Kristið fólk mótmælir aðför gegn flóttafólki í nafni trúar og siðferðis

Flóttafólk 4. nóv 2022

„Við mótmælum, í nafni kristinnar trúar og almenns siðferðis, stefnu og framkvæmd ríkisstjórnarinnar í máli hinna brottvísuðu sem með valdi voru flutt út landi og rænd mannvirðingu sinni og rétti til sanngjarnar málsmeðferðar,“ stendur í yfirlýsingu níu manns skrifa undir á Vísi, fólk sem segist vera kristið.

„Það vekur sérstakt óbragð í munni og sorg í hjarta að fylgjast með framgöngu íslenskra yfirvalda í málefnum hælisleitenda upp á síðkastið,“ segir í yfirlýsingunni.„ Eins og allur þorri landsmanna, sitjum við, sem þetta skrifum, uppi með ótal spurningar sem snerta grunngildi og sjálfsmynd okkar sem Íslendinga, og hvernig stefna stjórnvalda í málaflokknum endurspeglar það. Við neitum að skrifa undir og samþykkja það sem hér hefur gerst.“

Þau sem skrifa greinina eru: Ása Laufey Sæmundsdóttir, prestur meðal innflytjenda, Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Fossvogi, Heiða Björg Gústafsdóttir djákni í Keflavík, Heiðrún Helga Bjarnadóttir, prestur á Borg á Mýrum, Hjalti Jón Sverrisson sjúkrahúsprestur, Ívar Valbergsson, sóknarnefndarmaður í Keflavíkurkirkju, Kristín Þórunn Tómasdóttir, prestur á Egilsstöðum, Toshiki Toma prestur innflytjenda, og Þuríður Björg W. Árnadóttir, prestur á Hofi.

Síðar í greininni segir: „Burt séð frá tæknilegum atriðum og pólitískum markmiðum, þá finnst okkur stærsta málið – fíllinn í stofunni ef svo ber undir – það hvaða augum við lítum meðbræður okkar og -systur. Hvaða gildi hafa mannréttindi og mannvirðing í okkar augum og yfir hver nær þessi virðing og þessi réttindi? Aðgerðir stjórnvalda og embættismanna í málefnum hælisleitenda benda til þess að hér er fólk ekki litið sömu augum og því ekki ætluð sömu réttindi. Er það þannig sem við viljum hafa hlutina?“

Hér má lesa greinina: Grimmd og slægð eða mann­úð og miskunn­semi?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí