Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði um 60 milljörðum skárri á þessu ári en fjárlög gerðu ráð fyrir. Í stað 186 milljarða króna halla á fjárlögum er nú gert ráð fyrir 126 milljarða króna halla á þessu ári. Nú þegar efnahagslífið hefur jafnað sig á cóvid er stóra spurningin með hverju á að fylla upp í þetta gat.
Staðan er betri þegar horft er til hallans fyrir vexti og fjármagnskostnað. Gert var ráð fyrir að útgjöldin yrðu 131 milljarði króna hærri en tekjurnar. En nú er reiknað með að útgjöld verði 38 milljörðum meiri en tekjurnar. Þetta er bati upp á 93 milljarða króna.
Hvað breyttist?
Tekjurnar hækkuðu um 111 milljarða króna vegna meiri eyðslu ferðamanna og þar með hærri virðisaukaskatts. Tekjurnar hækkuðu einnig vegna aukinnar atvinnuþátttöku og þar með hærri tekjuskatts. Og loks vegna aukinnar neyslu vegna aukinna tekna, en ekki síður vegna aukinnar verðbólgu og þar með hærri virðisaukaskatts til ríkisins.
Á móti hækkuðu útgjöld aðeins um 17,5 milljarð króna. Á móti auknum launakostnaði vegna hagvaxtarauka og kostnaði vegna styttingu vinnutíma vaktavinnufólks lækkuðu fyrirhuguð útgjöld mest vegna minna atvinnuleysis en gert var ráð fyrir. Kostnaður vegna flóttafólks eykst líka, vegna kaupa á dýru húsi Landsbankans undir ráðuneyti og hækkun endurgreiðslu kostnaðar vegna kvikmynda.
Almennt dregur aukin verðbólga úr halla ríkissjóðs, alla vega til skamms tíma. Útgjöld eru sum hver á fastri krónutölu en tekjurnar hækka í verðbólgunni, virðisaukaskattur beint og tekjuskattur óbeint með launaskriði. Álagið vegna verðbólgunnar kemur fram hjá þeim stofnunum sem eru með framlag í fastri krónutölu í fjárlögum en þurfa svo að glíma við hækkandi verðlag á því sem þær þurfa að kaupa.
Áhrif verðbólgunnar á ríkissjóð kemur hins vegar neikvætt fram í reiknuðum fjármagnskostnaði. Á hann falla verðbætur á höfuðstól allra lána. Bætt afkoma úr rekstri upp á 93 milljarða króna féll niður í 60 milljarða króna vegna þessa, verðtryggð útistandandi skuldabréf voru hækkuð í bókum ríkisins. Þetta er reiknað tap sem kemur til greiðslu á næstu árum en þrengir í raun ekki að ríkinu í dag.
Þetta endurmat á afkomu ríkissjóðs sýnir hversu mikil áhrif fjölgun ferðamanna eftir cóvid hefur haft á efnahagslífið. Áhrifin af heimsfaraldrinum er að mestu horfin úr bókum ríkissjóðs. Nema hvað eftir sitja miklar skuldir sem þarf að borga af.
Til þess að ráða við vaxtagreiðslur og greiða skuldirnar niður þyrfti reksturinn sjálfur að skila 80-100 milljörðum í afgang, eftir því hversu hratt fólk vill greiða skuldirnar niður. Í ár skilar reksturinn 38 milljarða króna halla. Vandinn er því í raun gat upp á um 125 milljarða króna eða svo.
Hvernig stoppa á upp í það gat er þraut sem enn er óleyst. Hvernig á að búa til afgang af rekstri ríkissjóðs svo hægt sé að borga vextina af skuldunum og jafnvel greiða þær niður? Með hverju á að fylla þetta gat?
Pólitískar deilu næstu missera munu snúast um þessa þraut. Hversu mikið á að sækja til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda í hækkun skatta og gjalda? Eða hversu mikið á að skera niður opinbera þjónustu, og þá hvar? Svo vilja sumir selja eignir ríkisins til að fylla gatið.
Aukið afl hagkerfisins skilar einhverju en á móti koma líka ný verkefni og gríðarstór vanræksluskuld nýfrjálshyggjuáranna, sem skildi innviði og grunnkerfi samfélagsins eftir feyskin og veik.