Það hafa aldrei verið fleiri starfandi innflytjendur á Íslandi eins og í september síðastliðnum. Þá fjölgaði innflytjendum enn á sama tíma og innfæddum fækkaði, eins og vanalegt er á haustin þegar skólar byrja. Starfandi innflytjendur voru í september 46.700, sem gera rúmlega 22% allra á vinnumarkaði.
Eins og vanalegt er á haustin fækkaði starfandi milli ágúst og september. Það er vanaleg árstíðasveifla, það dregur í umfangi ferðaþjónustu og ýmsum framkvæmdum og skólafólk hverfur aftur til náms. Frá september í fyrra hefur starfandi hins vegar fjölgað um rúmlega 10.900. Fjölgunin er mest meðal innflytjendanna. Þeir koma með rúmlega 7.500 manns inn á vinnumarkaðinn en innfæddir með tæplega 3.400.
Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði hefur vaxið hratt á eftir cóvid, eins og sjá má á þessu grafi:
Þarna sést að árið 2005 var hlutfall innflytjenda 6,1%. Hlutfallið óx hratt í bankabólunni með auknum umsvifum. Hluti kom til starfa í byggingaiðnaði, en mest áhrif voru í einhverju sem mætti kalla hliðrun starfa; innfæddir færðu sig úr láglaunastörfum í störf sem voru betur borguð og innflytjendur leystu þá af hólmi. Á hábólunni fyrir hrun var hlutfall innflytjenda orðið 13,6%.
Eftir Hrun hurfu margir innflytjendur af landinu, eins og reyndar innfæddir líka, en hlutfallslega fleiri. Hlutfall innflytjenda féll niður í 8,6% um sumarið 2010.
Stuttu síðar skall ferðamannasprengingin á og hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði óx aftur hratt, náði hápunkti haustið 2019 þegar hlutfall þeirra var 20,2%.
Þá kom cóvid sem slökkti á ferðaþjónustunni þar sem hlutfall innflytjenda var hæðst. Þá seig hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði á 16,5% í ársbyrjun 2021.
Þegar ferðatakmörkunum og öðrum sóttvarnaraðgerðum linnti tók hagkerfið við sér og hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði óx aftur hratt, náði hápunkti í september síðastliðnum þegar það var 22,1%. Og margt bendir til að það haldi áfram að aukast.
Þetta eru án vafa mestu samfélagsbreyting síðari ára. Það er ekki hægt að hugsa sér hver staðan á Íslandi væri ef hingað hefði ekki flust allt þetta fólk. Ef hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði væri það sama nú og var 2055 væru hér 33.750 færri manns á vinnumarkaði. Það væri svipað og slökkt væri á ferðaþjónustunni og byggingariðnaðinum. Fjöldinn er viðlíka og helmingur allra starfandi utan höfuðborgarsvæðisins.