Feminískar fréttir

Í feminískum fréttum vikunnar var fjallað um ummæli forsætisráðherra Póllands um drykkjuskap kvenna, um uppreisn kvenna í Íran, um kvenleiðtoga og afstöðu almennings til þeirra, afstöðu táningsstúlkna til ofbeldis í samskiptum kynjanna og um baráttuna um þungunarrof í Bandaríkjunum.

Í feminískum fréttir var þetta helst.

Reiði vegna fullyrðinga Kaczynskis um pólskar konur

Mikil reiði skapaðist í Pólsku samfélagi þegar Jaroslaw Kaczynski leiðtogi stjórnarflokksins Laga og Réttar hélt því fram fullum fetum að lág fæðingartíðni í landinu væri vegna óhóflegs drykkjuskapar ungra kvenna. „Það verða bara engin börn til lengur ef fram horfir líkt og verið hefur að konur upp að 25 ára aldri séu jafnokar karla að drykkju,“ sagði Jaroslaw Kaczynski sem er varaforsætisráðherra ríkisstjórnarinnar. Þá sagðist hann ekki vera fylgjandi því að konur eignuðust börn of snemma, þær yrðu fyrst að þroskast upp í móðurhlutverkið og þar boðaði langvinnur drykkjuskapur ekki gott. Hann staðhæfði svo að mikil drykkja kvenna leiddi af sér alkóhólisma á tveimur árum í stað tuttugu ára hjá körlum. Kaczynski þóttist hafa upplýsingar sínar frá ónafngreindum lækni sem hann sagði að hefði tekist að lækna áfengissýki hjá þriðjungi karlkynssjúklinga sinna en engri konu.

Ummælin vöktu harða gagnrýni stjórnarandstöðuþingmanna, kvenna og annarra samfélagshópa. Þau voru sögð endurspegla feðraveldið en vera tómur þvættingur sem væri ekki í neinum takti við raunveruleikann. Raunhæfara væri að saka harða þungunarrofsstefnu ríkisstjórnarinnar og efnahagsþrengingar um fækkun barnsfæðinga. Joanna Scheuring-Wielgus stjórnarandstöðuþingkona sagði stefnu stjórnarinnar í andstöðu við konur sem og fjölskyldurnar í landinu. Opinberar tölu sýna að Pólskar konur eignist að meðaltali 1,3 börn sem er undir meðaltali Evrópusambandsins sem er um 1,5 og telst það vera á mörkum þess að vera sjálfbær endurnýjun kynslóða.

Að heyja stríð gegn Guði

Íranir hafa nú verið í óðaönn við að saksækja mótmælendur og enn berast undarlegar fréttir af horfnu fólki. Elham Afkari var handtekin þegar hún reyndi að flýja land á dögunum en hún er sökuð um að hafa reynt að koma upplýsingum til sjónvarpsstöðvarinnar „Iran International” í London. Stjórnvöld í Íran hafa sakað fréttastöðina um að ýta undir ólgu í mótmælunum og saka Afkari um að vera umboðsmann stöðvarinnar. Bróðir Elham, Saeed Afkari staðfesti handtöku systur sinnar á Twitter á fimmtudaginn og bætti við að ekki væri heldur vitað hvar þriggja ára dóttir Elhams væri né eiginmaður hennar.

Esmail Khatib, leyniþjónusturáðherra Írans, kallaði Iran International á þriðjudag „hryðjuverkasamtök“ en hann sakar Afkari um að rægja Íslamska lýðveldið, bjóða ungmennum til uppþota og skapa skelfingu meðal fólksins.

Iran International hefur ítrekað svarið Afkari af sér og biðla til annarra miðla að hætta að dreifa lygum um tengsl hennar við stöðina.

Þá hafa fleiri íþróttamenn vakið athygli fyrir að styðja við mótmælin með einum eða öðrum hætti en liðsmenn sem kepptu í fótbolta á Asíuleikunum á Indlandi nýverið tóku ekki undir þegar þjóðsöngur Írans var spilaður og þeir hafa ítrekað neitað að fagna við markaskor.

Skautahlauparinn Niloufar Mardani er þá sú síðasta sem vitað er til að hafi keppt erlendis án þess að setja upp slæðuna. En Mardani sem hefur keppt fyrir landslið Írans í skautaíþróttum til margra ára steig á verðlaunapall í Tyrklandi á sunnudaginn án þess að nota höfuðklút en hún var einnig klædd svartri blússu sem á stóð Íran. Íþróttamálaráðherra landsins gaf út yfirlýsingu þar sem hann gagnrýndi Mardani og sagði hana ekki hafa virt Islömsk gildi hvað varðaði klæðaburð í keppninni. Þá kom fram í yfirlýsingunni að hún sé ekki lengur meðlimur Íranska keppnisliðsins og hún hafi tekið þátt í þessari tilteknu keppni á eigin forsendum.

Meira en þúsund ákærur hafa verið gefnar út þar sem fólki er gefið að sök að leiða óeirðirnar eins og yfirvöld kalla mótmælin.

Fyrr í vikunni skrifuðu 227 af 290 meðlimum þingsins undir yfirlýsingu þar sem kallað var eftir upplýsingum um fólk sem stundaði svokallað moharebe (sem þýðir bókstaflega „heyja stríð gegn Guði“). Nokkrir mótmælendur voru ákærðir fyrir moharebe í fyrstu opinberu dómsmálunum sem haldin voru fyrr í þessum mánuði, og gætu svokallaðir glæpir þeirra hugsanlega varðað dauðarefsingu.

Talsmaður dómskerfisins, Masoud Setayeshi, ræddi við fréttamenn á þriðjudag þar sem hann hét því að sýna fordæmi með hörðum dómum og fæla þannig fólk frá því að mótmæla. Unglingar og ungmenni hafa verið handtekin á meðan á mótmælunum hefur staðið, en nákvæmur fjöldi handtekinna – ásamt þeim sem hafa verið myrtir – er óljós. Setayeshi sagði þó nokkra framhaldsskóla- og háskólanema auk kennara hafa verið handtekna.

Setayeshi sagði einnig að „endanleg ákvörðun í málum Niloofar Hamedi og Elaheh Mohammadi, tveggja blaðakvenna sem störfuðu hjá dagblöðum í Íran og voru handteknar eftir að hafa fjallað um dauða Amini og útför hennar vera í nánd. Þær voru ákærðar fyrir að stofna þjóðaröryggi í hættu og beita áróðri gegn ríkinu en leyniþjónusta Írans hefur m.a. haldið því fram að þær væru þjálfaðir af CIA.

Kvenleiðtogar í Hörpu

Heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum – Women Leaders, var haldið í fimmta sinn á Íslandi, 8.–9. nóvember í Hörpu. Heimsþingið er haldið í samstarfi alþjóðlegu þingkvennasamtakanna Women Political Leaders, ríkisstjórnar Íslands og Alþingis, auk fjölda annarra samstarfsaðila.

Yfirskrift þingsins í ár er Power, Together for Partnership sem vísar til samstarfs og samstöðu um jafnréttismál. Kvenleiðtogar víðs vegar úr heiminum, úr stjórnmálum, viðskiptum, fjölmiðlum, vísindum og tæknigeiranum mættu á þingið í þeim tilgangi að ræða og skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig kvenleiðtogar geti beitt sér fyrir bættu samfélagi, auknu kynja jafnrétti og valdeflingu kvenna. Þá var kastljósinu beint að áhrifum heimsfaraldursins á jafnrétti kynjanna, stöðu kvenna á vinnumarkaði, stafrænum heimi og loftslagsbreytingar og síðast en ekki síst stríðinu í Úkraínu og öryggi kvenna.

Á meðal þátttakenda á þinginu voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands, Bidhya Devi Bhandari, forseti Nepal, Eliza Reid forsetafrú Íslands, Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, Sima Sami Bahous framkvæmdastjóri UN Women, Dalia Grybauskaite fyrrverandi forseti Litháen, Margarita Robles Fernandez, varnarmálaráðherra Spánar, Marie-Louise Coleiro Preca, fyrrverandi forseti Möltu, Ann Cairns, stjórnarformaður Mastercard, og yfir 100 þingkonur alls staðan að úr heiminum auk fjölmargra kvenleiðtoga af yngri kynslóðinni.

Afturför í viðhorfi til kvenna í stjórnendastöðum

Vísitala um viðhorf til kvenna í stjórnunarstöðum var fyrst mæld í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga árið 2018 og var nú kynnt fimmta árið í röð. Vísitalan er unnin í samstarfi við alþjóða rannsóknarfyrirtækið Kantar en hún metur viðhorf einstaklinga til leiðtogahlutverka karla og kvenna í mismunandi starfsgreinum. Talan er á kvarðanum 0 upp í 100, þar sem 100 táknar að allt samfélagið telji konur og karla jafn hæf til að sinna leiðtogahlutverkum sínum á mismunandi sviðum samfélagsins.

Samkvæmt þessum nýjustu niðurstöðum hefur orðið afturför í viðhorfi almennings til kvenna í leiðtoga- og stjórnendastöðum.

Ísland er þó efst á kvarðanum, með 91 stig. Spánn kemur þar næst með 80 stig og svo Bretland með 71 stig. G7-ríkin fá 72 stig á kvarðanum sem endurspeglar engar framfarir á viðhorfi almennings til kvenleiðtoga frá árinu áður.

„Niðurstöðurnar endurspegla stöðnun eða bakslag á viðhorfi til kvenna til forystu, sérstaklega í G7-ríkjunum og mælast á ýmsan hátt lægri en þegar vísitalan var birt fyrst árið 2018,“ sagði Michelle Harrison, forstjóri Kantar, þegar hún kynnti niðurstöðurnar.

Þær Hanna Birna Kristjánsdóttir og Silvana Koch-Mehrin stofnendur heimsþingsins, sendu út alþjóðlegt ákall til aðgerða í jafnréttismálum. „Alþjóðlega samfélagið þarf að bregðast við þessari stöðnun eða bakslagi í jafnréttismálum með markvissri fjölgun kvenna í leiðtoga og stjórnendastöðum.“

Sjúkt spjall hjá Stígamótum

Var þetta ofbeldi? Er ég í ofbeldissambandi? Var mér nauðgað?

Þetta voru algengar spurningar sem borist hafa Stígamótum frá ungmennum sem hafa sett sig í samband við samtökin í gegnum netspjallið þeirra Sjúkt spjall.

Stígamót héldu upplýsingafund um netspjallið sem nú hefur verið opið í ár fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára.

Spjallið er forvarnaverkefni gegn kynferðisofbeldi fyrir unglinga sem hefur það að markmiði að fræða ungmenni um heilbrigð sambönd, mörk og samþykki.

Um 160 manns hafa leitað til samtakanna í gegnum spjallið síðan það var opnað. Fæst höfðu sagt frá ofbeldinu áður af ótta við slæm viðbrögð svo sem að verða ekki trúað.

„Og það er áhugavert að sjá að helsta spurningin sem við fáum þarna inn er: Var þetta ofbeldi? Er ég í ofbeldissambandi? Var mér nauðgað? Þau eiga erfitt með að skilgreina sína eigin reynslu sem ofbeldi,“ segir Eygló Árnadóttir, verkefnastýra fræðslu og forvarna hjá Stígamótum í viðtali við RUV.

Þá bendir hún á að um 70 prósent þeirra sem leita til Stígamóta hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri eða fyrir átján ára aldur, og hafi ekki sagt frá því fyrr en löngu seinna, jafnvel áratugum síðar. Spjallinu er ætlað að auðvelda ungu fólki að segja frá og leita sér aðstoðar nafnlaust og í trúnaði.

Á upplýsingafundinum kom fram að algengast sé að notandinn sé sextán ára stelpa í ofbeldissambandi og að þrátt fyrir ungan aldur lýsi þær alveg sama mynstri og fullorðnir brotaþolar heimilisofbeldis gera.

Meðal skilaboða sem borist hafa eru einnig:

„Ég hélt áfram að segja nei en hann hætti ekki, síðan byrjaði hann að taka um hálsinn minn og kreista mjög fast þar til ég gat eiginlega ekki andað. Síðan loksins þegar ég var byrjuð að gráta og öskra þá hætti hann.“

„Ég veit ekki hvernig ég á að komast burt, þar sem hann hefur sagt við mig að hann muni fremja sjálfsmorð ef ég fer frá honum.”

„Hann spurði mig ekki, bara gerði það og ég sagði ekkert allan tímann og ég veit ekki hvort þetta hafi verið nauðgun eða ekki.“

„Hann suðaði þar til ég sagði já til að klára það bara af. Þá vildi hann alltaf meira, líka ef ég var veik og vildi slaka á.“

„Hann er ekkert það ofbeldisfullur, hann missir bara stundum stjórn á sér en hann er að gera sitt besta. Hver myndi hjálpa honum ef ég hætti með honum?”

„Þau vilja ekki fá stimpil, vera stelpan sem var nauðgað, óttast að brjóta upp vinahópinn eða fjölskylduna. Vilja ekki segja foreldrum frá, því við erum enn svolítið að kenna stelpum að láta ekki nauðga sér. Og hver vill viðurkenna fyrir foreldri að þú brást og lést nauðga þér?“ segir Eygló jafnframt. „Við þurfum greinilega að vera miklu duglegri við að tala um ofbeldi, enn þá duglegri.“

Kosið um þungunarrof í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna

Þungunarrof var meðal þeirra málefna sem Bandaríkjamenn kusu um í kosningunum þar í landi á dögunum. Í þremur ríkjum samþykktu kjósendur aðgerðir sem eiga að standa vörð um rétt kvenna til þungunarrofs.

Í Vermont samþykkti meirihluti kjósenda breytingar á stjórnarskrá ríkisins, sem kveður nú á um að réttur einstaklingsins til sjálfræðis þegar kemur að barneignum sé grundvallaratriði þess að ráða eign lífi. Þá megi ekki skerða þann rétt nema hagsmunir ríkisins séu í húfi.

Í Michigan var einnig samþykkt að tryggja rétt kvenna til þungunarrofs í gegnum stjórnarskrá ríkisins, en nú verður þar einnig kveðið á um réttindi einstaklingsins til þess að ráða öllum ákvörðunum þegar kemur að þungun og meðgöngu. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir að lög frá 1931 um nær algjört bann við þungungarrofi yrði í gildi en Michigan í kjölfar þess að hæstiréttur Bandaríkjanna snéri niðurstöðunni í Roe gegn Wade.

Í Kaliforníu samþykktu kjósendur einnig að gera breytingar á stjórnarskránni þar sem kveðið yrði á um algjöran rétt einstaklingsins til notkunar getnaðarvarna auk aðgengis að þungunarrofi. Fram að þessu kveður stjórnarskráin á um rétt til friðhelgi einkalífsins, sem hæstiréttur í Kaliforníu hefur túlkað sem svo að hann nái einnig yfir réttinn til þungunarrofs.

Í Kentucky og Montana var hins vegar kosið um tillögur til höfuðs réttindum kvenna til þungunarrofs. Niðurstöður þeirra kosninga liggja ekki fyrir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí