Iceland Seafood hrynur í kauphöllinni

Kauphöllin 18. nóv 2022

Það sem af er degi hafa hlutbréf í Iceland Seafood fallið um 9,3% eftir tilkynningu um áframhaldandi erfiðleika í rekstri fyrirtækisins í Bretlandi. Við þetta hafa 1.900 m.kr. horfið af verðmæti félagsins.

Gengi bréfanna er nú 6,8 krónur á hlut en félagið var skráð á aðallista kauphallarinnar á 7,0 krónur haustið 2019. Þetta er í fyrsta sinn sem gengi bréfanna fer niður fyrir þá stöðu.

Gengi Iceland Seafood reis með öðrum bréfum í kauphöllinni í cóvid-eignabólunni sem knúð var áfram af lágum vöxtum Seðlabankans. Hæst fór það í 18,0 kr. vorið 2021. Síðan þá hefur verðmæti félagsins lækkað um 30,4 milljarða króna.

Stærstu hluthafar Iceland Seafood eru félög í eigu Bjarna Ármannssonar fyrrum bankastjóra Glitnis sem jafnframt er forstjóri, Jakobs Valgeirs Flosasonar kvótakóngs í Bolungavík, Kaupfélags Skagfirðinga og Nesfisks í Suðurnesjabæ. Þessir fjórir eru viðlíka stórir og eiga samanlagt rétt tæp 42%. Hlutdeild lífeyrissjóðanna er heldur minni í Iceland Seafood en í flestum félögum í kauphöllinni.

Stjórn félagsins hefur sett deild sína í Bretlandi í sölu og afskrifað það í bókum félagsins.

Myndin er af Bjarna Ármannssyni forstjóra og stærsta eigenda.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí