Hrunið sló Guðbjörgu niður en lyfti BK-eignum upp

Guðbjörg Aðalheiður Haraldsdóttir er ein þeirra sem missti íbúðina sína í Hruninu. Lengi á eftir var hún heimilislaus, lifði nánast sem allslaus flóttakona. Íbúðalánasjóður færði BK-eignum íbúðina, félagi eigu auðmanna. Og þeir auðguðust stórkostlega á íbúðinni hennar Guðbjargar, eins og af öðrum eignum sem þeir komust yfir og sem teknar höfðu verið af fólki sem missti vinnuna og þar með fótanna í miðju Hruninu.

Fyrir þúsundir fjölskyldna var Hrunið bölvun, áfall sem fólk hefur ekki náð sér af. En fyrir aðra, mun fámennari hóp, var Hrunið blessun, tækifæri til að komast yfir íbúðir á lágu verði, leigja þær á háu verði og bíða þess að þær myndu hækka í verði og færa þeim mikinn auð.

Það er augljóst þegar þessi saga er skoðuð að seinni hópurinn, sá sem auðgaðist af Hruninu, auðgaðist af áfalli hinna. Við getum velt fyrir okkur innræti þeirra sem notfærðu sér þessar aðstæður. En auðvitað eigum við fyrst af öllu að velta fyrir okkur hvers konar samfélag það er sem lætur svona gerast. Og hverjum þjónar það ríkisvald sem ýtir eignum þeirra sem standa veikt til þeirra sem eiga mikið fyrir en vilja sífellt eignast meira?

Til að skýra þetta skulum við segja tvær sögur af einni íbúð.

EIN SAGA AF ÍBÚÐ
Hrunið kippir fótunum undan fólki

Guðbjörg Aðalheiður Haraldsdóttir segist hafa keypt íbúð í húsinu á Hringbraut 4 í Hafnarfirði árið 2005 á 16 milljónir króna og borgað út 8 milljónir króna. Það er nálægt 18,5 m.kr. að núvirði. Hún hafi þá átt 50% af íbúðinni. Hún var í góðri traustri vinnu og með ágæt laun. Allt í lukkunnar velstandi, eins og sagt er.

Eina vandamálið var að henni linnti ekki vel við einn samstarfsmann sinn og þegar hún henni bauðst að skipta um vinnu sló hún til. Hún réð sig í verslun sem fór svo á hausinn haustið 2008. Það var komið hrun og Guðbjörg var atvinnulaus kona á sextugs aldri í miðri dýpstu efnahagslægð sem hafði gengið yfir landið. 

Hringbraut 4 í Hafnarfirði.

Eftir að hafa reynt að fá vinnu hér heima reyndi hún fyrir sér í Noregi og líka í Svíþjóð, ætlaði að vinna sig út úr vandanum. En þar úti voru fyrirtækin heldur ekki að leita að konum á seinni hluta starfsævinnar. Það hefur verið sýnt fram á það í könnunum víða um lönd að það er akkúrat fólk á þessum aldri sem á erfiðast að komast aftur í vinnu ef það missir vinnu. Og það á fremur við um konur en karla.

Gat ekki haldið öllum lánum í skilum

Við Hrunið hækkuðu húsnæðislán skarpt og það kom illa við þau sem misst höfðu vinnu eða lækkað í tekjum vegna samdráttar. En mest hækkuðu gengistryggð bílalán og Guðbjörg hafði tekið þannig lán svo dóttir hennar gæti keypt sér bíl.

Þegar hún sat við eldhúsborðið og horfði á alla reikninganna sá hún að í raun skipti engu hvað hún gerði. Ef hún borgaði þennan reikning þá færi þessi í vanskil. Hún sótti því um frystingu í bankanum en fékk synjun. Þá leitaði hún til umboðsmanns skuldara sem útvegaði henni lögfræðing, sem hún heyrði reyndar ekkert í næstu árin.

Þegar hann hafði loks samband sagði hann Guðbjörgu að þetta væri vonlaust, hún yrði að selja íbúðina. Hún vissi svo sem að þannig hlaut þetta að enda. Hún hefði getað unnið eitthvað, en bara tímabundið og fyrir lágmarkslaun sem dugðu rétt fyrir framfærslu en ekki til að fóðra lánin sem hækkuðu bara og hækkuðu. Lögmaðurinn vildi ganga frá sölunni strax og leiddi Guðbjörgu í aðra deild skrifstofunnar, þar sem rekin var fasteignasala. Þar var tilbúinn kaupsamningur upp á 19 m.kr. Kaupandinn var kornung stúlka, varla eldri en 19 ára. 

Íbúðalánasjóður kaupir íbúðina á uppboði

Guðbjörg sætti sig ekki við þetta og spurði hvort hún mætti ekki selja sína íbúð annars staðar, velja sinn eigin fasteignasala. Lögmaðurinn sagði það ekki ganga upp og gekk hart að Guðbjörg að selja. Hún þráaðist við og fór heim með samninginn undirritaðan og bað bróður sinn um stuðning. Hann komst að því að stúlkan sem átti að kaupa íbúðina tengdist lögmannsstofunni fjölskylduböndum. Og Guðbjörg neitaði að skrifa undir. Eftir það heyrði hún ekki meira frá lögmanninum.

Síðan leið tíminn og á endanum tók Íbúðalánasjóður íbúðina af Guðbjörgu á nauðungarsölu. Hún hafði misst vinnuna þegar fyrirtækið sem hún vann hjá fór í þrot í miðju hruni. Og eftir það átti hún engan sjens. Hún leitaði eftir hjálp í bankanum og hjá umboðsmanni skuldara en upplifði að enginn hefði í raun áhuga á að hjálpa henni, aðeins nýta veika stöðu hennar.

Heimilislaus flóttakona

Tjaldvagninn sem var heimili Guðbjargar eftir að hún missti íbúðina.

Eftir að Guðbjörg missti íbúðina tók við tímabil upplausnar. Fyrst um sinn bjó hún í tjaldvagni, síðan dvaldi hún hjá syni sínum á Tælandi, stundum bjó hún í húsi og sá um hundana meðan eigendurnir voru á ferðalagi. Í öðrum tilfellum vökvaði hún blóm, leigði örlitla íbúð eða fékk að gista hjá vinum. Hún var eins og flóttakona, var heimilislaus þótt hún hafi alltaf haft þak yfir höfuðið.

Guðbjörg segist alltaf hafa getað aðlagað sig að aðstæðum, þótt þær væru slæmar. Þegar hún bjó í tjaldvagninum fór hún í sund til að baða sig áður en hún mætti til vinnu. Þegar hún var ekki með vinnu tók hún út lífeyrissparnaðinn til að lifa af. En þetta ástand hafði slæm áhrif á hana. Einn daginn missti hún allt afl og leitaði til læknis sem sagði hana örmagna. Hún segist hafa verið dæmd öryrki.

Fyrir tveimur árum fékk Guðbjörg úthlutað íbúð hjá Félagsbústöðum og eignaðist heimili í fyrsta sinn eftir að hún missti íbúðina í Hafnarfirði. Þá fyrst hætti Hrunið að hrynja yfir hana. Hún hefur ekki risið upp aftur. En hún er hætt að hrynja.

ÖNNUR SAGA AF SÖMU ÍBÚÐ
Mikill gróði vegna hækkunar eignaverðs

BK-eignir keyptu íbúðina hennar Guðbjargar af íbúðalánasjóði í maí 2016 ásamt 24 öðrum íbúðum í Hafnarfirði á 647,8 m.kr.. Það gera um 25,9 m.kr. á íbúð. Verðið var að meðaltali 4,8% yfir fasteignamati.

Íbúðirnar voru 2.483 fermetrar. Fermetraverðið í kaupunum var því tæplega 261 þús. kr. Samkvæmt fasteignasjá Þjóðskrár var fermetraverð í Hafnarfirði í maí 2016 316 þús. kr. Kaupverðið var því 17,5% undir markaðsverði.

Ef við færum þetta yfir á núvirði þá var kaupverðið á 25 íbúðum 832 m.kr. Markaðsvirðið var 1.008 m.kr. Afslátturinn sem BK-eignir fékk var því 176 m.kr. á núvirði.

Ef við deilum þessu niður á íbúðir þá fékk BK-eignir 7 m.kr. fyrir að kaupa íbúð Guðbjargar. Ef við deilum þessu niður á fermetra var afslátturinn 5,6 m.kr. Þar sem fermetrinn í smærri íbúðum eru dýrari og þær hafa hækkað meira má taka bilið þarna á milli og áætla að afslátturinn á íbúðinni hafi verið 6,3 m.kr.

Fasteignaverð hefur hækkað mikið frá vorinu 2016. Nýjustu upplýsingar úr þinglýstum kaupsamningum segja að fermetraverðið í Hafnarfirði sé komið í 737 þús. kr. á núvirði. Markaðsvirði íbúðanna 25 er þá komið upp í 1.830 m.kr. Hagnaður BK-eigna af íbúðunum 25 á þessum tæplega sex og hálfa ári er þá 998 m.kr., tæpur milljarður.

Ef við deilum þessu niður á íbúð og fermetra þá er verðmæti íbúðarinnar hennar Guðbjargar nú 35,5 m.kr. hærra á núvirði en það sem BK-eignir borguðu fyrir hana.

Mikill gróði vegna hækkunar húsaleigu

Íbúðin var í útleigu þegar BK-eignir keyptu hana. Leiguverðið var tæplega 150 þús. kr. á núvirði. Eftir kaupin var leigan hækkuð í nokkrum áföngum, er nú rétt tæplega 230 þús. kr. Hækkunin nemur 80 þús. kr. á mánuði, 960 þús. kr. á ári.

Ef við horfum yfir tímann sem BK-eignir hafa leigt út íbúðina hafa þær innheimt tæplega 5,5 m.kr. á núvirði umfram uppreiknaða leiguna sem Íbúðalánasjóður tók.

Áætla má að hagur BK-eigna vegna kaupanna sé ekki minni en 41 m.kr. Að mestu má rekja hann til hækkunar fasteignaverðs, en að nokkru til oftekinnar leigu.

Sölvi Blöndal stýrði innkomu Gamma inn á fasteigna- og leigumarkaðinn og var stjórnarformaður Almenna leigufélagsins. Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga valdi hann hagfræðing ársins 2017 fyrir þau störf.

Ógnargróði BK-eigna

Meðal eigenda BK-eigna voru Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson, viðskiptafélagar Björgólfs Thors Björgólfssonar. BK-eignir runnu inn í Almenna leigufélagið sama ár og íbúðin hennar Guðbjargar var keypt af Íbúðalánasjóði. Almenna leigufélagið var stofnað af Gamma á sínum tíma, en Gamma var meðal fyrstu hrægamma- eða brasksjóðanna sem hóf stórfelld uppkaup á íbúðarhúsnæði eftir Hrun og útleigu þess fyrir okurleigu.

Inn í Almenna leigufélaginu voru fjölmargar eignir sem keyptar voru af Íbúðalánasjóð og þeim fjölgaði við samrunann við BK-eignir. Á listum sem Íbúðalánasjóður sendi frá sér eftir fyrirspurnir Þorsteins Sæmundssonar þingmanns voru 249 íbúðir seldar til BK-eigna og 450 eignir til Almenna leigufélagsins, samtals 699 eignir.

Þegar Langisjór keypti allt hlutafé í Almenna leigufélaginu, sem þá hét Alma, á 11 milljarða króna í fyrra voru 1.100 íbúðir inn félaginu. Af þeim voru 699 frá Íbúðalánasjóði. Söfnun Íbúðalánasjóðs á þessum íbúðum og sala til þessara brasksjóða var því forsenda fyrir uppbyggingu Ölmu, eins og annarra leigufélaga.

Hagnaður Ölmu í fyrra var 12,4 milljarðar króna. Íbúðunum hafði fjölgað eitthvað, en leiða má að því líkur að hagnaður á hverja íbúð hafi verið nærri 10 m.kr. Ástæðan er fyrst og fremst hækkun fasteignaverðs.

Langisjór keypti eignirnar á markaðsvirði. Við söluna innleystu eigendur BK-eigna endanlegan hagnað af kaupunum á íbúðunum frá Íbúðalánasjóði.

Langisjór er félag í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, fjölskyldu sem varð rík af kjúklingarækt og auðug af uppkaupum á fyrirtækjum í matvælaframleiðslu. Að undanförnu hafa systkinin einnig keypt stóra hluti í fasteignafélögunum í Kauphöllinni: Eik, Regin og Reitum.

EFTIRMÁLI

Það eru fjölmargar fjölskyldur sem enn hafa ekki náð sér eftir Hrunið, þúsundir. Fjárhagslega áfallið eyddi ekki bara sparnaði fólks heldur hrakti það út á leigumarkað sem gróf undan velferð þess. Þetta fólk kvíðir eftirlaunaaldrinum, þegar það mun þurfa að lifa af ellilífeyri á leigumarkaði. Og það getur ekki stutt börn sín til íbúðarkaupa, sem er grundvöllur þess að þau geti forðast leigumarkaðinn, öðlast fjárhagslegt sjálfstæði.

Á meðan Hrunið lék þessar fjölskyldur svona illa, færði það öðrum mikinn auð. Og sá auður var byggður á áföllum þeirra fjölskyldna sem urðu undir í Hruninu.

Og áhrifin eru víðtækari, því í krafti þess auðs sem Hrunið færði stóru leigufélögunum hafa þau náð að stýra leigumarkaðinum og þrýst upp leigunni. Og dregið þar með fleiri niður í fjárhagslegt ósjálfstæði.

Og hærri leiga hefur freistað fleiri til að kaupa íbúðir til að leigja út. Það hefur verið ein besta fjárfestingin á Íslandi undanfarin ár, að láta leigjendur greiða niður íbúðalán á eignum sem hækka sífellt í verði. Og ásókn fólks og fyrirtækja inn á leigumarkaðinn hefur þrýst upp eignaverðinu svo æ færri ráða við að komast inn á eignamarkaðinn. Æ fleiri sitja fastir á leigumarkaði.

Þegar Guðbjörg Aðalheiður Haraldsdóttir var sextán ára var hún valin Fulltrúi ungu kynslóðarinnar í samkomu í Austurbæjarbíói. Þetta var fegurðarkeppni og hæfileikakeppni. Guðbjörg las frumsamið ljóð. Nú er hún fulltrúi eldri kynslóðarinnar sem fer inn á eftirlaunaaldurinn eignarlaus og búinn að éta upp séreignasparnaðinn. Ástæðan? Verslunin sem hún vann hjá fór á hausinn í djúpri efnahagslægð. Þegar samfélagið er grimmt og sniðið að þörfum braskara og hrægamma þarf ekki meira til.

Frétt Morgunblaðsins af vali á Fulltrúa ungu kynslóðarinnar 1970.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí