Enn möguleiki á meirihuta Repúblikana í báðum deildum

Talning atkvæða gengur hægt í Bandaríkjunum og enn er ekki hægt að fullyrða að Repúblikanar hafi náð meirihluta í fulltrúadeildinni þótt það sé næsta víst. Og að öllum líkindum mun meirihlutinn í öldungadeildinni ráðast í aukakosningum i Georgíu 6. desember. Það eru því enn möguleg niðurstaða að Repúblikanar nái meirihluta í báðum deildum þingsins.

Umræðan um kosningarnar einkennast af baráttu um túlkun. Og sú barátta er hörðust nú, skömmu eftir kosningarnar þegar þær hanga enn inni sem aðalfrétt í yfirspenntum fréttasirkusnum vestanhafs. Þau sem vilja sigra þessa baráttu þurfa að koma sinni túlkun að áður en úrslitin liggja fyrir.

Hjá Demókrötum er túlkunin sú að flokkurinn hafi unnið varnarsigur, tekist hafi að hrinda mikilli sókn Repúblikana sem virtist í kortunum. Til að undirbyggja þessa kenningu er sótt til þeirra kannana sem sýndu mögulegan mesta sigur Repúblikana. Niðurstaðan verður eftir sem áður líklega sú að demókratar missi meirihlutann í fulltrúadeildinni, eins og vanalegt er í kosningum á miðju kjörtímabili forsetans. Þegar það er gefin staðreynd liggur greiningin á sigri eða ósigri í því hvort tapið var stórt eða meðalstórt í sögulegu samhengi eða út frá könnunum fyrir kosningar.

Túlkunin er mikilvæg vegna þess að verið er að nýta kosningarnar sem upptakt í forsetakosningum 2024. Það er verra að leggja af stað í þær kosningar með túlkun um stórt tap í farteskinu.

Og vegna þess að þessar kosningar eru upphaf baráttunnar fyrir forsetakosningar skiptir máli hvernig þáttur Donald Trump í þessum kosningum kemur út. Metið er hvernig frambjóðendum sem stóðu honum næst gekk og hvort aukin þátttaka hans í umræðunni dagana fyrir kosningar dró úr bylgjunni með Repúblikönum.

Það er hægt að halda því fram að frambjóðendur sem lýstu yfir áköfustum stuðningi við Trump hafa gengið verr en Repúblikönum almennt. Þetta benda bæði Demókratar á og þeir Repúblikanar sem vilja komast út úr Trump-tímabili flokksins og inn í eitthvað sem er meira normalt. Báðir hópar reyna að túlka kosningarnar sem tap Trump.

Góður sigur Ron DeSantis fylkisstjóra í Florida þykir svo stór að túlka megi hann sem kröfu um að hann bjóði sig fram í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar 2024. Þetta segja þau sem vilja losna við Trump. DeSantis fékk 59% atkvæða. Marco Rubio fékk 58% í kjöri öldungadeildarþingmanns fylkisins. Munurinn er ekki mikill, bendir til að Florida sé orðið rautt ríki, öruggt vígi Repúblikana.

DeSantis hefur verið dyggur stuðningsmaður Trump, svo það myndi kannski ekki breyta miklu þótt hann yrði kjörinn forseti í stað Trump. Og þótt augljóst sé að kosningarnar hafi ekki styrkt Trump þá er ekki þar með sagt að niðurstaða þeirra verði að hann hafi misst tök sín á Repúblikanaflokknum. Þvert á móti er engin merki þess að til sé nógu öflug andstaða innan flokksins gegn honum.Og enn síður gegn stefnu hans.

Trump breytti Repúblikanaflokknum á svipaðan hátt og Boris Johnson breytti Íhaldsflokknum breska. Þeir sóttu báðir lærdóm til nýja-hægrisins í Evrópu, að halda óbreyttri nýfrjálshyggju en fela hana undir klæði menningarstríðs til að sækja stuðning fólks og svæða sem höfðu setið eftir á tímum alþjóðavædds kapítalisma, afkvæmis nýfrjálshyggjunnar. Það er því lykill þessara flokka að völdum að keyra á þjóðernishyggju, útlendingaandúð, andúð gegn kvenréttindum og öðrum sigrum mannréttindabaráttu seinni hluta síðustu aldar. Og þann lykil munu þessir flokkar nota til að geta keyrt áfram nýfrjálshyggjuna, með það að markmiði að brjóta niður almannavaldið en auka völd auðvaldsins.

Og þótt sigur Repúblikana hafi ekki orðið eins stór og búist var við, er það æði frek oftúlkun að niðurstöður þessara kosningar valdi einhverjum straumhvörfum. Þær sýna þvert á móti áframhaldandi og vaxandi sundungu í Bandaríkjunum.

Ein útgönguspáin sýndi að 33% kjósenda taldi að Joe Biden væri forseti vegna kosningasvindls, ekki réttkjörinn forseti. Það er að fjara undan lýðræðinu í Bandaríkjunum. Það er stórsaga okkar tíma.

En skoðum stöðuna í talningunni:

Líklega kemur í ljós eftir 6. desember hver fær meirihluta í öldungadeildinni

Kosið var um 35 af 100 öldungadeildarþingmönnum. Búið er að telja og úrskurða um 31 þingmann. Staðan í öldungadeildinni er 48 þingmenn hvor flokkur. Þá eru tveir óháðir taldir með Demókrötum sem tengjast þeim sterkum böndum: Bernie Sanders frá Vermont og Angus King frá Maine.

Til að vinna meirihluta þurfa Repúblikanar þrjá af þeim fjórum þingmönnum sem eftir eru en Demókrötum duga tveir, þar sem Kamila Harris varaforseti hefur atkvæðarétt í öldungadeildinni.

Það er ljóst að Repúblikanar fá Alaska þótt þar sé ekki búið að telja. Þar eru tveir Repúblikanar að keppa um sæti. Það er líka ljóst að það verður aftur kosið í Georgíu, þar sem hvorugur frambjóðendanna fékk 50% plús eitt atkvæði. Kosið verður 6. desember, svo vel má vera að ekki verði ljóst fyrr en þá hvor flokkurinn hefur meirihluta í öldungadeildinni. Það gerðist síðast 2020.

Þá eru eftir Nevada og Arizona. Repúblikanar leiða í Nevada þar sem búið er að telja 84% atkvæða en Demókratar í Arizona þar sem búið er að telja 76% atkvæða. Það er freistandi að deila þessum sætum á milli flokkana á þeim forsendum, en það er ekki skynsamlegt því þau atkvæði sem hafa verið talin koma ekki jafnt úr öllum kjördæmum fylkjanna né voru þau greidd á sama tíma. Og hvort tveggja skiptir máli. Almenna reglan er sú að Demókratar hafi meira fylgi í stærri borgum, meðal yngri og hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar eða með pósti. Repúblikanar hafa meiri fylgi í dreifðari byggð og smærri borgum og bæjum, meðal eldri kjósenda og þeirra sem kjósa á kjördag. Atkvæðin sem á eftir að telja geta því verið með allt aðra skiptingu milli flokka en þau sem hafa verið talin.

Staðan er þá sú að þótt líklegast sé að Repúblikanar verði með 50 þingmenn og Demókratar 49 áður en haldið er til aukakosninga í Georgíu í byrjun desember. Það er líklegast, en ekki víst.

Þegar búið er að telja 99% atkvæða í Georgíu vantar Raphael Warnock Demókrata 32.600 atkvæði til að komast yfir 50 prósent atkvæða. Hann þarf að fá 82% þeirra atkvæða sem eftir eru. Það er því næsta víst að kosið verður á milli Warnock og frambjóðanda Repúblikana Herschel Walker, sem nú er með 17.500 færri atkvæði en Warnock.

Raphael Warnock var kjörinn öldunardeildarþingmaður í seinni umferð kosninga í Georgíu 2020. Ástæða þess að kosið er svona fljótt aftur er að kosningarnar 2020 voru aukakosningar, þingmaðurinn Johnny Isakson sagði af sér af heilsufarsástæðum snemma árs 2020. Brian Kemp fylkisstjóri skipaði þá konu úr viðskiptalífinu, Kelly Loeffler, sem þingmann fram að aukakosningum um haustið. Allt eru þetta Repúblikanar; Isakson, Kemp og Loeffler.

Loeffler, sem er hvít kona, var í framboði í aukakosningum fyrir Repúblikana en Demókratar stilltu fram Raphael Warnock, svörtum manni. Auk þeirra bauð sig fram fulltrúadeildarþingmaður Repúblikana, Doug Collins sem taldi sig eiga þetta þingsæti inni. Og miklu fleira fólk, kjörseðilinn var óvenju langur. Svo atkvæðin dreifðust víða. Warnock varð efstur eftir fyrri umferð með aðeins 32,9% en Loeffler kom á eftir með 25,9%. Þau fóru svo í seinni umferð í byrjun janúar þar sem Warnock fékk 51% atkvæða, 93 þúsund fleiri en Loeffler.

Eins og nú stefnir í, voru aukakosningarnar í janúar 2021 kosningar um yfirráð yfir öldungadeildinni. Kosið var 5. janúar, daginn áður en múgurinn réðst að þinghúsinu. Allt var undir.

Hver niðurstaðan verður eftir tæpan mánuð er ómögulegt að spá um. Fulltrúar flokkanna geta verið sigurvissir en það er sáralítill munur á milli frambjóðenda.

En af hverju náði annar frambjóðandinn ekki 50% í fyrri umferðinni n?. 2020 bauð sig fram heill her manna og meðal annars sterkur þriðji frambjóðandi ættaður úr Repúblikanaflokknum. Nú var það aðeins Chase Oliver, frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins sem tók 2% atkvæða og tryggði að hvorugur frambjóðandi stóru flokkanna náði kjöri í fyrri atrennu. Oliver vill loka bandarískum herstöðvum erlendis, segir varnarmál í Bandaríkjunum rekin eins velferðarkerfi stórfyrirtækja. Hann vill opin landamæri en draga úr fjárveitingum til lögreglunnar, auk kunnra baráttumála frjálshyggjumanna um lægri skatta, aðhald í ríkisrekstri og eins lítið ríkisvald og komist verður af með og sem minnst afskipti valdsins af fólki.

Fyrir kosningar var sagt að meiri líkur en minni væru á að Repúblikanar næðu meirihluta í öldungadeildinni. Þetta var ekki sterk spásögn, FiveThirtyEight talnaspekingsins Nate Silver, sagði líkurnar 59%. Sem merkir í raun að þetta geti fallið á hvorn veginn. 59% líkur segja aðeins að ef kosið væri tíu sinnum myndu Repúblikanar vinna í sex kosningum en Demókratar í fjórum.

Það sem dró úr væntingum Repúblikana að ná meirihluta án þess að þurfa að sigra aukakosningar í Georgíu var sigur John Fetterman á Mehmet Oz í Pennsylvaniu. Í sjálfu sér voru þetta ekki óvænt úrslit, þótt Repúblikanar hafi verið með þetta sæti fyrir kosningarnar. Kannanir sýndu Oz með örlítið forskot, langt innan allra skekkjumarka. Pennsylvania var flokkað ásamt Georgíu og Nevada sem fylki sem gat fallið á hvorn veginn sem er. En fyrir kosningar var reiknað með rauðri bylgju, að kjósendur myndi fremur sveiflast til Repúblikana en Demókrata. Það gerðist ekki í Pennsylvaniu og á tiltölulega fáum stöðum.

En ef Fetterman hefði ekki sigrað Oz með 51% gegn 47% væru Repúblikanar næsta öruggir með meirihluta í öldungadeildinni. John Fetterman er til vinstri í Demókrataflokknum, sem auðvitað er hægri flokkur. En Fetterman talar fyrir mikilvægi verkalýðsfélaga og hækkun lágmarkslauna, klæðir sig eins og verkamaður í bílaverksmiðju og á aðeins ein jakkaföt sem hann notar þegar embættisskyldur hans sem fylkisstjóra kröfðust þess.

Ólíklegt að Demókratar haldi meirihluta í Fulltrúadeildinni

Í Fulltrúadeildinni er kosið um 435 þingmenn. Til að fá meirihluti þurfa flokkarnir að fá 218 þingmenn. 2020 fengu Demókratar nauman meirihluta, 222 þingmenn á móti 213 þingmönnum Repúblikana.

Fyrir fram mátti ganga út frá að Demókratar væru vissir um sigur í 166 kjördæmum en Repúblikanar í 198. Þetta eru kjördæmi sem svo til alltaf hafa fallið til þessara flokka.

Næst koma kjördæmi sem hallast nokkuð að öðrum hvorum flokknum. Fyrir kosningar var metið að þetta ætti við um 21 kjördæmi hjá Repúblikönum en 37 hjá demókrötum. Ef þetta félli allt eins og reiknað var með væru demókratar með 203 og Repúblikanar með 219, einum fleiri en þarf í meirihlutann.

Og þá eru eftir 13 kjördæmi þar sem svo mjótt var á mununum að ómögulegt var að spá nokkru.

Þótt ekki sé búið að telja í öllum kjördæmum sem talin voru örugg fyrir annan hvorn flokkinn virðist flest vera að falla eins og spáð var. Nema í sex kjördæmum sem talin voru örugg fyrir Demókrata og fimm kjördæmum sem talin voru örugg fyrir Repúblikana. Þar er talningu ekki lokið og þau flytjast því í þau kjördæmi þar sem munurinn er of lítill til að spá nokkru.

Þá er staðan sú að Demókratar hafa 160 þingmenn og Repúblikanar 193.

Næst eru það kjördæmin sem talin eru hallast að öðrum hvorum flokknum. Þar hafa Demókratar náð fimm kjördæmum sem talin voru hallast að Repúblikunum en á móti hafa Repúblikanir náð þremur af Demókrötum. Úr þessum kjördæmum hafa Demókratar fengið 29 þingsæti en Repúblikanar 14 þingsæti.

Þá eru Demókratar komnir með 189 þingmann og Repúblikanar 207.

Þá er komið að kjördæmunum 13 sem fyrir fram var ómögulegt að spá fyrir um. Af þeim hafa Demókratar fengið 6 þingmenn en Repúblikanar 4.

Þá er staðan sú að Demókratar eru með 195 þingmenn og Repúblikanar 211 þingmenn.

Það sem eftir er í pottinum eru 16 kjördæmi sem fyrir fram voru talin líklegast að færu til Demókrata og 10 sem líklegast var talið að færu til Repúblikana. Og síðan 3 sem ómögulegt þótti að spá fyrir um.

Úr þessum pakka þurfa Demókratar að fá 23 þingmenn til að ná meirihluta en Repúblikanar aðeins 7. Það má orða þannig að til að halda meirihlutanum í Fulltrúadeildinni þarf flest að falla með Demókrötum. Það er ekki ómögulegt, en ólíklegt.

Hingað til hafa Demókratar náð átta sætum af Repúblikönum en Repúblikanar nítján sætum af Demókrötum. Það sem af er er sveiflan 11 sæti. Frá stríðslokumeðaltal er sveiflu frá flokki forsetans á miðju kjörtímabili hans 27 sæti.

Af sætunum sem eftir er að úrskurða um féllu 19 til Demókrata 2020 og 15 til Repúblikana. Ef við reiknum með að flokkarnir taki jafn mikið hvor af öðrum í þessum kjördæmum, að Repúblikanar vinni ekki meira á en þegar er orðið, myndu þeir enda með 225 þingmann og Demókratar með 210.

Það er má því reikna með að Repúblikanar nái meirihluta í Fulltrúadeildinni. Það er ekki öruggt. En það er næsta víst, eins og maðurinn sagði.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí