að gengi Íslandsbanka hafa lækkað um 3,1% í dag er það enn 90,4 milljörðum króna hærra en það var í fyrra útboði Bankasýslunnar sumarið 2021. Þau sem keyptu þá 35% hlut í bankanum á 55,3 milljarða króna eiga í dag 86,9 milljarða króna. Hluturinn hefur vaxið að meðaltali um 168,2 m.kr. á hverjum degi sem liðinn er frá útboðinu.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, lagði áherslu á fyrra útboðið mætti ekki gleymast í umræðunni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um seinna útboðið. Undirverðið á bankanum í fyrra útboðinu hafa verið mun svakalegra en í því síðara. Sem sést á því að hlutirnir sem voru seldir í fyrra skiptið eru í dag 36 milljörðum krónum verðmeiri en þeir voru í útboðinu. Hluturinn í seinna útboðinu er í dag 3 milljörðum króna verðmeiri en þegar það útboð fór fram.

Ef við notum Arionbanka sem viðmiðun þá hefur verðmæti hlutabréfa í þeim banka hækkað um 11,1% frá 15. júní 2021 þegar fyrra útboð Íslandsbanka fór fram. Íslandsbanki hefur hins vegar hækkað um 57,2% á sama tíma. Ef við gerum ráð fyrir að gengi Arionbanka sýni eðlilega markaðssveiflu hefur 35% hluturinn sem var seldur í fyrra útboðinu hækkað um 25,5 milljarða króna umfram markaðssveiflu. Sú upphæð er einmitt nálægt því sem bent var á við fyrra útboðið að væri afsláttur til kaupenda. Samanburðurinn við Arionbanka staðfestir að hluturinn var seldur með gríðarlegum afslætti.

25,5 milljarðar króna 1/3 af nýjum Landspítala. Með þeirri upphæð mætti leggja til 30% eiginfjárframlag til byggingar 3000 tveggja herbergja íbúða.

Frá seinna útboðinu 22. mars 2022 hefur gengi Arionbanka lækkað um 4,6%. Á sama tíma hefur gengi Íslandsbanka hækkað um 6,2%. Ef við notum Arion aftur sem viðmiðun hefur verð á 22,5% hlutnum sem var seldur fyrr á árinu hækkað um 5,7 milljarða króna umfram markaðssveiflu.

Á þennan mælikvarða má ætla afsláttinn sem Bankasýslan og fjármálaráðuneytið gáfu kaupendum sé um 31,2 milljarðar króna. Það er verðmæti sem flutt var frá almenningi til kaupenda bréfanna.

Þorsteinn ræddi skýrslu Ríkisendurskoðunar við Atla Þór Fanndal, framkvæmdastjóra Transparency International Iceland, við Rauða borðið. Þeir voru meðal ræðumanna á röð mótmæla á Austurvelli síðastliðið vor. Aðspurðir sögðu þeir að skýrslan staðfesti það sem fólk vissi þá og fékk það til mótmæla. Skýrslan fjalli aðeins um hluta málsins, til dæmis ekkert um kaupendurna, en í þeim atriðum sem hún skoðar staðfesti hún það sem almenningur taldi sig vita í vor. Og í engu stangaðist skýrslan á við það sem fólk hélt fram í vor. Þá héldu stjórnvöld því fram að fólk væri að misskilja málið, fattaði ekki snilldina.

En báðir vildu þeir leggja áherslu á að hneykslið kringum Íslandsbankasöluna væri miklu stærri en þessi skýrsla. Það næði allt frá ákvörðuninni um að selja, sem meginþorri almennings vildi ekki, í gegnum gríðarlegan afslátt til kaupenda í fyrra útboðinu, að því hvernig ráðherrarnir beindu málinu til Ríkisendurskoðunar í von um að geta þreytt almenning, vitandi að Ríkisendurskoðun hafði engar heimildir til að rannsaka þetta mál eins og nauðsynlegt er. Málið snúist um að gríðarleg verðmæti í eigu almennings voru afhent auðfólki. Það ber að rannsaka af rannsóknarnefnd Alþingis.

Samtalið þeirra Atla og Þórarins má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. Þar er fjallað um ýmsar hliðar þessa stóra máls. Myndin er af þeim tveimur við Rauða borðið á milli þeirra er slagorð við merki Íslandsbanka sem var sett á boli í tengslum við mótmælin á Austurvelli í vor.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí